Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Energí & trú með Listefli: Skemmtilegt verkefni fyrir 18-25 ára um helgina
Fimmtudagur 25. ágúst 2011 kl. 12:52

Energí & trú með Listefli: Skemmtilegt verkefni fyrir 18-25 ára um helgina


Hefur þú áhuga á tónlist og langar þig til að reyna á þig í nýjum aðstæðum? Viltu vinna með flottu listafólki að skapandi verkefni? Þá er Listefli á Ljósanótt eitthvað fyrir þig.

Listefli á Ljósanótt er nýtt og spennandi verkefni með ólíkum hópum fólks. Verkefnið mun standa yfir dagana 26. til 28. ágúst nk. Verkefnið er unnið undir merkjum Energí & trú hjá Keflavíkurkirkju en verkefnisstjóri er Hjördís Kristinsdóttir.

Í samtali við Víkurfréttir segir Hjördís að Listefli á Ljósanótt sé ætlað fólki á aldrinum 18 til 25 ára. Horft sé til þeirra sem séu án atvinnu en vilji hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni. Þó sé öllum á þessum aldri velkomið að taka þátt og tónlistarmenntun sé ekki skilyrði. Þátttaka í verkefninu er ókeypis og það eina sem þarf er áhugi. Keflavíkurkirkja heldur utan um verkefnið og er í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun, félagsþjónustur sveitarfélaganna og fleiri. Þrátt fyrir að kirkjan sjái um verkefnið, þá er það ekki á trúarlegum nótum.

Aðalstjórnandi verkefnisins er Sigrún Sævarsdóttir Griffiths tónlistarkennari við Guildhall tónlistarskólann í London. Með henni verða m.a. þau Arnór Vilbergsson organisti, Valdimar Guðmundsson og Þorvaldur Halldórsson úr hljómsveitinni Valdimar og Jana María Guðmundsdóttir söng- og leikkona.

Hjördís segir ennþá nokkur sæti laus á námskeiðinu sem verður eins og verkstæðisvinna frá kl. 10 að morgni til kl. 17 síðdegis bæði laugardag og sunnudag. „Úr þessu verður til eitthvað verk sem síðan verður flutt á Ljósanótt í Reykjanesbæ um aðra helgi. Við fáum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í lið með okkur og þetta verður örugglega bæði spennandi og skemmtilegt“ segir Hjördís.

Framundan eru fleiri verkefni undir hatti Energí & trú. Í september og fram að jólum verður námskeiðið „Að lifa lífinu“ sem verður unnið eins og lífsleikniverkefni þar sem m.a. kemur fyrirlesari frá velgengni.is sem fjallar um það hvernig við getum notað peningana okkar á skynsaman hátt. Þar verður Energí & trú einnig í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Í vetur ætla þátttakendur í Energí & trú einnig að læra að búa til hollan og góðan mat, fara í sjálfseflingu og þá verður málþing í október þar sem Sigrún Sævarsdóttir mun koma aftur. Þar vilja aðstandendur Energí & trú heyra hvað hvetur ungt fólk áfram.

„Í framhaldi af því viljum við fara af stað með frumkvöðlaverkstæði þar sem ungt fólk getur t.a.m. lært að sækja í Evrópusjóði fyrir flott verkefni sem þau geta unnið að hér. Það er því nóg í gangi hjá okkur,“ segir Hjördís Kristinsdóttir, verkefnastjóri hjá Energí & trú.

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í Listefli, en námskeiðið fer fram um næstu helgi, geta sent skráningu á [email protected] eða hringt í síma 8460621. Taka skal fram nafn, aldur, netfang og símanúmer og hvers vegna þú vilt vera með í verkefninu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024