Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eldheitur chili í forrétt og strútur í aðalrétt
Fimmtudagur 12. apríl 2007 kl. 10:04

Eldheitur chili í forrétt og strútur í aðalrétt

Keflvíkingurinn Ragnar Ómarsson hefur fyrir löngu síðan skipað sér í hóp fremstu matreiðslumeistara landsins en hann þjálfar og undirbýr kokkalandsliðið fyrir alþjóðleg stórmót í greininni þar sem Íslendingar hafa getið sér gott orð. Sjálfur er hann nýkominn frá Suður-Afríku þar sem hann keppti fyrir hönd Evrópu í álfukeppninni One World og hafnaði í öðru sæti.

„Þetta var mjög sérstakt ekki síst vegna þess að hráefnið, sem  keppendur áttu að elda úr, máttu þeir ekki hafa unnið með á heimaslóðum. Ég fékk t.d. það verkefni að elda forrétt sem átti að vera 40% chili-pipar og aðalrétt úr strútskjöti en það er eitthvað sem íslenskir kokkar komast ekki í tæri við á hverjum degi. Andstætt hefðbundnum keppnum var því ekkert hægt að æfa sig fyrir keppnina og maður varð að spila þetta af fingrum fram og reyna á útsjónarsemina. Reynslan nýttist manni auðvitað líka, t.d. mildaði ég Chili-ið með papriku svo hægt væri að borða þetta,” sagði Ragnar í samtali við Víkurfréttir aðspurður um keppnina í Afríku. 

Ragnar hefur áður komist í tæri við strútskjöt en það hefur af og til fengist hér á landi, reyndar annar hluti skepnunnar en sá sem Ragnar vann með í keppninni.  „Strútskjötið er nokkuð gott og minnir einna helst góða á nautalund, mjúkt og gott. Strútar eru ræktaðir til manneldis og við heimsóttum einmitt einn af strútabúgörðunum þarna úti. Suður-Afríkumenn eru einnig nokkuð stórtækir í sauðfjárækt og lambakjötið þeirra er líka nokkuð gott,” segir Ragnar.

Matarmenning þjóða er vitaskuld æði misjöfn og segir Ragnar það hafa gert dómurunum keppninnar erfitt fyrir en þeir komu frá öllum þáttökulöndunum. Sinn er siðurinn í landi hverju og viðmiðin mismunandi. Það sem einum fannst gott fannst öðrum vont og segir Ragnar að erfitt hafi verið fyrir dómarana að finna einhverja lendingu. Á endanum varð niðurstaðan sú að keppandi frá Fitji eyjum hreppti fyrsta sætið með naumindum og Ragnar varð í öðru sæti.

Ragnar er þjálfari íslenska kokkalandsliðsins sem hefur jafnan gert góða hluti í keppnum á erlendri grund. Á meðal stærri verkefna framundan hjá liðinu er Olympíukeppnin á næsta ári sem haldin er á fjögurra ára fresti eins og heimsmeistarakeppnin.  Liðið hefur einnig sent fulltrúa í hina virtu Bocuse d´Or keppni sem haldin er á 2ja ára frest í Frakklandi og er litið á hana sem heimsmeistarakeppni einstaklinga.  Ragnar verður fulltrúi Íslands í næstu keppni en hann tók einnig þátt fyrir tveimur árum og náði þá 5. sæti sem teljast verður mjög góður árangur.

„ Í landshópnum hefur byggst upp góður kjarni síðan 1999. Við erum núna í 9. sæti á styrkleikalistanum og getum því verið ánægðir með árangurinn. Metnaðurinn er mikill og við stefnum að sjálfsögðu enn hærra, helst í top fimm,” sagði Ragnar að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024