Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ekki mikil hátíðarhöld í tilefni af 50 ára afmæli Grindavíkur
Ljósmynd af Grindavík sem tekin var áður en náttúruhamfarir riðu yfir bæinn. VF/Jón Steinar Sæmundsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 13. apríl 2024 kl. 06:06

Ekki mikil hátíðarhöld í tilefni af 50 ára afmæli Grindavíkur

„Við verðum að fara eftir því sem almannavarnir segja. Það er ekkert annað í boði en vera bjartsýnn. Það er alveg hægt að ímynda sér að eðlilegt líf geti hafist í Grindavík  sem fyrst - ef bærinn verður metinn öruggur staður til að búa á og náttúruöflin haldi að sér höndum,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur en sveitarfélagið fagnar hálfrar aldar afmæli um þessar mundir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stórt afmæli Grindavíkurkaupstaðar ber upp þann dag sem lesendur geta gripið sitt Víkurfréttablað, miðvikudaginn 10. apríl. Lítið verður um hátíðarhöld þann daginn en stefnan hefur verið sett á veglega sjómannahelgi, þátttöku í Menningarnótt Reykjavíkur og ýmsa aðra viðburði en þó á öðrum stað en venja er.

Það leið ekki langur tími eftir fyrstu rýminguna úr Grindavík þar til bæjarskrifstofur Grindavíkur voru komnar með samastað, strax á sunnudeginum 12. nóvember var Fannar kominn í samband við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur og á þriðjudeginum voru allar tölvur tengdar og hluti starfsfólks bæjarskrifstofunar tekinn til starfa. Í dag eru allir starfsmenn komnir í Tollhúsið við Tryggvagötu. Fannar fór yfir umskiptin og hvað sé framundan á 50 ára stórafmæli kaupstaðarréttinda Grindavíkur á miðvikudaginn.

„Það eru um þrjár vikur síðan við fórum endanlega úr Ráðhúsinu og við munum seint geta þakkað Reykjavíkurborg fyrir aðstoðina meðan á dvölinni stóð. Nú erum við með skrifstofur á fjórðu hæðinni í Tollhúsinu og þjónustumiðstöðin er áfram á þeirri þriðju og allir geta borðað saman í mötuneytinu sem er á annarri hæðinni. Það er ekki sjálfgefið að geta flutt í jafn gott húsnæði og Tollhúsið er svona fyrirvaralítið. Við erum mjög sátt með að stjórnsýslan skuli öll vera komin undir sama þak. Við vorum komin á fullt í undirbúningi fyrir 50 ára stórafmælið en forsendur breyttust heldur betur svo þetta afmæli verður því miður ekki eins og til var stofnað. Það hafði verið samþykkt myndarlegt framlag á fjárhagsáætlun bæjarins vegna þessa afmælis en veisluhöld verða að bíða betri tíma. Bæjarstjórnin mun halda óhefðbundinn en hátíðlegan bæjarstjórnarfund á sjálfan afmælisdaginn, 10. apríl en engin venjuleg bæjarstjórnarmál verða þá til umfjöllunar. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mun flytja ávarp og þar verða heiðraðir nokkrir Grindvíkingar sem hafa lagt bænum öflugt lið síðastliðin ár og áratugi, ég get að sjálfsögðu ekki uppljóstrað nöfnunum hér og nú. Kannski má segja að aðalhátíðarhöldin verði um Sjómannahelgina, forsvarsmenn Faxaflóahafna voru svo elskulegir að bjóða okkur að taka þátt í þeirra hátíðarhöldum og verður fróðlegt að sjá hvernig það verður. Eflaust er hægt að bjóða upp á einhver hefðbundin atriði frá okkar ástkæra Sjóara síkáta, t.d. skemmtisiglinguna en þetta er allt til skoðunar hjá sviðsstjóra frístunda- og menningasviðs, Eggerti Sólberg Jónssyni og öðru góðu fólki. Sjóarinn síkáti hefur auðvitað verið eitt af okkar flaggskipum og yrði gaman að geta haldið í einhverjar af þeim hefðum sem skapast hafa á þeim vettvangi.“

Óvissan versti óvinurinn

Fannar vakti athygli fyrir yfirvegun þegar þessir fordæmalausu atburðir áttu sér stað seint á síðasta ári.

