Eflum dætur okkar
Uppeldi barna getur verið aðeins flóknara í dag en áður því nú hafa langflest börn og unglingar aðgang að snjalltækjum og því myndefni sem þar er að finna, misgott efni eins og gengur. Sum börn eru þó með síma án aðgangs að netinu og geta þá eingöngu hringt úr símanum sínum.
Foreldrar sem ekki eru á varðbergi gagnvart snjalltækjanotkun barna sinna geta átt von á því að alls konar hugmyndir læðist inn í huga þeirra, hugmyndir sem ekki þykja uppbyggjandi fyrir sjálfsmyndina. Börn og unglingar eru viðkvæm fyrir áhrifunum og vilja jafnvel líkjast þessum eða hinum áhrifavaldinum. Stundum getur áhrifavaldur haft meiri áhrif á barnið en foreldrar. Það er því hluti af forvörnum nútímans að foreldrar ræði þessi mál við börnin sem eru að alast upp í tæknivæddum heimi, kenni þeim að vera gagnrýnin á það sem þau sjá á vefnum svo ungmennin þrói með sér heilbrigðar hugmyndir um sig sjálf og lífið.
Lovísa Hafsteinsdóttir, námsráðgjafi, er þaulkunnug hugarheimi barna og hefur ríkar skoðanir á þessu málefni. Hún býður upp á námskeið fyrir ungar stúlkur frá sextán ára aldri til að styrkja sjálfsmynd þeirra.
Ung börn með snjallsíma
„Ástríða mín hefur alltaf legið í að vinna með börnum, unglingum og ungu fólki almennt. Ég á fjögur börn sjálf og veit hversu þarft það er að leiðbeina unga fólkinu okkar í gegnum öll þau misvísandi skilaboð sem alls konar áhrifavaldar eru að senda frá sér á samskiptamiðlum. Ég er að sjá stelpur alveg niður í fjórða bekk sem eru komnar með snjallsíma og hafa þar með aðgang að alls konar áhrifavöldum á vefnum sem jafnvel ruglar þær í ríminu. Unga fólkið okkar getur verið sérlega viðkvæmt fyrir áhrifunum og þetta getur spillt sakleysi þeirra. Við þurfum að hjálpa þeim að standa sterk og þroska með sér raunhæfa sjálfsmynd sem byggir þau upp en brýtur þau ekki niður,“ segir Lovísa og bætir við:
„Sem námsráðgjafi hef ég séð stelpur sem eru að lenda í vandræðum með sjálfsmynd sína, þær gera sér ekki grein fyrir styrkleikum sínum. „Ég er ekki nógu góð,“ halda þær þegar þær bera sig saman við stílfærðar fyrirmyndir. Það er frumskógarlögmálið sem gildir þegar við erum til dæmis níu ára og engin miskunn. Oft verða fyrstu litlu áföllin á þessum aldri. Svo hleðst þetta upp og stúlkur mótast út frá atvikum sem þær lenda í einelti og fleira. Þegar komið er á unglingsárin eru þær að burðast með brotna sjálfsmynd. Þetta getur auðvitað einnig átt við um strákana. Ef barn er félagslega sterkt og líður vel í eigin skinni þá getur það hvað sem er í lífinu. Er það ekki það sem við viljum sem foreldrar?“
Vellíðan barna sett á oddinn
„Öll börn eiga að læra frá unga aldri að stjórna tilfinningum sínum, grípa óæskilegar hugsanir sínar áður en þær breytast í kvíða og innri skrímsli. Snjallsímar geta því miður aukið á þessa vanlíðan. Síminn er það fyrsta sem margir grípa í þegar óöryggi læðist að þeim og hann verður eins og hálfgerður öryggisventill. Persónulega finnst mér varhugavert að afhenda ungum börnum snjallsíma sem getur leitt til ávanabindandi hegðunar. Þau byrja að taka þátt í rafrænum samskiptum, senda skilaboð og taka á móti skilaboðum og táknmyndum sem