Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Endalok alheimsins frumsýnd í kvöld
Föstudagur 4. nóvember 2011 kl. 10:23

Endalok alheimsins frumsýnd í kvöld


Grindvíska atvinnuleikhúsið, eða GRAL hefur hægt en örugglega byggt upp starfsemi sína undanfarin ár. Leikfélagið byrjaði á því að setja upp einleik um Séra Odd V. Gíslason. Svo kom 3ja manna barnaleikrit, Horn á höfði, sem var sýnt fyrir fullu húsi í Grindavík við frábærar undirtektir áhorfenda á öllum aldri. Horn á höfði hlaut svo íslensku leiklistarverðlaunin – Grímuna árið 2009 sem besta barnasýningin og var í framhaldi færð í Borgarleikhúsið og sýnd þar við frábærar undirtektir. Allt þetta ber vitni um þau gæði og þann metnað sem leikfélagið leggjur í sýningarnar og alla umgjörð. Nú í október 2011 heimsfrumsýnir GRAL, Endalok alheimsins, glænýtt íslenskt leikverk í Grindavík. Á teikniborðinu er svo einnig fjölskyldusöngleikurinn HALARASS sem er sjálfstætt framhald af Horn á höfði.

Um hvað fjallar Endalok Alheimsins?
„Endalok alheimsins hafa átt sér stað og fjórar síðustu manneskjunar á jörðinni er fólk sem þú myndir ekki láta passa börnin þín. Þetta fjallar semsagt um það hvernig þetta fólk ætlar að halda áfram. Þetta er í raun soldið eins og hrunið okkar. Hvernig ætlum við að halda áfram? Ætlum við að halda gömlu góðu gildunum? Ætlum við að fjalla um siðferði og haga okkur eins og manneskjur eða ætlum við að halda áfram að bjarga bönkum og telja peninga?“ spyr Bergur Ingólfsson leikstjóri Endaloka alheimsins sem er senn verður sýnt í Kvikunni í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bergur heldur svo áfram „Í sýningunni eru persónur verksins að reyna að koma sér saman um eitthvað og svo er spurning hvort að þeim tekst það. Hagsmunaárekstrar eru gífurlegir. Setja þarf fólk í hlutverk og búa til goggunarröð. Þau eru í raun með hreint borð eftir að allt hefur hrunið, allir fara að berjast fyrir sínu plássi, þó svo að nóg sé til af plássinu.“


Fæðist hugmyndin að leikritinu í kjölfar hrunsins?

„Já algerlega. Þetta er ofarlega í hugum okkar allra og þegar Geir H. Haarde sagði guð blessi Ísland og skýrslan var gefin út þá hugsaði ég með mér að nú væri tækifæri til þess að við kæmum okkur öll saman um eitthvað heilbrigt en mér sýnist það tækifæri vera að renna okkur úr greipum. Mér líst ekki á blikuna ef umræðan í þjóðfélaginu endurspeglar hugarfarið.“


Bergur segir verkið þó ekki vera fullt af leiðinda pólitík, þó svo að hann voni að það sé einhver ádeila þarna inn á milli. „Þetta er fyrst og fremst gamanverk um þessa fjóru gölluðu einstaklinga sem eru að reyna hvað þeir geta að búa saman.“

Bergur segir æðsta markmið GRAL vera að efla leiklist og menningu í Grindavík og á Suðurnesjum sem og á Íslandi öllu. Það sé draumur þeirra að hægt sé að vera með leikhússtarfsemi í Grindavík sem laðar fólk allstaðar frá til að koma og njóta menningarinnar í Grindavík. „Því setjum við mikinn metnað í sýningarnar okkar og er hvergi slakað á gæðakröfum. Það leikhús sem við sköpum stenst fyllilegan samanburð við stóru leikhúsin sbr: LA, Borgó og Þjóðleikhúsið. Til vitnis um það ber að nefna það hér að GRAL fékk tilnefningu til Grímunnar árið 2008 fyrir besta handrit fyrir verkið 21 manns saknað,“ en gagnrýnendur hafa gefið GRAL einstaklega góða dóma fyrir bæði 21 manns saknað og Horn á höfði.


Hvernig gengur að halda úti atvinnuleikhúsi í Grindavík?
„Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, miðað við að við erum ekki með húsnæði. Við erum hópur fólks - hugmynda- og tækifærissmiðja. Bærinn er að koma til móts við okkur, sem og menningarráð Suðurnesja sem hefur verið með okkur í liði. Þetta er þriðja sýningin sem við setjum upp og við höfum þegar fengið styrk til að byrja á þeirri fjórðu frá menningarráðinu. Ein sýning er uppákoma, tvær sýningar er endurkoma, þriðja skiptið gerir þetta að seríu og við það fjórða erum við orðin að einhverjum pósti.“ segir Bergur og það má greina það á orðum hans að GRAL er komið til að vera.

Eru Suðurnesjamenn duglegir að sækja sýningar ykkar, eða er þetta fólk að koma af höfuðborgarsvæðinu?
„Ég held að meirihlutinn sé af höfuðborgarsvæðinu. Tilfinningin er sú að þetta sé svona í hlutfalli við íbúafjölda, þó svo að ég hafi ekki staðið við dyrnar og talið Suðurnesjamennina.“


Gagn og gaman


Hvers vegna hérna í Grindavík?
„Ég spyr sjálfan mig að þessu mjög oft. Ég veit það ekki, jú kannski það að alast hér upp og sjá áhugaleikfélagið í basli og kannski ekki mjög virkt. Ég hafði mikinn áhuga á leikhúsi sem barn og vildi gera eitthvað þessu líkt hér í bænum. Nú er ég orðinn fullorðinn og vinn við leikhús í Reykjavík. En það liggja líka tækifæri í þessu fyrir mig, að vinna að mínum hugmyndum í mínu umhverfi, og í mínu leikhúsi.“ Bergur segir að Grindavík gæti vel verið svefnbær þar sem fólk fer kannski frekar á kvöldin í höfuðborgina þar sem hér sé t.d. ekkert bíó. „Bærinn þarf ekkert að vera svefnbær. Þetta getur líka verið að hinn veginn, hér var bíósalnum lokað af því að það er svo stutt í bæinn að sækja alla menningu, það er líka stutt úr bænum hingað og því má þetta alveg vera öfugt. Ég vil líka láta gott af mér leiða, hvort sem það er í leikhúsinu eða annars staðar, mér finnst ég bæði gera gagn og hef gaman af.“


Ertu meira að fara út í leikstjórn?

„Já það gæti verið. Ég fékk tækifæri til að leikstýra Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu eftir að hafa leikstýrt Hornum á höfði hérna í Grindavík. Gralið finnst mér svolítið eins og að vera í hljómsveit, við vinnum þannig. Hérna fæ ég að framkvæma hugmyndir mínar, með vinum og samstarfsmönnum sem eru öll frábærir listamenn. Þegar mig langaði til að vera leikari sem lítill strákur, þá langaði mig til að leika, skrifa, leikstýra og gera þetta allt saman. Mér fannst starfið snúast um að vera leikhúsmaður, ekki bara leikari, Gralið gefur mér tækifæri til þess koma að öllum þessum þáttum.“


Hverju má fólk eiga von á í þessari sýningu?
„Það á von á því að kannast við ýmislegt úr eigin lífi og samfélaginu. Fólk mun vonandi hlæja með kökk í hálsinum og hugsanlega koma auga á eigin galla og annarra hér og þar og hafa gaman af,“ sagði Bergur að lokum.