Engin gæludýr, nema bóndinn
Sólveig Ólafsdóttir er formaður kvenfélags Grindavíkur, hún er mikið fyrir ferðalög og keyrir á sumrin um Ísland með hjólhýsið. Sólveig er gift gosfíkli og að sjálfsögðu kíkti hún á nýjasta gosið.
Hvernig á að verja sumarfríinu? Keyra um landið með hjólhýsið og njóta.
Hver er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi og af hverju? Uppáhaldsstaðurinn á Íslandi já, þeir eru nú margir, t.d. finnst mér Landmannalaugar að Grænahrygg geggjaður og Kerlingarfjöll. Litirnir og landslagið heilla mig og þá sérstaklega þeir grænu.
Hvaða stað langar þig mest á sem þú hefur ekki komið á? Stórurð í Kverkfjöllum á Borgarfirði eystri.
Er einhver sérstakur matur í meira uppáhaldi á sumrin? Já, grillaður matur, gott salat og annað meðlæti.
Hvað með drykki? Íslenska vatnið er alltaf best en ef ég á að velja sumardrykk þá er það Aperil Spritz.
Hvað með garðinn, þarf að fara í hann? Já, sumarið kallaði á að dytta að, mála, slá og reyta arfa.
Veiði, golf eða göngur? Göngur eru málið fyrir mig, ég er ekki orðin nógu þroskuð fyrir golfið. Veiði, ég er ekki mikið fyrir hana þó ég sé búin að landa maríulaxinum. Náði því í Norðurá í fyrrasumar.
Tónleikar í sumar? Já, reyndar. 26. ágúst ætlum við hjónin á tónleika með Eros Ramazzotti.
Áttu gæludýr? Ég ólst upp með bæði hundum, köttum og stundum voru heimalingar líka á heimilinu. En í mínum búskap? Nei, engin gæludýr – nema bóndinn. Hann er bæði hlýðinn og góður svo það gengur bara vel að hafa hann á heimilinu.
Hver er uppáhaldslyktin þín (og af hverju)? Vanilla Black húsilmurinn frá AREON, hann ilmar svo vel.
Hvert myndir þú segja erlendum ferðamanni að fara/gera á Suðurnesjum? Fara Reykjaneshringinn. Okkar Golden Circle með stoppum á Brúnni milli heimsálfa, Reykjanesvita, Gunnuhver og Brimkatli. Síðan er auðvitað svo margt að gera í Grindavík, galleríin og veitingastaðir á heimsmælikvarða.
Fórstu að kíkja á eldgosið við Litla-Hrút? Já, auðvitað fór ég að nýja gosinu, búandi með gosfíkli og svo hef ég mjög gaman af göngum.