Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ég er rauðhetta
Fimmtudagur 19. nóvember 2015 kl. 16:12

Ég er rauðhetta

-leiksýning fyrir börn og fullorðna

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi á dögunum leikritið Rauðhettu eftir Jewgeni Schwarz í þýðingu Stefáns Baldurssonar og í leikstjórn Víkings Kristjánssonar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem leikfélagið setur þetta verk á fjalirnar en það var einnig sett upp árið 1981 og þá notast við sömu leikgerð. Einn leikara, Gísli B. Gunnarsson tekur nú aftur þátt, 34 árum síðar og sama má segja um unga stúlku, Guðnýju Kristjánsdóttur sem ekki hefur sagt skilið við félagið síðan og verið ein af aðaldriffjöðrum þess undanfarna áratugi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er einmitt ómetanlegt að hafa öflugt leikfélag í heimabyggð og Leikfélag Keflavíkur getur stært sig af því að vera eitt af öflugustu áhugaleikfélögum á Íslandi. Maður veltir því fyrir sér hvað liggi að baki eljunni og áhuganum hjá þessum þétta hópi sem staðið hefur á bak við leikfélagið í gegnum árin og sífellt bætist nýtt hæfileikafólk í hópinn. Þá hafa margir leikarar og leikstjórar stigið sín fyrstu spor á fjölum LK og fengið þar tækifæri og reynslu til þess að halda áfram á sömu braut. Þau eru lítil launin sem beðið er um, einungis að bæjarbúar komi og sjái það sem félagið hefur upp á að bjóða.

Það er auðvelt að mæla með þessari nýjustu sýningu leikfélagsins sem hentar bæði fyrir börn og fullorðna, sannkölluð fjölskyldusýning. Börnin voru vel með á nótunum og svo var það ýmislegt sem hinir fullorðnu gátu hlegið að – en börnin skildu síður.

Það er þéttur og hæfileikaríkur hópur sem færir okkur ævintýrið um Rauðhettu á skemmtilegan og nýstárlegan hátt. Má þar nefna hina ráðagóðu og sterku rauðhettu sem leikin er snaggaralega af Ritu Kristínu Prigge, Sigurður Smári Hansson túlkar vel hégómagjarnan og nokkuð skuggalegan úlfinn og sló algjörri þögn á salinn þegar hann birtist sem verður að teljast góður mælikvarði á barnasýningu, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes lék hugrakka Hvíteyra af miklu öryggi og hinn útsjónarsami refur Burkna Birgissonar veitti úlfinum harða samkeppni í ráðabruggi og lymskuhætti. Þá voru þeir óborganlegir furðufuglarnir Uno og Dos sem fylgdu rauðhettu eftir og veittu góð ráð eftir bestu getu og kitluðu um leið hláturtaugarnar. Þá léku þeir Yngvi Þór Geirsson og Guðsteinn Fannar Ellertsson. Aðrir leikarar voru Guðný Andrésdóttir, Hulda Björk Stefánsdóttir, Rúnar Þór Sigurbjörnsson, Arnar Helgason og Gísli B. Gunnarsson og komust allir vel frá sínu enda er leikarahópurinn allur mjög sterkur.

Höfundur tónlistar er Arnór B. Vilbergsson en hún var samin sérstaklega fyrir uppfærsluna og fannst mér hún falla vel að verkinu, hún var einföld og alls ekki yfirgnæfandi. Það sama má segja um alla umgjörð sýningarinnar. Þar eru lausnir hugvitsamlegar og einfaldar og má þar nefna leikmynd sem unnin er af meistaranum Davíð Arnari Óskarssyni, búninga og gervi sem unnið var af Söru Dögg Gylfadóttur og Helgu Guðnýju Árdal og ljósahönnun sem var í höndum Kjartans Þórissonar. Það eru ótrúlega margir sem koma að slíkri sýningu og ekki hægt að telja þá alla upp en heildin var góð.

Ekki er allt sem sýnist í skóginum hennar rauðhettu. Það getur bara verið einn einvaldur í skóginum en rauðhetta reynist hörkutól og hetja og það er alveg ofboðslega vandræðalegt fyrir úlfinn. Rauðhetta lætur ekki blekkjast, hún reynist klók og sér við úlfinum og þar hefur hún með sér hugrakka vini sína sem gefast aldrei upp. „Ég er rauðhetta“ er sungið í lokin, erum við ekki öll rauðhetta og hvar skyldi skógurinn vera?

Gef þessu 4 drullukökur af fimm mögulegum. Allir í leikhús.

Dagný Gísladóttir.