Ekki mikið fyrir jólaskrautið
Birgir Þórarinsson, þingmaður segist alltaf fara í kirkju á aðfangadag og í kirkjugarðinn á jóladag. Hér svarar hann jólaspurningum VF:
Jólamyndin sem kemur þér i jólaskap? Alveg ómissandi er að horfa á Christmas Vacation með Chevy Chase. Fastur liður hjá fjölskyldunni með poppi og jólaöli. Annars voru það jólatónleikar Hvítasunnukirkjunnar, Fíladelfíu sem komu manni svo sannarlega í jólaskapið. Síðan ákvað RÚV að hætta að sýna frá tónleikunum og eru það mikil vonbrigði. Mér skilst að dagskrárdeildinni hafi ekki líkað efnisskráin, hún hafi verið of kristileg og fyrir það þurfum við að gjalda. Það er þetta með þennan háværa minnihluta sem öllu vill ráða. Við breytum þessu þegar staður og stund kemur.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir? Jólakortunum fer stöðugt fækkandi því miður. Það var ómissandi þáttur á jólahátíðinni að setjast niður í rólegheitum og opna jólakortin frá vinum og vandamönnum. Ég sendi þó enn fáein. Allt er orðið meira og minna rafrænt. Þetta er tíðarandinn, hann verður sífellt ópersónulegri.
Ertu vanafastur um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf fyrir jólin? Ég fer ávallt í kirkju á aðfangadag, þó ekki alltaf í sömu kirkjuna. Ég fer auk þess í kirkjugarðinn á jóladag og vitja leiða ættingja og vina.
Eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið? Jólagjafir í bernsku eru þær sem eru eftirminnilegastar, sjálfsagt vegna þess að tilhlökkunin til jóla var svo mikil á þeim árum. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég fékk rauða byggingakranann frá foreldrum mínum. Hann var rafdrifinn og keyptur í Þýskalandi af frænda mínum, sem starfaði þá á millilandaskipi. Ég var að sjálfsögðu öfundaður af vinum mínum vegna þess að svona flottur krani hafði ekki sést hér á landi. Ég á kranann enn þann dag í dag og er hann í góðu standi. Sá samskonar grip á ebay og er hann greinilega orðinn safngripur.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum? Það er tvímælalaust ameríska jólaserían á jólatrénu sem vinkona mömmu keypti í Bandaríkjunum, en hún bjó í New York-fylki. Perurnar voru ílangar eins og grýlukerti. Inni í þeim var vökvi, ýmist blár, grænn, gulur eða rauður. Þegar perurnar höfðu síðan hitnað mynduðust loftbólur. Ég var heillaður af þessum perum og gat setið tímunum saman og horft á þær.
Hvað er í matinn á aðfangadag? Það er hinn klassíski hamborgarhryggur.
Hvenær finnst þér jólin vera komin? Tvímælalaust klukkan sex þegar kirkjuklukkurnar tvær í Dómkirkjunni hringja inn jólin, á Rás 1 í útvarpinu.
Hefur þú verið eða gætirðu hugsað þér að vera erlendis um jólin? Ég hef haldið jól í Bandaríkjunum þegar ég var þar við nám. Einnig hef ég haldið jól í Jerúsalem þegar ég starfaði þar fyrir Sameinuðu þjóðirnar og fór þá á aðfangadag í messu í Betlehem, sem var upplifun.
Átt þú uppáhaldsjólaskraut? Ég er ekki mikið fyrir jólaskrautið og sér frúin yfirleitt um þau mál. Mitt verkefni er að setja upp ljóskastara utandyra, sem lýsa upp húsið. Annað jólaskraut þýðir ekki að nota á Vatnsleysuströndinni, að fenginni reynslu fýkur það á haf út.
Hvernig verð þú jóladegi? Ég fer í kirkjugarðinn og messu. Síðan tekur við hefðbundið jólaboð með stórfjölskyldunni. Borðum saman hangilæri og spilum á spil fram eftir kvöldi.