Eldgos vekur bjartsýni meðal ferðaþjónustuaðila í Grindavík
Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar, segir að íbúar Grindavíkur, og þá sérstaklega ferðaþjónustuaðilar, finni fyrir miklum áhuga og athygli á bænum vegna eldgossins í Geldingadölum. Margar hugmyndir eru um ýmis verkefni sem tengjast gosinu og má þar m.a. nefna nýja fótboltabúninga í eldgosastíl sem eru að seljast jafnvel út fyrir landssteinana, nestispakka með eldgosanöfnum og nýtt nafn á hóteli tengt gosinu. Starfshópur er að vinna að hugmyndum um gestastofu sem yrði staðsett í Kvikunni sem myndi segja frá jarðhæringum og jarðeldum á Reykjanesi.
Gönguferðir að gosinu
„Þó að undanfari eldgossins, jarðskálftarnir sem hófust fyrir rúmu ári síðan og sem tóku sig síðan aftur upp fyrr á þessu ári, hafi hrellt bæjarbúa þá var viss léttir fyrir Grindvíkinga þegar gosið hófst. Þegar jarðskjálftarnir byrjuðu hófst vinna við rýmingaráætlanir fyrir allar stofnanir, meira að segja fyrir vinnuskólann. Lífið gengur sinn vanagang í Grindavík þrátt fyrir gosið, núna gengur heimafólk að gosinu í stað þess að ganga á Þorbjörn. Fólk þekkir líka þetta landssvæði betur en áður, staðhætti og örnefni við Fagradalsfjall. Þá eiga landeigendur og björgunarsveitin hrós skilið fyrir viðbragðsflýti, m.a. með gerð bílastæða og gæslu og stjórnun um svæðið,“ segir Eggert.
Hugað að menningaruppeldi
Í sumar verður hugað að menningaruppeldi barna og unglinga í Grindavíka að sögn Eggerts, boðið verður upp á fjölbreytt námskeið, m.a. hönnunar- og hljóðfærasmiðju, leiklistar- og söngnámskeið. Auk þess sem sumarlesturinn vinsæli verður í bókasafninu.
„Við getum verið ánægð með menningarmálin í Grindavík, stöðugt er verið að bæta og huga að menningaruppeldi. Það sama má segja um íþróttaiðkun í bænum, foreldrar greiða bara eitt hóflegt árgjald fyrir íþróttaiðkun barna sinna sem geta síðan stundað allar þær íþróttagreinar sem þau vilja. Með þeim hætti er aukin hvatning til almennrar íþróttaiðkunnar barna og fjölbreyttrar hreyfingar.“
Gott menningarhaust
Líkt og annars staðar hefur þurft að fella niður og breyta hvers konar menningarstarfi í heimsfaraldrinum en Eggert sér fram á gott menningarhaust og er þegar byrjað að skipuleggja það.
Mikil gróska í menningarlífinu þar sem veitingastaðir og búsettir listamenn hafa verið að bjóða upp á ýmis konar menningarviðburði. Sýnishorn af skemmtilegu menningarstarfi kom fram í útvarpsþætti K100 sem var útvarpað beint frá Grindavík fyrir nokkru þegar Kvennakór Grindavíkur flutti nokkur þekkt lög frá níunda áratugnum við góðar undirtektir.