Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Efling menntunar á Suðurnesjum
Fimmtudagur 29. september 2011 kl. 18:58

Efling menntunar á Suðurnesjum

Menntavagninn er farinn af stað á Suðurnesjum og mun á næstu mánuðum bjóða Suðurnesjamönnum í ferðalag þar sem þeir kynnast því öfluga starfi og þeirri miklu fjölbreytni sem er að finna í skólum og öðrum menntastofnunum á svæðinu. Markmið Menntavagnsins er að stuðla að jákvæðum viðhorfum og umfjöllun um menntun á Suðurnesjum. Fyrsti viðkomustaður er hjá Hönnu Maríu Kristjánsdóttur og Rúnari Árnasyni, verkefnisstjórum Menntamálaráðuneytisins.

Í kjölfar þess að sveitarfélögin á Suðurnesjum kölluðu eftir aðgerðum ríkisstjórnar gegn atvinnuleysi og í þágu atvinnulífs á svæðinu var ákveðið í lok árs 2010 að hrinda af stað átaki til að efla atvinnu og byggð á Suðurnesjum. Hluti af því átaki er sérstakt þróunarverkefni til eflingar menntunar á svæðinu og voru þau Hanna María og Rúnar ráðin sem verkefnisstjórar yfir því í byrjun maí þessa árs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum standa að verkefninu sem lýkur í janúar 2013. Verkefnið miðar að því að efla menntun á svæðinu, meðal annars með fjölbreyttara námsframboði sem koma á til móts við þarfir einstaklinga og atvinnulífs og aukinni ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem hafa litla menntun eða eru án atvinnu. Mestu máli skiptir þó að þátttaka og viðhorf Suðurnesjamanna til menntunar séu jákvæð.
Rúnar og Hanna María koma úr gjörólíkum áttum, og voru ráðin til verksins meðal annars af þeirri ástæðu. Rúnar starfaði til fjölda ára í lögreglunni og fór síðar til náms og atvinnureksturs erlendis samhliða ýmsum verkefnum hér á landi. Hanna María hefur starfað við kennslu og stjórnun í Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðan hún lauk háskólanámi. Að þeirra sögn gengur samstarfið mjög vel enda verkefnið bæði spennandi og krefjandi og vinnan í kringum það skemmtileg.

Fyrsta verkefni þeirra Hönnu Maríu og Rúnars var að skipuleggja námskynningu í samvinnu við Vinnumálastofnun á Suðurnesjum, sem haldin var í Stapa 18. maí síðastliðinn. Námskynningin gekk vel og var mjög vel sótt svo ráðgert er að endurtaka leikinn næsta vor. Hingað til hefur mestur tími þeirra annars farið í kortlagningu verkefnisins og greiningu á þörfum þeirra sem að því koma. Þeir eru fjölmargir og ber þar helst að nefna aðila atvinnulífsins, atvinnuleitendur og menntastofnanir á svæðinu. Stærsti hópurinn sem á hlutdeild í þessu verkefni eru þó Suðurnesjamenn sjálfir. Án þeirra stuðnings og þátttöku verður erfitt að ná því markmiði að efla menntun og auka menntunarstigið á Suðurnesjum.

Liður í verkefninu um eflingu menntunar á Suðurnesjum er kynningarherferð um gildi menntunar og að sögn verkefnisstjóra hefst hún nú þegar Menntavagninum leggur af stað. Í framhaldi verða þau náms- og félagslegu úrræði sem í boði eru á Suðurnesjum kynnt með jákvæðum og uppbyggilegum hætti í máli og myndum hér í Víkurfréttum. Þá verða niðurstöður ýmissa kannana sem gerðar hafa verið á Suðurnesjum kynntar. Könnun á viðhorfi Suðurnesjamanna til menntunar verður framkvæmd af Capacent Gallup í október og vonast verkefnisstjórar til þess að íbúar taki henni vel. Að mati þeirra Hönnu Maríu og Rúnars er of mikið gert af því að draga aðeins fram það neikvæða í fjölmiðlaumfjöllun um Suðurnesin. Það er því markmiðið með Menntavagninum að tryggja jákvæða umfjöllun um menntun og tengd málefni á Suðurnesjum, til að styrkja jákvæð viðhorf til menntunar og svæðisins sem við búum saman á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024