Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Engin jól nema rifið sé í spil
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 13:14

Engin jól nema rifið sé í spil

Jólaspjall VF

Grunnskólakennarinn Berglind Kristjánsdóttir hefur gaman af því að spila með fjölskyldu og  vinum um jólin. Áður fyrr var hún frekar vanaföst en hefur slakað á í þeim efnum síðustu ár. Berglind segir að persónulegar og óvæntar jólagjafir hitti alltaf í mark, en þannig gjöf er einmitt sú eftirminnilegasta sem hún hefur fengið.

Fyrstu jólaminningarnar?
„Fyrstu jólaminningarnar eru hjá ömmu og afa á Sólhaga. Það voru alltaf margir í mat hjá ömmu og afa þar sem hangikjöt var á boðstólum með tilheyrandi meðlæti. Hlustað var á jólamessuna í útvarpinu áður en það var borðað. Þá fékk ég alltaf að opna einn pakka fyrir matinn sem hélt spennustiginu aðeins niðri í biðinni eftir pökkunum. Eftir pakkagleðina var alltaf sami eftirrétturinn, rjómaterta með ávöxtum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólahefðir hjá þér?
„Það hafa verið að skapast nýjar hefðir síðustu ár vegna breyttra aðstæðna. Nú hefur þetta snúist og eru það börnin okkar sem fá að opna pakka fyrir matinn á aðfangadag líkt og ég fékk. Síðustu 7 ár höfum við verið á okkar heimili á aðfangadag en fengið foreldra okkar og bræður mína til okkar nánast á hverju ári. Undanfarin ár höfum við síðan farið í skötuveislu til bróður mannsins á Þorláksmessu. Annars erum við bara í rólegheitum öll jólin, slökum á og reynum að rífa í spil með fjölskyldu og vinum.“

Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
„Því miður þá þróast það alltaf þannig að kokkurinn gerir mest í eldhúsinu, mig langar alveg að vera dugleg en stundum er bara dálítið þægilegt að hafa einhvern sem er með þetta á hreinu. Jólamaturinn er hans en ég er duglegri í bakstrinum.“

Jólamyndin?
„Klárlega „Christmas Vacation“ held að ég hafi horft á hana hver einustu jól síðan 1996.“

Jólatónlistin?
„Ég er alæta á tónlist og eru öll jólalög yndisleg svona yfir jólahátíðina. En lagið ,,Það snjóar“ með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni og gamla góða „Wham“ lagið „Last Christmas“ eru í uppáhaldi.“

Hvar verslarðu jólagjafirnar?
„Eiginlega bara hér og þar. Ef ég kemst erlendis þá reyni ég ávallt að kaupa sem mest þar, bæði meira úrval og betra verð.“

Gefurðu mikið af jólagjöfum?
„Bara hæfilega margar held ég.“

Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Ég var alltaf frekar vanaföst en hef slakað á síðustu ár. En ég sendi alltaf jólakort og er rúntur tekin með þau og jólapakkana til ættingja og vina sem eru hér á svæðinu. Þá eru heldur engin jól nema að rífa í spil með fjölskyldunni og helst a.m.k. einu sinni með vinkonunum. Einnig fer ég alltaf í kirkjugarðinn og tendra þar ljós.“

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Persónuleg úrklippubók sem ég fékk frá manninum mínum árið 2006. Þar eru ótal minningar í myndum og fallegum orðum sem ég held mikið upp á. Hann kom mér svo aftur á óvart síðustu jól og bætti við bókina. Þetta er án efa fallegasta og besta gjöf sem ég hef fengið og mun aldrei gleyma henni.“

Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Í ár verður tvíréttað, hamborgarhryggur og nautalund með alls konar meðlæti. Í eftirrétt verður svo heimalagaður ís.“

Eftirminnilegustu jólin?
„Það er erfitt að velja á milli en held að það séu fyrstu jólin sem ég átti með frumburðinum og eiginmanninum. Annars eru flest öll jól ánægjuleg og ljúf í minningunni.“

Hvað langar þig í jólagjöf?
„Er aldrei með kröfur varðandi jólagjafir. Er þakklát fyrir allar gjafir sem ég fæ en eitthvað óvænt og persónulegt hittir alltaf í mark.“

Njarðvíkingurinn Sigurður Guðmundsson kemur flestum í jólaskap með laginu Það snjóar sem sjá má hér að neðan.