„Eigum góðar stundir og látum gott af okkur leiða“
– Rótarýdagurinn haldinn hátíðlegur á laugardaginn
Rótarýklúbbur Keflavíkur verður með kynningu á klúbbnum í Bíósal Duus nk. laugardag kl. 14:00 til 16:00. Rotarýdagurinn verður þá haldinn hátíðlegur í tilefni af 110 ára afmæli Rotarýhreyfingarinnar.
„Hreyfingin er starfsgreinahreyfing, þ.e.a.s. félagarnir koma úr ólíkum starfsgreinum. Tilgangurinn er að fræðast um störf hvers annars, kynnast, auka skilning manna í milli, eiga góðar stundir saman og um leið láta gott af sér leiða bæði í nærsamfélaginu og á heimsvísu,“ segir Friðfinnur Skaftason, forseti Rotarýklúbbs Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir þegar hann er spurður að því hvers konar félagsskapur Rotarý sé.
– Í hverju felst starfsemi klúbbsins?
„Helsta starfsemin er vikulegir fundir þar sem við fáum okkur að borða saman og hlýðum á skemmtileg og fræðandi erindi um hvaðeina sem vekur áhuga okkar. Þá förum við gjarnan í skemmtiferðir og heimsóknir annað slagið. Þar fyrir utan er þátttaka einstakra félaga í starfi umdæmisins, alþjóðahreyfingarinnar eða einstakra verkefna sem þeir hafa áhuga á“.
– Hvað verður á dagskrá hjá ykkur á laugardag?
„Við munum kynna starfsemi klúbbsins. Eins og í starfi okkar munum við blanda saman fróðleik, skemmtun og alvöru. Við munum hefja dagskrá fljótlega upp úr kl. 14:00, verðum með nokkrar örstuttar kynningar úr starfi klúbbsins, svo sem um hverskonar erindi við erum með á fundum og þá starfsemi sem Rótarý er að styrkja. Til gamans mun nýi lögreglustjórinn okkar hér á Suðurnesjum, Ólafur Helgi Kjartansson, fræða okkur um áhugamál sitt, Rolling Stones. Síðast en ekki síst munum við nota tækifærið og veita viðurkenningu úr sjóðnum okkar „Suður með sjó“. Þá mun Arnór Vilbergsson aðstoða okkur við að hafa notalega stemmningu og auðvitað eru allir áhugasamir velkomnir“.