Er að horfa á Narcos í annað skiptið
Oscar Puerto er þrítugur tölvunarfræðingur, fæddur og uppalinn í höfuðborg Hondúras, Tegucigalpa. Oscar hefur búið í Reykjanesbæ frá árinu 2012 og stundar nú mastersnám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Oscar les mikið af bókum um sjálfseflingu og gagnlega hugsun en honum finnst fólk nú til dags skorta sjálfstraust. Hvað sjónvarpsþætti varðar þá er hann að horfa í annað skipti á Narcos seríurnar.
Bókin: Þessa dagana les ég mikið af bókum um sjálfseflingu og gagnlega hugsun. Ég hef nýlega lokið við að lesa bækurnar Grit: The Power of Passion and Perseverance eftir Angelu Duckworth og Quantum Memory Power eftir Dominic O’Brien. Þetta eru ekki gamanbækur en trúðu mér, þær efla sjálfstraust manns til muna, sem mér finnst fólk nú til dags skorta.
Þættirnir: Ég er að horfa á þættina Narcos í annað skipti. Það hafa verið framleiddir margir þættir um Pablo Escobar og fíkniefnastríðið í Kólumbíu en Suður-Amerísk sjónvarpsgerð er rosalega dramatísk. Þessi Netflix þáttaröð er mun vandaðri og fagmannlegri framleiðsla þrátt fyrir að leikarinn sem leikur Escobar tali ekki góða spænsku því hann er Brasilíumaður. Önnur þáttaröð sem ég mæli með heitir Easy og er um sex vini í Chicago og líf þeirra í nútímasamfélagi.
Tónlistin: Nýlega uppgötvaði ég breska söngkonu sem heitir Lianne La Havas. Hún lítur út dálítið eins og Beyoncé en tónlist þeirra er gjörólík. Platan hennar, Blood, er mjög góð. Ég hlusta líka á nokkrar Latín-amerískar hljómsveitir, þar á meðal mexíkönsku sveitina Matilde Band. Þeir syngja á þrem tungumálum, spænsku, frönsku og ensku og spila popp blandaða jazztónlist. Mæli með.
Breska tónlistarkonan Lianne La Havas.