„Það eru allir að gera sitt besta en það er óvissan sem hefur verið okkar versti óvinur, að vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Við erum að halda í horfinu, það er ánægjulegt að atvinnustarfsemi sé hafin og einhverjir Grindvíkingar eru nú þegar búsettir heima og aðrir stefna þangað. Ég get ekki annað en verið ánægður með það en Grindvíkingar verða að haga sínum málum á eigin forsendum, gæta alls öryggis og fylgja því sem almannavarnir og yfirvöld segja. Það er leyfilegt að gista í Grindavík en lögreglustjórinn á Suðurnesjum mælir ekki með því eins og nú er ástatt. Í fréttatilkynningum lögreglustjórans er enn fremur varað við jarðsprungum í bænum. Okkur ber að vinna þessi mál með yfirvöldum og ég vil meina að það hafi gengið vel til þessa. Auðvitað vill meirihluti bæjarbúa flytja heim þegar fram líða stundir og bærinn telst öruggur til búsetu og þá mun bæjarstjórn Grindavíkur ekki láta sitt eftir liggja. Unnið hefur verið að viðgerðum á innviðum og þegar búið verður að kortleggja sprungur og ráðist verður í að laga þær, hvort sem það verði varanlegar viðgerðir eða til bráðabirgða, og yfirvöld gefa út að öruggt sé að búa í Grindavík, skólar og leikskólar lagaðir, þá ættu smám saman að skapast forsendur fyrir því að við flytjum heim. Þetta verður hver og einn að fá að ákveða fyrir sig og sína fjölskyldu, við verðum að sýna þeim sem treysta sér ekki til að flytja strax eða hugsanlega aldrei aftur til Grindavíkur, skilning. Allar tilfinningar og skoðanir eiga rétt á sér. Sömuleiðis ber að fagna því að sumir séu nú þegar fluttir heim eða séu á leiðinni, þar með eru ljósin kveikt og frábært hve atvinnulífið hefur tekið vel við sér,“ sagði Fannar.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Um 600 beiðnir til Þórkötlu

Um 600 beiðnir um sölu á húseignum til Þórkötlu hafa borist til þessa en það leysir ekki allan vandann, aðalvandamálið hefur verið skortur á framboði á húsnæði til kaups.

„Við erum stöðugt að þrýsta á stjórnvöld að beita sér fyrir því að auka framboð á húsnæði, nú er uppkaupsferlið hafið en það eitt og sér mun ekki leysa húsnæðisvandann, það vantar meira húsnæði á markaðinn. Svo er það nú einu sinni þannig að hér gildir lögmál framboðs og eftirspurnar, þegar eftirspurnin er meiri en framboðið þá hækkar verðið. Það eru ekki góðar fréttir að Grindvíkingar þurfi að keppa hver við annan um kaup á sama húsinu og keyra þannig verðin upp. Ég vonast til að eitthvað fari að skýrast varðandi uppsetningu á innlendum eða innfluttum einingarhúsum sem hægt væri að reisa með tiltölulega litlum fyrirvara. Við höfum fundað stíft um þessi mál að undanförnu með fulltrúum ríkisvaldsins og vonandi rætist úr þeim málum, það er að ríkið stuðli að auknu framboði á húsnæði fyrir grindvískar fjölskyldur meðan ástandið er eins og raun ber vitni.

Margir hafa velt fyrir sér fyrirkomulaginu á uppkaupum fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavík t.d. hvort Grindvíkingurinn geti geymt búslóð sína eða hluta af henni í fyrrum húsnæði hans í Grindavík og jafnvel notað húsið eins og sumarhús.

