Eldar koma fram í fyrsta sinn á Aftan festival
Aftan festival verður á Mamma mía í Sandgerði í kvöld kl. 21:00. Fram koma: Hellvar, Arne Kristinn og Eldar.
Hellvar er ein af kunnari hljómsveitum landsins og varð til sem samstarfsverkefni hjónanna Heiðu og Elvars. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Bat Out Of Hellvar, kom út árið 2007 og vakti verðskuldaða athygli. Önnur platan sveitarinnar, Stop That Noise, kemur út nú á árinu 2011 og er hljómsveitin orðinn enn þéttari en áður. Hellvar var að ljúka við stutt tónleikaferðalag um austurströnd Bandaríkjana og verður því í fantaformi á Aftan festivali á miðvikudaginn.
Arne Kristinn er ungur leikari af Suðurnesjum sem hefur síðasta eina og hálfa árið verið að föndra við að semja lög. Hann kemur nú fram í fyrsta skipti og frumflytur eigið efni sem er í senn einfalt og lágstemmt.
Eldar er nýtt nafn í íslensku tónlistarlífi. Hljómsveitin er samstarfsverkefni tveggja ungra tónlistarmanna af Suðurnesjum sem á síðustu misserum hafa í sitt hvoru lagi vakið landsathygli fyrir tónlistarsköpun sína. Annar þeirra er Björgvin Ívar Baldursson sem er þekktastur fyrir að vera maðurinn á bak við hljómsveitina Lifun en hefur einnig leikið með Klassart og stjórnað upptökum á fjöldamörgum plötum. Hinn meðlimurinn í Eldar er Valdimar Guðmundsson sem er kunnastur fyrir að vera í fararbroddi hljómsveitarinnar Valdimar. Undanfarna mánuði hafa þeir félagar verið að semja nýtt efni saman og munu þeir frumflytja margt af því á miðvikudaginn.
Aftan festival er vettvangur grasrótarinnar í tónlistarsköpun á Suðurnesjum með sína heimahöfn í Sandgerði. Hópurinn hefur staðið fyrir mörgum viðburðum á síðustu árum þar sem fjölmargt tónlistarfólk hefur fengið tækifæri til að koma fram. Í þetta skiptið fer Aftan festival fram í tengslum við Sandgerðisdaga á má því búast við góðri mætingu og einstaklega skemmtilegri stemningu.
Frítt er inn á Aftan festival og það er 18 ára aldurstakmark. Aftan festival er styrkt af Menningaráði Suðurnesja.
Mynd/EJS: Það voru hálfgerðir ástar-Eldar sem tóku á móti ljósmyndara Víkurfrétta í gær.