Eldrauð undirföt fjúkandi um Garðinn
– Nærbuxnalaust Öskubuskuævintýri í uppsiglingu?
Það stefnir í Öskubuskuævintýri í Garðinum. Nú er hins vegar ekki leitað að þeirri sem passar í skó, heldur í eldrauð undirföt sem komu fjúkandi í suðvestan ofsaveðri í gær og enduðu ferðalag sitt í móanum við Réttarholt í Garði.
Eldrauður þvengur og brjóstahöld í stíl og annar brjóstahaldari í svörtum lit komu fjúkandi á ógnarhraða frá þéttustu byggðinni í Garði. Fatnaðurinn staðnæmdist hins vegar skammt frá Réttarholti þar sem Birgir Þór Guðmundsson kom flíkunum í skjól.
Birgir Þór segist í fésbókarfærslu ekki hafa rekist á nakta konukind umhverfis heimili sitt og vonast til að engin hafi álpast út í vonda veðrið á undirfötunum einum. Nú er hins vegar spurning hvort einhver kona gefi sig fram sem eigandi undirfatanna.