Ég hef ekki fundið fyrir öðru en að forsvarsmenn Þórkötlu séu allir af vilja gerðir til að greiða götu fólks hvað þessar hugmyndir varðar, þeir hafa ekki frekar en aðrir staðið frammi fyrir öðru eins verkefni og því þurfi að vanda til verka. Vonandi fá þessi mál farsælar lyktir.“

Hver á að borga?

Aðeins hefur borið á umræðu um hver eigi að borga fyrir þá þjónustu sem Grindvíkingar þurfa að sækja annað, t.d. varðandi skóla fyrir grunnskólabörn. 10% barna í grunnskóla í sveitarfélagi á Suðurnesjum eru Grindvíkingar en enginn er að borga útsvar sitt þangað - ennþá. Eins vakti athygli á dögunum þegar forsvarsfólk allra annarra bæjarfélaga á Suðurnesjunum nema Grindavíkur, mætti á hóf vegna stækkunar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Grindavíkurbær var búinn að tilkynna að geta ekki staðið við sínar skuldbindingar í þessu verkefni og þá vaknar eðlileg spurning, hver á að taka hlut Grindavíkurbæjar á sig?

„Okkur er ljóst að sveitarfélögin sem eru að taka á móti börnunum okkar eru að leggja á sig byrðar og það kosti fjármuni en vonandi skilja allir að það var ekki vilji Grindvíkinga að þurfa yfirgefa bæinn sinn, ég er ekki viss um að aðrir myndu vilja hafa sætaskipti við okkur í þessari stöðu. Það á eftir að gera upp viðbótarkostnaðinn sem sveitarfélögin verða fyrir vegna skólahalds barna þetta skólaár og það er sérstakur ráðgjafi að vinna í þeim uppgjörsmálum með okkur. Við getum ekki stýrt því hvar Grindvíkingar eru með lögheimili sitt, við fögnum því auðvitað að fá útsvarstekjur og ekki veitir af enda ég get fullvissað alla um að það fer meira úr bæjarsjóði en það sem inn í hann rennur um þessar mundir. Ég vil þó í því sambandi geta þess að Grindavíkurbær stóð fjárhagslega betur en langflest bæjarfélög við upphaf atburðanna 10. nóvember og því er viðnámsþrótturinn töluverður. Við þessi uppkaup Þórkötlu er samt viðbúið að ýmsir muni flytja lögheimili sitt smám saman í önnur sveitarfélög. Við höfum þurft að rifta samningum við fjölmarga aðila, meðal annars vegna þess að engar forsendur eru fyrir fullnustu á umsömdum verkefnum fyrr en starfsemi fyrirtækja eflist og íbúar flytja heim að nýju. Þetta á t.d. við um samning varðandi stækkun á verkmenntaaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Bæjarstjórn bókaði á fundi sínum að henni litist vel á verkefnið en í ljósi óvissu um rekstur sveitarfélagsins og íbúaþróun þá geti Grindavíkurbær ekki tekið þátt í verkefninu að svo stöddu. Ég vil nú kannski minnast á að Grindavíkurbær hefur heldur betur tekið þátt í uppbyggingu menntunar á Suðurnesjum, t.d. hjá Keili á Ásbrú. Þetta gerðum við til þess að standa með hinum sveitarfélögunum að endurreisn þeirrar menntastofnunar, þó að beinir hagsmunir hafi kannski ekki verið eins miklir og hjá sumum hinna.

Ég vil taka fram að alls staðar hefur okkur verið vel tekið, öll sveitarfélög hafa verið boðin og búin að aðstoða okkur og fyrir það munum við seint geta fullþakkað. Nú horfum við bara björt til framtíðarinnar, það er ekkert annað í boði,“ sagði Fannar að lokum.