Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Elti ástina til Íslands
Fimmtudagur 24. desember 2009 kl. 16:14

Elti ástina til Íslands

Það er einhver ógurlegur kraftur í öllu kvenfólki núna, þær eru svo margar að sauma, prjóna og skapa. Á jólamarkaði Listatorgs í nóvember vakti ung kona sérstaka athygli fyrir ótrúlega fallegt handverk. Hún saumar út dúka og myndir, prjónar og þæfir ullarveski af öllum stærðum, prjónar peysur og húfur, býr til tækifæriskort og jólakort, býr til öskjur og armbönd og fleira og fleira.

Anne Lise Jensen er dönsk og býr í Sandgerði með Kára Sæbirni Kárasyni rafvirkja og eiga þau tvo syni, þá Kára Sæbjörn fimm ára og Kristófer Emil sjö mánaða. Þegar horft er yfir allt handverkið, sem Anne Lise er að búa til, eða Lísa eins og hún er kölluð hérna heima, þá segir maður strax við sjálfa sig, að þessi kona hangir ekki mikið á Facebook!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Nýtir tímann vel!

„Nei, það geri ég ekki“, segir Lísa á góðri íslensku en hún hefur búið hér á landi meira eða minna frá árinu 1999. Hún er fædd 1976 og bjó í Horsens, bæ á Jótlandi sem margir Íslendingar þekkja vegna námsdvalar þar. „Ég kíki samt stundum í tölvuna en ég hangi þar ekki því ég hef mest gaman að því að sauma eða prjóna þegar tími gefst til, mest þó þegar sá litli sefur á daginn og líka einnig á kvöldin þegar litlu strákarnir eru sofnaðir, þá finnst mér gott að gera eitthvað svona. Sumir lesa í bók en mér finnst róandi að setjast og sauma út eða prjóna, mér finnst ég hvílast þannig. Amma mín kenndi mér handavinnu á unglingsárum“, segir hún.


Lísa kom hingað til lands sumarið 1999 með danskri vinkonu sinni en þær réðu sig til starfa á Hótel Örk og þar vann hún meira eða minna til ársins 2002. „Við vildum fara út í heim, sóttum um á skipi í Karabíska hafinu og svo hér á Hótel Örk en við fengum bara svar frá Hótel Örk, sem vildi ráða okkur í vinnu. Svo hingað komum við tvær danskar stelpur. Hefði ég ekki komið hingað þá hefði ég ekki eignast allt sem ég á í dag hérna, manninn minn Kára og synina okkar tvo og þetta hús hér í Sandgerði“, segir hún. En þau búa í sérlega fallegu nýju húsi, sem húsbóndinn byggði sjálfur með góðri aðstoð. Þau búa beint á móti æskuheimili Kára. Örlagadísir spunnu skemmtilegan vef í lífi Lísu og Kára.


Hátíðlegri jól á Íslandi

Lísa hafði unnið nokkur sumur á hótelinu þegar hún kynntist Kára í gegnum sameiginlegan vin. Ég var búin að ákveða að fara heim til Danmerkur en svo fór hann bara með mér í nokkra mánuði en Kára líkaði ekki nógu vel þar í landi á þessum tíma og við ákváðum að koma saman hingað aftur. Og hér bý ég og er rosalega ánægð. Ég elti ástina mína“, segir Lísa brosandi.


Hún segir mjög gott að búa á Íslandi, hér sé svo mikil náttúra og rólegt. „Mér finnst svo mikil náttúra í kringum mig hérna, ég horfi út um gluggann og horfi á móann og alla náttúruna. Loftið er hreint hérna og náttúran svo falleg. Fossar finnst mér æðislegir! Það er bara svo margt gott við Ísland. Jólin eru miklu hátíðlegri hér en í Danmörku og gaman hvað hefðir eru sterkar hjá mörgum. Allir í spariföt á aðfangadagskvöld, allir að borða klukkan sex og þá kveikjum við einnig á jólatrénu, ekki fyrr, þó það sé búið að standa skreytt í nokkra daga. Jólakveðjurnar í útvarpinu, hangikjötslyktin og svo eru jólin í hálfan mánuð hér en í Danmörku eru þau búin annan dag jóla. Þá er farið að skreyta þar fyrir gamlárskvöld. Hér eru jólin svo lengi“, segir Lísa og er greinilega ánægð hér á landi.

Texti og ljósmyndir: Marta Eiríksdóttir // fyrir blómstrandi mannlíf í Víkurfréttum.