Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Ein vinnuvika í hverja kerlingu
    Bóbi kemur sér fyrir á milli kerlinganna sinna.
  • Ein vinnuvika í hverja kerlingu
Sunnudagur 16. nóvember 2014 kl. 09:00

Ein vinnuvika í hverja kerlingu

Fyrrum skipstjóri í Njarðvík býr til kerlingar úr rekavið.

Guðmundur Garðarsson, eða Bóbi, er fyrrum skipstjóri í Njarðvík en fæddur og uppalinn í Garði. Fyrir fjórum árum byrjaði Bóbi að skera út ýmis líkneski úr viðardrumbum. Hann segir þetta skemmtilega sköpun og gott sé að dunda við eitthvað eftir að hann hætti á sjónum.

Viðurinn fúavarinn í seltunni
„Ég hafði áður gert 130 skilti með ýmsum kennileitum í Garði. Eftir það fór maður að leika sér við þetta í skúrnum heima,“ segir Bóbi en hann er að jafnaði eina 40 klukkustunda vinnuviku með hverja fígúru. Ferlið gengur þannig fyrir sig að Bóbi fer í fjörurnar við Rafnkelsstaðaberg og suður undir Grindavík og sækir sér rekavið. „Ég hef einnig fengið efniviðinn frá bændunum. Ég hef farið og talað við þá og beðið þá um viðinn.“ Spurður um hvað sé svona sterkt og gott við rekaviðinn segir Bóbi að hann sé fúavarinn af seltunni í sjónum. Viðurinn sé jafnvel búinn að vera tíu ár í sjó áður en hann komi að landi. „Ég tek keðjusögina með mér til að saga drumbana í hæfilega búta til að bera og vinna úr. Síðan mótar maður þetta með söginni og sporjárni. Svo nota ég slípirokk á jaðarinn til að fullvinna viðinn. Að lokum geri ég augun og hárið,“ segir Bóbi og bætir við að heilmikið dútl fari í það. Augnhárin séu t.a.m. gerð með því að bora millimeters breið göt og líma járnvír í götin. Hárið sé oftast gert með vírgrind með límfyllingu áður það er málað í svörtum eða skærum lit.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Viðurinn í skúrnum hjá Bóba, aðallega rekaviður.

Býr aðallega til kerlingar
Bóbi hefur útbúið nokkurs konar gallerí í sólstofunni heima hjá sér. „Þar er heitur pottur sem við höfðum ekki notað lengi og tilvalið að koma fígúrunum fyrir hér. Hér eru kjöraðstæður til að leyfa viðnum að þorna, springa og jafna sig. Það er mjög algengt að þess þurfi.“ Örfáar karlkyns fígúrur eru í galleríinu en fjölmargar kvenkyns, enda er Bóbi vanur að vera umkringdur konum því hann á fimm dætur. „Ég býr aðallega til kerlingar. Ég er klaufi að gera karlana og hef því lítið gert af þeim.“ Sumar konurnar eru út frá fyrirmyndum eins og Marge Simpson og Leiu prinsessu í Star Wars. „Þegar ég geri andlitið byrja ég á augunum og nefinu og vinn svo út frá því. Það er þó hárið sem greinir þær aðallega að.“

Afrakstur ferlisins sést t.d. á þessum myndum. Hægra megin en Leia prinsessa.

Fær hópa í heimsókn
Spurður segir Bóbi að honum þyki ekki vænna um einhverja fígúru umfram aðra. „Nei þetta er allt svona svipað. Sama vinnuferlið í þessu öllu og ég hef svipað fyrir þessu. Ég gerði eina með fjögur andlit. Þetta var bara svo stór drumbur að ég ákvað að hafa fjögur andlit til þess að hafa hana dálítið víðsýna og að hún sjái vel í allar áttir.“ Bóbi segir að alltaf eitthvað spurt um fígúrurnar og stundum taki hann á móti hópum sem vilja skoða. „Fólk hefur gaman að því að koma og skoða þetta. Ég býst við að halda þessu áfram á meðan heilsan endist. Fínt að vera hér í ellinni og hafa eitthvað að gera eins og að búa til kerlingar,“ segir hann brosandi að endingu.

Heitapottsaðstaða í garðhýsi hefur fengið nýtt hlutverk sem gallerí heima hjá Bóba.

VF/Olga Björt