Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eitthvað fyrir alla á Sjóaranum síkáta í Grindavík
Fimmtudagur 31. maí 2018 kl. 06:00

Eitthvað fyrir alla á Sjóaranum síkáta í Grindavík

Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins. Hátíðin hefst föstudaginn 1. júní og lýkur á Sjómannadeginum 3. júní með hátíðarhöldum í tilefni dagsins. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og fjölmargt í boði fyrir alla aldurshópa. Sjóarinn síkáti er fjölskylduhátíð þar sem ungir sem aldnir geta fundið eitthvað við sitt hæfi frá morgni til kvölds. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á sjoarinnsikati.is.

Fjölskylduvænn föstudagur                                                                      
Föstudagurinn einkennist af hátíðarhöldum og þátttöku heimamanna. Íbúar skreyta götur og hús í litum hverfa og klæða sig í lit síns hverfis. Farin er litaskrúðganga sem markar upphaf hátíðarhaldanna niður að hátíðarsvæðinu við Hafnargötu. Íbúar og gestir safnast saman á hátíðarsvæðinu og taka þátt í söng sem Ingó Veðurguð leiðir og fulltrúar hverfanna stíga á stokk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölbreytt dagskrá á laugardeginum                                                                         
Á laugardeginum er boðið upp á fjölbreytta barnadagskrá, hægt er að fara í skemmtisiglingu, fjöldi leiktækja eru í boði fyrir gesti og andlitsmálun fyrir þá sem vilja. Keppnin Sterkasti maður í heimi fer fram á hátíðarsvæðinu þar sem menn keppa í drumbalyftu, myllugöngu og fleiri aflraunum, Grindjánar halda utan um hópkeyrslu bifhjóla og stoppað er við klúbbhúsið VIRKIÐ, tónleikar og viðburðir eru á veitingastöðum bæjarins og á hátíðarsviðinu verður fjölbreytt dagskrá fyrir börn á öllum aldri sem þeir Gunni og Felix sjá um að kynna.

Stórdansleikur á hátíðarsviðinu                                                                             
Um kvöldið verða stórtónleikar á hátíðarsviðinu þar sem hljómsveit undir stjórn Grétars Örvarssonar, hann fær til liðs við sig marga af okkar ástsælustu söngvurum. Sigga Beinteins, Pálmi Gunnarsson, Eyþór Ingi, Friðrik Dór, Grindvíkingarnir Íris og Tómas ásamt fleiri góðum gestum stíga á svið og flytja lög sem flestir ættu að kannast við. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 en áður en þeir hefjast verður hópur rappara með með sviðið til umráða.

Sunnudagurinn tileinkaður sjómönnum                                          

Sunnudagurinn einkennist af hátíðarhöldum Sjómannadagsins, til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra. Hátíðarmessa verður í Grindavíkurkirkju þaðan sem gengið verður í Sjómannagarðinn þar sem krans verður lagður að minnisvarðanum Von. Þaðan liggur leiðin að hátíðarsvæðinu og eftir athöfn þar hefst fjölbreytt barnadagskrá. Leiktæki, andlitsmálning, fiskabúr með nytjafiskum og furðufiskum verða við höfnina, skemmtisiglingar verða í boði auk þess sem glæsilegt Sjómannadagskaffi verður í Gjánni.