Endalok alheimsins frumsýnd í Grindavík
Endalok alheimsins (e. Museum af massive mistakes) er bráðfyndinn harmleikur sem verður frumsýndur í Kvikunni föstudaginn 4. nóv. Verkið fjallar um síðustu fjórar mannverurnar á jarðríki sem reyna að komast að því hvernig - og hvort - hægt sé að halda áfram eftir endalokin. Einn leitar að mat í rústunum á meðan annar telur að skipulag sé eina leiðin til að lifa af. Síðasta konan þarf að gæta velsæmis á meðan karlarnir berjast um völdin. Hver á að elda síðustu ýsuna? Eru kartöflur nauðsynlegar með ýsunni eftir að heimurinn hefur farist? Er siðferðislega rangt að borða bækur? En að borða hvert annað?
Enginn hefur svar á reiðum höndum því allir forðast öll umræðuefni sem upp koma eins og heitan eldinn. Þetta er nýtt íslenskt leikrit eftir höfunda Horna á höfði en er ekki ætlað börnum yngri en 12 ára. GRAL hefur áður sýnt verkin 21 manns saknað og Horn á höfði og hlotið tilnefningar til Grímuverðlauna fyrir bæði verkin og árið 2010 hlaut Horn á höfði Grímuna sem barnasýning ársins. Endalok alheimsins verður frumsýnt föstudaginn 4. Nóvember í Kvikunni, Hafnargötu 12, Grindavík.
LEIKARAR: SVEINN ÓLAFUR GUNNARSSON, SÓLVEIG GUÐMUNDSDÓTTIR, VÍÐIR GUÐMUNDSSON OG BENEDIKT GRÖNDAL.
HÖFUNDAR: BERGUR ÞÓR INGÓLFSSON OG GUÐMUNDUR BRYNJÓLFSSON.
LEIKSTJÓRN: BERGUR ÞÓR INGÓLFSSON
LEIKMYNDA-OG BÚNINGAHÖNNUN: EVA VALA GUÐJÓNSDÓTTIR
LJÓSAHÖNNUN: MAGNÚS ARNAR SIGURÐSSON