Eldgosið setti allt á hliðina á tjaldsvæðinu í Grindavík
Sreten Ævar Karimanovic stýrir málum og er sáttur með sína stöðu í dag. „Hreinlæti er það mikilvægasta á tjaldsvæðum og því fer mestur tími minn og míns starfsfólks í að þrífa.“
Grindavíkurbær byggði glæsilegt tjaldsvæði nálægt höfninni árið 2009 en þeir sem til þekkja vilja meina að um sé að ræða eitt glæsilegasta tjaldsvæði landsins. Grindavíkurbær rak tjaldsvæðið sjálft fyrstu árin og frá 2017 var það Sreten Ævar Karimanovic sem var yfirmaður tjaldsvæðisins. Grindavíkurbær hafði um nokkurt skeið reynt að leigja út reksturinn en það var ekki fyrr en 2020 sem aðili fékkst í það og lá beinast við að Stretsko, eins og hann er oftast kallaður í Grindavík, myndi halda sínu starfi áfram fyrir rekstraraðilann, Tjald ehf. Eins og flestir muna þá er þetta 2020 ár COVID árið fræga og lenti Tjald ehf. að sjálfsögðu í kröggum eins og allir sem gera út á ferðamanninn. Eldgosið í fyrra breytti heldur betur stöðunni og gekk reksturinn mjög vel og sama hefur verið uppi í teningnum á þessu ári. Það þurfti ekki annað eldgos en þegar byrjaði aftur að gjósa í byrjun ágúst þá fór allt á aðra hliðina má segja á tjaldsvæðinu, það var fullt fyrir og þurfti oft að grípa til nýrra úrræðra til að láta allt ganga upp og var þá gott að hafa frábæran mann sem yfirmann en Stretsko er einkar viðkunnanlegur maður. Hann er útilegumaður í grunninn, hefur ferðast vítt og breytt um landið og veit því hvernig hann vill sjá svona tjaldsvæði rekin en mikil ánægja er á meðal gesta.
Kom til Íslands árið 2004 sem sjúkraþjálfari Grindvíkinga
Stretkso er merkilegur maður en hann kom til Íslands árið 2004 til að vinna fyrir Knattspyrnudeild UMFG en hann er menntaður sjúkraþjálfari. Hann hélt aftur til Belgrade eftir tímabilið en ári síðar var hann alfluttur með Mariju konunni sinni og þau settust hér að. Eftir sjö ár sóttu þau um íslenskan ríkisborgararétt og þar sem þau voru orðnir svo miklir Íslendingar þá kom ekki annað til greina en taka upp íslensk millinöfn, Sreten Ævar og Marija Sóley Karimanovic heita þau í dag. Öll börnin þrjú hafa fæðst hér á landi og heita í aldursröð, Filip Thór, Lena Ísey og Marko Týr.
Stretsko byrjaði á að tala um starf sitt sem yfirmaður tjaldsvæðisins:
„Ég byrjaði að vinna fyrir Grindavíkurbæ að sjá um tjaldsvæðið árið 2017. Í ársbyrjun 2020 sýndi fyrirtækið Tjald ehf. áhuga á að reka tjaldsvæðið og náðust samningar og ég fylgdi með. Fyrsta árið var auðvitað mjög erfitt fyrir Tjald ehf. vegna COVID en strax ári síðar birti til þegar eldgosið byrjaði. Bærinn fylltist af ferðamönnum, bæði íslenskum og erlendum og var mjög mikið að gera þá. Allt þetta ár hefur verið mjög gott og meira og minna fullt.“
Hreinlætið skiptir öllu máli
Í hverju felst starfið?
„Hreinlæti er það mikilvægasta á tjaldsvæðum og því fer mestur tími minn og míns starfsfólks í að þrífa. Þú vilt ekki sjá rusl eða óhrein baðherbergi en með því að hafa þessa hluti á hreinu, þá er strax stórum áfanga náð. Svo gengur starfið út á mannleg samskipti, vera til þjónustu reiðubúinn fyrir kúnnann en oft á tíðum er mjög þröngt á þingi á tjaldsvæðinu og þá þarf að vera hægt að skipuleggja hlutina, t.d. að biðja eiganda hjólhýsis um að færa sig pínu svo fleiri komist að. Það þarf einfaldlega að láta hlutina ganga upp og þá reynir á mann að vera góður í samskiptum, ég held að mér gangi vel með það því mér finnst gaman að eiga samskipti við fólk. Svo er ég með einstaklega gott starfsfólk, þegar mikið er að gera þá þarf starfsfólkið mitt að vera tilbúið að taka aukavakt en hjá okkur gengur allt út á að gera kúnnann ánægðan. Ég gæti ekki verið glaðari með fólkið sem vinnur hjá mér.“
Allt frábært - fyrir utan veðrið
Stretsko kom ekki til Íslands til að reka tjaldsvæði:
„Ég er menntaður sjúkraþjálfari og kom til Íslands árið 2004, n.t. 11. maí til að vinna fyrir Knattspyrnudeild UMFG. Ég mætti til Íslands, fór strax daginn eftir með liðinu í æfingaferð til Spánar. Mér leist strax vel á mig hér á landi, allt frábært - fyrir utan veðrið. Við Marija konan mín héldum aftur til Belgrade eftir tímabilið en komum svo aftur ári síðar og settumst þá hér að. Árið 2005 fengum við bæði gott starf hjá Bláa lóninu, vorum að nudda gesti Bláa lónsins - í sjálfu lóninu og sömuleiðis hóf ég líka störf fyrir Körfuknattleiksdeild UMFG. Þetta gekk vel upp en auðvitað var oft á tíðum ansi mikið að gera en það er bara gott. Svona vann ég fyrstu árin en í dag er ég mjög sáttur við að vera vinna fyrir Tjald ehf. Ég er ekki lengur að vinna fyrir fótboltann, það væri erfitt því auðvitað er mest að gera í ferðamennsku yfir sumartímann þegar fótboltatímabilið er á fullu. Körfuboltinn fer vel með þessu því mest er að gera yfir veturinn þegar minna er á tjaldsvæðinu. Ég er því mjög sáttur við mína stöðu í dag.“