Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 12. nóvember 1999 kl. 22:54

ENN ER AF NÓGU AF TAKA Í „SÖGU KEFLAVÍKUR" 1920-1949

Hér eftir ætla ég að hafa nafnið á þessari bók innan gæsalappa, það er niðurstaða mín eftir rækilega íhugun um það, sem mér sýnist að þessi bók muni skila til framtíðarinnar. Hvort bókin hafi verið lesin mikið skal ósagt látið, en furðu margir haft samband við mig og hvatt mig til þess að fjalla meira um bókina. Af nægu er að taka, sem mér og fleirum hreinlega sárnar. Að þessu sinni ætla ég að fjalla um „ slaginn” í Draugnum að kvöldi 16. maí 1936, margir eru furðulosnir yfir umfjöllun þess atburðar í bókinni. Laugardaginn 16. mai 1936, auglýsti unglingadeild Slysavarnarfélags Íslands í Keflavík, dansleik í Draugnum, sem var eina samkomuhúsið eftir að Skjöldur brann 30. des. 1935, með hörmulegum afleiðingum. Ballið skyldi standa frá kl. 9.30 um kvöldið til kl. 2 eftir miðnætti, samkvæmt leyfi hreppsstjóra. Tiðindalaust var á ballinu þar til kl. 01.30 að Lárus Salamonsson, fyrsti lögregluþjóninn í Keflavík, tilkynnir að ballinu væri lokið og skipar harmoníkuleikaranum að hætta að spila. Þessu mótmæltu ballgestir. Formaður unglingadeildarinnar steig þá upp á bekk í salnum og tilkynnti að ballið héldi áfram til kl. 2, samkvæmt því, sem auglýst hafði verið og skipaði harmoníkuleikaranum að halda áfram að spila, eins og hann hafði verið ráðinn til. Lárus skipaði fólkinu út og ætlaði að stoppa spilarann, þannig hófust ryskingarnar. Söguritari bókarinnar birtir viðtal Lárusar við blaðamann Alþýðublaðsins: „Tvegga tíma slagsmál lögregluþjóns við drukkna menn, hann barinn, rifin af honum fötin, slitin af honum kylfan, hann eltur heim og barinn meir”. Söguritari bætir um frá eigin brjósti : „ Skipti þá engum togum að verstu fólin, ( leturbreyting mín ) réðust á Lárus og lömdu hann í staðinn”. Ég þekkti flesta sem koma við sögu og kynntist nokkrum vel síðar, var t.d. nokkru seinna á sjó með tveimur þeirra, sem söguritari titlar „verstu fólin“. Báðir voru þeir mestu ljúflingar sem gott var fyrir ungling að vera með og þiggja leiðbeiningar hjá, þeir áttu aldrei í útistöðum við nokkurn mann, svo ég viti. Líkt held ég að sé óhætt að segja um aðra, sem við sögu komu, utan að einn hafði áður verið eitthvað viðriðinn bruggmál, sem ekki þótti tiltökumál á þessum árum, reyndar ekki óalgengur heimilisiðnaður. Ég er mjög ósáttur við að þessir heiðursmenn fái þessi eftirmæli, þar sem saga bæjarins okkar á að heita rakin í stórum dráttum. Ég aflaði mér því ljósrita af því sem fram fór í lögreglurétti Gullbringu- og Kjósarsýslu um þennan fræga slag. Það hefði söguritara verið innan handar að gera, ef hann hefði haft nokkurn áhuga á staðreyndum málsins. Réttað var í málinu strax næsta dag, settur dómari var Valdimar Stefánsson. Fyrstur mætti fyrir réttinn Lárus Salomonsson, áminntur um sannsögli. Framburður Lárusar tekur átta þéttskrifaðar síður í stórri bók. Mikið ber þar á milli framburðarins og þess sem hann sagði blaðamönnum. Lárus telur sig hafa komist að samkomulagi við formann Slysavarnardeildarinnar, (ekki formann unglingadeildarinnar, sem hélt ballið), um að skemmtuninni yrði lokið fyrr en ætlað var, þegar hann kom úr Reykjavík um kvöldið. Lárus segist hafa varist öllum höggum, en einn hafi tekið sig fantatökum, þegar hann ætlaði að koma handjárnum á mann, sem hann hafði verið að togast á við, um harmoníkuleikarann. Ekki minnist Lárus á að einkennisbúningur sinn hafi rifnað, aðeins að hann hafi misst húfuna í stimpingunum. Ekki nefnir hann að hafa verið eltur heim og barinn þar, heldur hafði hann, tekið tvo heim með sér og sent annan á símstöðina til þess að biðja um samband fyrir sig til Reykjavíkur, svo hann gæti beðið um hjálp og ekki stóð á því að Lárus fengi sambandið. Ekki verður betur séð af því sem fram kemur í málskjölum, en að þá hafi slagnum verið lokið, en Lárus fer út aftur og hefst þá seinni lotan sem virðist hafa endað með því að hann kom handjárnum á þann, sem til stóð í upphafi að handtaka, með góðra manna hjálp eftir mikla pústra. Á eftir Lárusi komu 4 helstu „sakborningar “ fyrir réttinn. Hjá þeim kom það helst fram að enginn taldi sig hafa barið Lárus en einn tekið hann fangbrögðum. Næsta dag 18. maí komu 12 vitni fyrir réttinn, sem flest eða öll höfðu reynt að veita Lárusi lið. Enginn kannaðist við að hafa séð að Lárus væri barinn, en staðfest var að einn maður hafi tekið hann fangbrögðum. Símstöðvarstjórinn taldi sig ekki hafa orðið fyrir hnjaski sem orð væri á gerandi, fyrr en hann reyndi að aðstoða Lárus í annarri lotunni. Hann vildi þó engann ákæra. Einn kvartaði um sprungna kinn og glóðarauga, sem hann hlaut þegar hann var hindraður í að aðstoða Lárus. Hann ætlaði að krefjast bóta. Allir voru frjálsir að loknum þessum yfirheyrslum. Það sem mesta furðu vekur er að þrátt fyrir ítrekaða leit finnst ekki í bókum réttarins að neinir dómar hafi verið kveðnir upp í framhaldi af þessum réttarhöldum. Lárus sagði starfi sínu lausu um haustið, að sögn söguritara „af alveg sérstökum ástæðum”. Vissulega hlýtur lögreglumaður, eins og þeir nú kjósa að nefna sig, að vera réttháir, hvar mörkin eru skal ekki dæmt um hér, hitt er víst að Lárus kom óorði á Keflvíkinga, sem lengi loddi við og síst var ástæða til þess að endurvekja. Nær hefði verið að fara að hætti dómarans og lofa því að sofa. Blöðin birtu ekki málalok frekar en söguritarinn, sem telur „ástæðulaust að fara nánar út í málalyktir “. Ólafur Björnsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024