Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einstakur viðburður í Víkingaheimum
Miðvikudagur 5. maí 2010 kl. 09:42

Einstakur viðburður í Víkingaheimum

Nú eru að hefjast sýningar í Víkingaheimum í Reykjanesbæ á leikriti Brynju Benediktsdóttur leikstjóra og rithöfundar um ferðir Guðríðar  Þorbjarnardóttur. Verkið verður frumsýnt þann 14. maí n.k. og þegar uppselt á frumsýningu. Næstu sýningar verða laugardaginn 15. maí og svo helgina á eftir 21. og 22. maí. Sýnt er föstudaga og laugardaga og hefjast sýningar kl. 20:00.


Ferðir einstakrar konu
Verkið er einleikur sem byggist á lífshlaupi Guðríðar Þorbjarnardóttur sem uppi var á umbyltingarskeiðinu frá heiðni til kristni hérlendis. Verkið fjallar um ferð hennar frá Íslandi vestur um haf og endar á suðurgöngu Guðríðar, þar sem hún hittir páfann í Róm og segir sögu sína.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verkið er í nýrri leikgerð og leikstjórn Maríu Ellingsen en Guðríði leikur Þórunn Clausen sem hlaut frábæra dóma fyrir túlkun sína í þessu hlutverki og í leikstjórn Brynju.


Sýningin um borð í Íslendingi
Leikritið er flutt um borð í Íslendingi og munu bæði leikari og áhorfendur eiga kvöldstund saman í þessu sögufræga skipi.  Það sem er einstakt við þessa uppsetningu á Guðríði er að áhorfendur munu sitja í skipinu Íslendingi og sögumaður mun ganga þar um golf og segja sögu Guðríðar.   Ekki er hægt að finna betri stað til að fá að upplifa söguna um Guðríði en um borð í Íslendingi.


Fyrsti evrópski Ameríkumaðurinn
Guðríður Þorbjarnardóttir er sennilega ein af athyglisverðustu og mikilvægustu persónum í íslenskri sögu.   Guðríður kvæntist Þorsteini, syni Eiríks rauða, og þau bjuggu saman í Lýsufirði.  Þau lögðu af stað til Vínlands og voru á sjó í heilt sumar en komust aldrei á áfangastað. Þorsteinn lést um borð í skipinu.  Þá kynntist Guðríður Þorfinni karlsefni og fóru þau saman til Vínlands.  Á Vínlandi bjuggu þau í búðunum sem Leifur heppni hafði gert er hann dvaldi þar.  Þau eignuðust son sinn fyrsta vetur þar og skírðu hann Snorra.  Guðríður var fyrsta móðirin í Ameríku af evrópskum uppruna og Snorri var fyrsta Evrópska barnið sem fæddist í Ameríku.  Þegar Þorfinnur lést ákvað Guðríður að fara í pílagrímsferð til Rómar.  

Þegar Guðríður kom aftur til Íslands hafði Snorri, sonur hennar, byggt kirkju að Glaumbæ.  Guðríður gerðist nunna og bjó þar það sem eftir var. Guðríður var einstök og talin ein víðförlasta kona þessara tíma.

 

Verkið á vel við í dag

Þetta leikverk á einkar vel við um þessar mundir og umgjörð verksins er einstök. Verkið lýsir dugnaði og atorku fólks sem sóttist eftir nýjum tækifærum en skynjaði um leið vel þær hættur sem steðjuðu að.

Tilboð

Víkingaheimar bjóða upp á tilboð fyrir starfsmannahópa eða viðskiptavini á sýninguna. Boðið er upp á víkingasúpu í hléi og kostar leikhúsmiðinn kr. 3.400 en 5.500 með súpu.

Miðasala fer fram á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða í Víkingaheimum s. 422 2000.