Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Einfaldleikinn er vandfundinn
Fimmtudagur 29. september 2005 kl. 14:54

Einfaldleikinn er vandfundinn

Tónlistarmaðurinn Matti Óla verður með útgáfutónleika í Frumleikhúsinu fimmtudaginn 6. október í tilefni af nýju geislaplötunni sinni „Nakinn.“ Víkurfréttir tóku Matta tali en hann er nú í óðaönn ásamt hljómsveit sinni við undirbúning á útgáfutónleiknum.

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir útgáfutónleikana?
Undirbúningurinn gengur ágætlega. Við erum byrjaðir að æfa á fullu og gengur vel.  Mannskapurinn hefur verið vítt og breitt um veröldina í sumar en við erum loksins komnir saman og bara gaman að lifa. Að vísu eru ýmis tæknileg vandamál varðandi tónleikana sem verið er að greiða úr. Ég er svo heppinn að hafa þennan úrvalshóp í kringum mig sem saman stendur af Aftanhópnum og þau eru boðin og búin að aðstoða mig á allan hátt.

Diskurinn þinn „Nakinn“ er þegar kominn í sölu, hvernig hefur honum vegnað?
Diskurinn er kominn út og ég hef verið að vinna í því að koma honum í dreifingu. Hann fæst orðið í flestum plötubúðum og hjá einstaklingum vestur á Tálknafirði og á Bolungarvík og einnig norður á Dalvík. Hér suðurfrá fæst hann í Hljómval, Kaskó og í sjoppunum í Sandgerði og í Garðinum.

Nú er þetta í fyrsta skipti sem þú gefur út geislaplötu, er það mikið púl?
Hver er sinnar gæfu smiður eins og það stendur skrifað. Ég hafði ekki hugmynd út í hvað ég var að fara þegar ég fór af stað. Hjá útgefendum fékk ég þau svör að þeir sæju ekki mikla gróðavon í manni eins og mér. Ég tók þá ákvörðun eftir að hafa talað við tvo þeirra að klífa bara fjallið sjálfur og sé ekki eftir því. Þetta hefur verið mikill lærdómur og mikil vinna, miklu meiri en maður gerði sér grein fyrir. Ég byrjaði náttúrulega á núllpunkti þegar ég fór af stað og þekkti bransan ekki neitt. En það eru einstaklingar innan Aftanhópsins sem þekkja örlítið til og þeir hafa leiðbeint mér eftir bestu getu. Óli Þór bróðir, sem er mín helsta stoð og stytta, hefur staðið við hlið mér eins og klettur. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ferðalag og þá sérstaklega stúdíóvinnan og allt í kringum upptökurnar. Síðan er maður búinn að kynnast mörgu áhugaverðu og skemmtilegu fólki. Sumstaðar rekst maður á veggi og þá staldrar maður við, hugsar málið augnablik, grefur sig síðan undir hann eða klifrar yfir og heldur ferðalaginu áfram því það er bara rétt að byrja.

Hvaða listamenn eru þínir helstu áhrifavaldar?
Áhrifavaldarnir eru margir, og þá helst það fólk sem hefur verið samtíma manni. Ég hef umgengist margt gott fólk sem hefur haft mikil áhrif á mig. Er alinn upp í sjávarþorpi þar sem atorka og dugnaður er hafður að leiðarljósi. Kem úr stórum systkinahópi og naut þess að hlusta á þá tónlist sem eldri systkini mín voru að hlusta á þegar ég var gutti. Ég held það hafi haft mikil áhrif á mig þegar til lengri tíma er litið að vera að hlusta á hljómsveitir eins og Yes, E.L.P  Genesis eins og þeir voru upprunalega, Creem, Fleetwood Mack með Peter Green og margar aðrar góðar hljómsveitir. Síðan fór ég að móta mína hlustun sjálfur og þá verða fyrir valinu ýmsir snillingar eins og Neil Yong, Bob Dylan, Johnny Cash, þótti frekar hallærislegt á sínum tíma. Einnig B.B. King, Bessie Smith, Etta James. Bob Marley að ógleymdum John Martyn. Af þeim íslensku ber helst að nefna Magga Eiríks, Bubba, K.K, Megas, Eivör og Villa Vill. Stundum er það lítil einföld setning eða hljómur sem samtvinnast aðstæðum, aðra stundina flókin harmonía sem erfitt er að átta sig á.
En það sem yfirleitt hrífur mig mest er snilldin í einfaldleikanum og það getur stundum verið ansi flókið að finna hann.

Við hverju má fólk búast á útgáfutónleikunum?
Þessir tónleikar eru mjög stórt skref í þroska mínum sem tónlistarmaður. Þarna er ég að koma fram í fyrsta skipti með einkatónleika og flytja mitt eigið efni og tónleikarnir standa og falla með mér. Ég mun flytja efni af  „Nakinn“ og nýtt efni sem ég hef verið að semja. Við strákarnir hlökkum mikið til og þetta verður bara gaman.

Eins og áður segir verða útgáfutónleikarnir í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ þann 6. október en Tabúla Rasa mun hita upp fyrir Matta Óla.

Smellið hér til þess að hlusta á lagið Amma og ég eftir Matta Óla.

Smellið hér til þess að hlusta á lagið Loksins eftir Matta Óla.

VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024