Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eldri FS-ingur: Þreytist ekki á að segja frá frábærum árum í FS
Þriðjudagur 6. september 2016 kl. 06:00

Eldri FS-ingur: Þreytist ekki á að segja frá frábærum árum í FS

Eldri FS-ingur: Una Steinsdóttir
 

Hvenær varstu við nám í FS?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég lauk stúdentsprófi af Viðskiptafræðibraut FS jólin 1985 og hóf svo nám við Háskóla Íslands og lauk Cand. Oecon gráðu í viðskiptafræðum 1991. Á síðasta ári lauk ég síðan sérstöku AMP stjórnenda námi frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona.

Hvað hefurðu verið að gera síðan þú útskrifaðist úr FS?

Ég hóf störf fyrir Íslandsbanka strax eftir útskrift og hef komið að ýmsu innan bankans á þessum tíma, starfað almennt að viðskipta- og lánastjórnun, var útibússtjóri útibúsins hér í Reykjanesbæ í 8 ár eða frá árinu 1999-2007, en eftir það varð ég framkvæmdastjóri útibúasviðs bankans og tók síðan við árið 2008 sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Hvað stendur upp úr þegar þú horfir til baka?

Árin mín í Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru bæði skemmtileg ár og eftirminnileg, hæfileg blanda af öguðu námi, menningu, fjöri og fíflagangi, en fyrst og síðast undirbúningi undir lífsins alvöru. Ég var eins og margir mjög virk í félagslífi og sat í nemendastjórn. Góður skóli þarf að hafa gott félagslíf og fjölbreytt, sérstaklega mikilvægt á menntaskólaárunum.

Viltu deila með okkur eftirminnilegum minningum úr gamla skólanum þínum?

Það sem var allra eftirminnilegast í mínum huga þessi ár í FS voru kennararnir.  Ég vil meina að  á þessum árum hafi verið einstaklega sterkur kennarahópur, fjölbreyttur og hvetjandi.  Tímarnir í Njálssögu hjá Jóni Böðvarssyni skólameistara er eitthvað sem maður gleymir aldrei, eða stærðfræðitímarnir hjá Gísla Torfa, en þó sérstaklega skrautskrifaðar umsagnir hans á próf og verkefni og hafði þannig áhrif á mann að maður vildi drífa sig í næsta verkefni og fá fleiri umsagnir. Hjálmar Árna, Björn Örvar, Rósa, Unnur Þorsteins, Ægir Sigurðs, Maja Loebell o.fl. allt frábærir kennarar sem undirbjuggu nemendur sína vel fyrir lífsins göngu.

Hvernig fannst þér FS búa þig undir það nám sem þú fórst í?

Ég hef ávalt verið mjög stoltur FS-ingur og þreytist aldrei á að segja frá þessum frábæru árum mínum í skólanum.  Ekki var ég vör við það ég eða skólafélagar mínir sem fórum áfram í framhaldsnám værum ver undirbúnari,  ef svo var þá var það unnið upp með dugnaði og krafti.

Eitthvað sem stendur upp úr þegar þú horfir til baka?

Get ekki látið það vera að minnast þess að eitt af því skemmtilega sem við gerðum þarna fyrir rétt rúmum 30 árum, var að gefa út NFS skólabókina. Það er ekki ósjaldan sem maður flettir í þessum tveimur bókum sem voru gefnar út á árunum 1982-1985. Þarna eru myndir af öllum skólafélögunum, myndir úr félagslífi  og dagsins önn á þessum árum í skólanum.  Hjálpar manni að rifja upp og muna árin í FS eða eins og sagt er í fyrsta formála bókarinnar: „Það er vonandi að skóladagbókin eigi eftir að ylja vambmiklum og rasssíðum gamalmennum, þegar sest er að áliðnu ævikvöldi við arinn minninganna og litið um öxl“, svo sannarlega orð með sönnu.  Þarna var skólinn bara um 10 ára, nú er hann 40 ára og ég 30 árum síðar, er svo þakklát að geta flett upp í minningunum frá þessum  árum. Óska Fjölbrautaskóla Suðurnesja til hamingju með árin 40 og þakka jafnframt fyrir mig.

Uppáhalds náttúruperla á Suðurnesjum?

Svarið er einfalt í mínum huga, það er Garðskaginn, algjör perla og í sérstöku uppáhaldi hjá minni föðurfjölskyldu og ljóst að Garðskaginn er og mun draga enn frekar til sín, jafnt Íslendinga sem ferðamenn.