Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eini rappandi svarti sauðurinn í Grindavík
Ari kominn í ham. Að neðan má sjá mynd úr nýja myndbandinu og svo neðar mynd af Bjarnabófum.
Laugardagur 15. mars 2014 kl. 10:00

Eini rappandi svarti sauðurinn í Grindavík

Hinn efnilegi Ari Auðunn með nýtt lag

Ari Auðunn er 15 ára rappari frá Grindavík. Hann sigraði Rímnaflæði ásamt Hafþóri félaga sínum fyrir næstum tveimur árum en saman mynda þér hljómsveitina Bjarnabófa. Nú er Ari að vinna að eigin efni og á dögunum sendi hann frá sér nýtt lag á youtube.

Þoldu ekki hvorn annan

Ari segist hafa byrjað að rappa fyrir um þremur árum en engin alvara hafi verið í þessu hjá honum fyrr en Rímnaflæði og Bjarnabófar komu til sögunnar. Hafþór Orri félagi hans í hljómsveitinni var ekki efstur á vinalista Ara þegar þeir kynntust fyrst. „Við Haffi bókstaflega þoldum ekki hvorn annan. Síðan hittumst við á balli og fórum að tala saman og komumst að þvi að við ætluðum báðir að taka þátt í Rímnaflæði. Við ákváðum að taka þátt saman en ég bara man ekki hvernig það gerðist ef ég á að segja eins og er,“ segir Ari og hlær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rímnaflæði er keppni krakka í 8.-10. bekk á öllu landinu í rappi og rímum en þar flytja keppendur frumsamda texta. Keppnin hefur verið haldin 14 sinnum og hafa fjölmargir þjóðþekktir rapparar stigið þar sín fyrstu skref. Ari segir að von sé á nýju efni frá strákunum innan skamms. Nýtt myndband með Bjarnabófum kemur á næstunni og stefnan er svo sett á smáskífu fyrir sumarið.

Rapparar frá Suðurnesjum hafa ekki verið áberandi að undanförnu og rappsenan er einstaklega lítil í Grindavík að sögn Ara. „Grindavík er ekki beint stór bær, þannig að ég myndi segja að það sé bara engin rappsena hérna. Ég held jafnvel að ég sé eini rappandi svarti sauðurinn í þessum bæ,“ segir Ari hress. Áhrifa við textagerð leitar Ari víða. „Ég nota eiginlega bara allt sem ég sé og geri og hef upplifað, fólk sem ég hitti hefur mikil áhrif á mína tónlist,“ segir Ari sem er mjög mikill adáandi rapparans Eminem, en einnig hlustar hann nokkuð á hljómsveitina Atmosphere.

Lagið Ljóðræn martröð sem sjá má hér að neðan kemur eiginlega beint frá hjartanu að sögn Ara og fjallar mikið um martraðir og andvökunætur. Hann vann lagið ásamt Jóa Degi vini sínum en söngkonan í laginu heitir Birta Birgisdóttir. Nikulás (noke) tók svo upp myndbandið sem er sérlega glæsilegt. Þeir sem hafa áhuga á meira efni frá Ara og Bjarnabófum er bent á facebook-síðu þeirra félaga.

Ljóðræn martröð

Hér er svo lagið Leggðu við hlustir með Bjarnabófum.