þau túlka á vissan máta. Þau geta misskilið það sem skrifað er og jafnvel túlka allt út frá eigin sjálfsmynd, eigin vanlíðan, sér í óhag. Við fullorðna fólkið þurfum að vera duglegri að ræða snjallsímanotkun við börnin okkar, það eru forvarnir dagsins í dag sem byrja heima hjá foreldrunum. Börn, sem eru tengd vefnum í símanum, sjá allt mögulegt á netinu og sumt gerir þau hrædd eða vekur óhug og sumt skilja þau bara alls ekki. Svona er heimurinn okkar í dag, fullorðna fólkið er í símanum sínum á meðan barnið er í allt öðrum síma, allir fá frið, engin talar saman. Við erum að ala upp næstu kynslóð og það er í gegnum samskipti okkar sem við lærum að umgangast hvert annað. Við missum þetta mannlega í fari okkar ef við setjumst ekki niður og tölum saman, gefum okkur tíma til að hlusta á aðra og tjá okkur. Úthaldið verður minna fyrir munnleg samskipti í nærveru annarra því samskipti sem fara fram í tækniheimi eru stutt og með alls konar táknmyndum, einhverjum broskörlum, hjörtum og fleiru. Við notum lengri setningar þegar við tölum saman án símanna. Börnin þurfa að þjálfast í munnlegum samskiptum, það er mjög áríðandi. Við erum tilfinningaverur og þurfum að eiga í samskiptum í nærveru annarra án tækja. Tæknin getur aukið úthaldsleysi okkar í mannlegum samskiptum, rænt okkur orku. Okkur vantar þetta samtal, þessa nánd hvert við annað. Börnin okkar þurfa þennan tíma með okkur, þessa ró og næði án tækja. Manneskjan tjáir sig bæði með orðum og snertingu. Við þurfum að setja vellíðan barnanna á oddinn,“ segir Lovísa sem langar að leggja sitt lóð á vogaskálar ásamt elstu dóttur sinni.
Elsku ÉG
„Það kenndi mér engin að hlúa að sjálfri mér, hvorki skóli né samfélag en við þurfum öll að sinna andlegu hliðinni. Margir hafa upplifað þetta og byrja oft að leita að þessari innri ró, eftir erfiðleika eða áföll í lífinu. Fólk er duglegt í líkamsrækt, að styrkja vöðva sína og þol en þegar kemur að því að hlúa að sálinni þá grípum við í tómt. Betra væri að við lærðum fyrr að hlúa að okkur. Það er eins og hvert annað vítamín að efla anda sinn. Það brennur á mér að kenna ungum stúlkum að hlúa að sér, læra að þykja vænt um sig og verða ánægðar með lífið og tilveruna. Ég og elsta dóttir mín, Gunnella Hólmarsdóttir, erum að vinna saman. Okkur langar að hjálpa ungum stúlkum að hlúa að og efla sjálfsmynd sína. Hún er leikkona og kemur inn með verkfæri leiklistar og jóga en við erum báðar jógakennarar að mennt. Jóga er svo frábær leið til að hjálpa börnunum okkar að efla andlegan styrk og jafnvægi. Við viljum vinna með stúlkum frá sextán ára aldri, hjálpa þeim að efla sitt sjálfstraust og gefa þeim verkfæri sem fer með þeim út í lífið. Elsku ÉG, námskeið okkar, fjallar um að verða sú manneskja sem þú í rauninni ert. Við getum ekki öll verið eins og eigum heldur ekki að vera það. Það er léttir að gefa sjálfum sér og öðrum þetta frelsi. Þú átt ekki að vera svona og svona í laginu þótt einhver annar sé það. Við erum öll einstök,“ segir Lovísa sem einnig hefur lokið diplómagráðu í Jákvæðri sálfræði og HAM, hugrænni atferlismeðferð, en allt þetta kemur við sögu þegar hún vinnur með sjálfstraust annarra.