„Einn af mínum uppáhalds réttum“
Innbökuð nautalund og Toblerone piparkökuís að hætti Gígju Sigríðar matarbloggara
Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, flugfreyja, uppeldisfræðingur og matarbloggari á vefnum gigjas.com, er ennþá jafn spennt að opna einn pakka fyrir matinn á aðfangadag nú, 27 ára, eins og þegar hún var fimm ára. Gígja er farin að halda jólin á sínu heimili ásamt kærasta sínum, Ásgeiri Elvari, en þau bjóða móður Gígju og systur í mat á aðfangadag. Eftir matinn rölta þau svo yfir til móður Ásgeirs með eftirréttinn með sér. „Það var rosalega kósý. Ég var með humar í forrétt, hreindýr í aðalrétt og þennan ómótstæðilega góða Toblerone ís í eftirrétt.
Í ár væri ég til í að vera með rjúpur í staðinn fyrir hreindýrið, það er að segja ef við náum að redda okkur þeim. Það hefur verið hefð hjá okkur síðustu ár að fara á jólatónleika í desember sem koma manni í jólafíling, svo er alltaf gaman að fara á Þorláksmessurölt og mæla sér mót við vini og fjölskyldu þar,“ segir Gígja aðspurð um jólahefðirnar sem hún heldur í. Hún deilir með lesendum uppskrift að Beef Wellington og Toblerone ís með piparkökuívafi.
„Ég get hiklaust sagt að Beef Wellington sé einn af mínum uppáhalds réttum. Frumraun mín í Wellington var þegar ég var stödd í Orlando um áramótin 2014. Ári seinna var auðvitað skellt í aðra slíka og býst ég sterklega við því að þetta sé orðin árleg hefð. Wellington steikin lítur út fyrir að vera svolítið flókin í framkvæmd en er það alls ekki. Það ættu allir að geta skellt í eina ef þeir hafa örlitla þolinmæði. Svo lengi sem þú hefur góða nautalund og hitamæli, þá ertu í topp málum. Og ekki má gleyma bernaise sósunni,“ segir Gígja.
Beef Wellington:
Hráefni:
2 bakkar sveppir
5 hvítlauksrif
Ferskt timjan eftir smekk
Salt og pipar
Dijon sinnep
2 bréf parmaskinka
Tilbúið smjördeig eða puff pastry deig
1 egg
Aðferð:
Ofninn er hitaður í 180 gráður án blásturs.
Tveir bakkar af fínt skornum sveppum steiktir (án olíu) með 5 hvítlauksrifjum, salti, pipar og fersku timían eftir smekk. Mér finnst gott að hafa nóg af því. Vökvanum er svo hellt af pönnunni áður en sveppirnir eru notaðir. Parmaskinkunni er raðað á plastfilmu, eins breitt og nautalundin er, ég var með eitt bréf af parmaskinku en hefði þurft aðeins meira svo ég fyllti upp í með hunangs skinku og það var mjög gott. Nautalundin er snöggsteikt í heilu lagi á pönnu á öllum hliðum upp úr olíu með salti og pipar.
Um leið og nautið kemur af pönnunni er það penslað með dijon sinnepi og sveppablandan er sett ofan á parmaskinkuna. Nautið er svo klætt í parmaskinkuna með plastfilmunni og sett í ískáp í um 10 mínútur. Deigið er flatt út, kjötið sett í miðju og deiginu vafið utan um. Deigið er svo penslað með eggi og hægt er að gera skraut í deigið. Það er misjafnt hvernig fólk vill hafa kjötið en mér finnst það best „medium rare.“ Kjötið var inni í ofni í 25 mínútur, mælirinn sýndi 53 gráður þegar ég tók það út og leyfði því svo að standa í 10 til 15 mínútur.
Toblerone jólaís með piparkökum
500 ml rjómi
4 egg
1 msk vanilludropar
Hnífsoddur salt
8 msk flórsykur
150 gr Toblerone
100 gr piparkökur
Aðferð:
- Eggin og flórsykurinn þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós.
- Salti og vanilludropum bætt við og hrært.
- Toblerone og piparkökur saxað í litla bita.
- Rjóminn er þeyttur sér og svo er öllu blandað saman varlega með sleif.
Kökuna skreytti ég með jarðarberjum, Toblerone og Mars íssósu sem er æðisleg með ísnum.
4 Mars súkkulaðistykki
50 gr rjómasúkkulaði
200 ml rjómi
Allt sett í pott og brætt saman við vægan hita án þess að sjóða.