EFRI HÆÐIN BYGGÐ ÚTI Í GARÐI
Smiðurinn Ómar Svavarsson og eiginkona hans, Gyða Björk Guðjónsdóttir, eru búin að standa í ströngu síðastliðin þrjú ár og hafa aldeilis tekið húseign sína, Vallargötu 5 í Sandgerði, í gegn. „Við keyptum húsið 1996 og urðum fyrir því ári seinna að bílskúrinn brann. Segja má að síðan það gerðist hafi ég verið í hlutverki „framkvæmdanágrannans“, þess sem aldrei er friður fyrir og bæði vekur og svæfir nágrannana með hamarshöggum og látum. Húsið sem er úr timbri hafði verið forskalað og reyndist við nánari könnum allt fúið. Þá uppgötvuðum við að samkvæmt upphaflegri teikningu frá 1953 var húsið á tveimur hæðum en hafði verið tekið niður eftir bruna 1962. Fyrst lagaði ég skúrinn og hófst síðan handa við að byggja efri hæðina. Var hún smíðuð í garðinum hjá mér og síðan hífð upp með krana og fest á þá neðri með BMF þakakkerum og 20 cm löngum frönskum skrúfum. Með því að vinna þetta svona þá flýtti ég heilmikið framkvæmdunum og þó margir hafi lyft brúnum og furðað sig í upphafi. Nú styttist í að þetta 68 fermetra húsnæði okkar breytist í svona 110-115 fermetra.“