Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ef þú ætlar að halda sönsum í lífinu verður þú að hafa pínu gaman
Arnar og Jóhann með einu af rafmagnsfjallahjólunum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 29. ágúst 2022 kl. 09:30

Ef þú ætlar að halda sönsum í lífinu verður þú að hafa pínu gaman

segja þeir Arnar Helgi Lárusson og Jóhann Rúnar Kristjánsson.

Þeir Arnar Helgi Lárusson og Jóhann Rúnar Kristjánsson eru félagar, fyrrverandi samstarfsmenn og frændur. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa lamast í mótorhjólaslysum. Báðir hlutu þeir mænuskaða af en hafa ekki látið það stöðva sig í hinum ýmsu verkefnum, afþreyingu og íþróttum. „Hvort sem þú ert með mænuskaða eða eitthvað annað, þá lendir enginn í lífi þar sem það kemur ekki einhver mótbyr. Það má enginn gera lítið úr mótbyr, meiðslum eða fötlun annars manns. Það sem er að hrjá þig er það versta sem þú ert að díla við og þú verður að taka því eins vel og þú getur,“ segir Arnar en þeir félagar hafa verið duglegir að hjóla um á sérútbúnum hjólum undanfarið og hjóluðu meðal annars að eldgosinu.

Við settumst niður með þeim Arnari og Jóhanni og báðum þá um að rifja upp örlagaríku stundirnar þegar þeir lentu í slysunum og hvernig líf þeirra breyttust á örskotstundu.

Jóhann var að keyra um í Sandgerði á „racer“-hjóli árið 1994 þegar skyndilega var svínað fyrir hann og varð það til þess að hann keyrði á vörubíl. „Ég sem sagt lendi í því að það sé svínað fyrir mig og allt fer í einhverja vitleysu og ég keyri á kyrrstæðan vörubíl. Í þessu slysi hálsbrýt ég mig og hryggbrýt, ég axlabrotna og viðbeinsbrotna og hlýt mænuskaða af. Ég er lamaður fyrir neðan brjóst eftir þetta slys. Þetta er annað slysið á Íslandi þar sem einstaklingur hlýtur mænuskaða á mótorhjóli og lifir það af. Það hafði ein stelpa lent í því á undan svo við vitum,“ segir Jóhann. Hann dvaldi í eitt ár inni á spítala í endurhæfingu, eftir það fór hann af stað út í lífið og ákvað að fara í skóla sem leiddi hann að hinum ýmsu ævintýrum. „Það kom svo verkfall og ég fer inn á Reykjalund, þar kynnist ég borðtennisíþróttinni. Þar opnaðist gluggi fyrir mig að fara og leggja heiminn undir mig. Ég fór á einhver 200 til 300 mót, ólympíuleika, heimsmeistaramót og Evrópumót, sem var algjört ævintýri. Ég styrktist alveg heilan helling í skrokknum við þetta allt saman. Það bjargaði mér alveg, þarna varð ég bara aftur virkur þjóðfélagsþegn og í tengslum við samfélagið,“ segir Jóhann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnar hafði verið á hinum ýmsu bifhjólum frá unga aldri en hann var að æfa sig fyrir keppni í kvartmílu árið 2002 þegar skyndilega hann missti stjórn á hjólinu við það að reyna að bremsa. „Þetta er á þessu tímabili sem herinn er að banna okkur að vera á Patterson-svæðinu og þá vantaði stað til þess að vera á. Kom þá í ljós að það skiptir rosalega miklu máli að vera á góðum stað. Ég fer út í Helguvík og mæli kvartmíluna, þetta er spennandi kafli og ég var búinn að hugsa um bremsuvegalengd og allt. Ég var svo að setja hjólið í gang og ákvað að þruma eina ferð upp eftir, eins og maður gerir oft þegar maður eru úti á braut. Þar var ég ekki búinn að hugsa um hvar ég myndi bremsa. Ég fer eiginlega óvart í suðurátt og kem þá á of miklum hraða að beygjunni í brekkunni sem liggur niður að höfninni. Ég fer beint út af þar og í stórgrýtið,“ segir Arnar og bætir við: „Ég brýt sex hryggjarliði, frá T1 niður í T6. Það vantaði sem sagt alveg í mig einn hryggjarlið og ég er svo brotinn að það er ekki hægt að framkvæma aðgerð á mér. Það hefði þurft að fara inn í mig bæði að framan og aftan og því var ég bara látinn liggja og gróa.“ 

Arnar segist vera heppinn að ekki hafi farið verr og þakkar öryggisbúnaðnum sínum fyrir að hann sé á lífi. „Það var ótrúleg heppni í óheppninni að ég er ekki neitt fjölskaðaður að öðru leyti. Ég þumalputtabrotnaði, með glóðarauga á báðum og hjálmurinn splundraðist. Ef ég hefði ekki verið í galla þá væri ég steindauður,“ segir Arnar.

Sjö ár voru á milli slysanna en árangurinn og batinn sem þeir náðu á stuttum tíma í raun kraftaverki líkast. Arnar segir að Jói hafi hjálpað honum mikið í kjölfar slyssins því hann vissi nákvæmlega hvað Arnar var að ganga í gegnum. „Ég sá það strax að það þýddi ekkert fyrir mig að vera að spyrja einhverja lækna um mænuskaðann. Jói vissi allt miklu betur en þeir og ég man að ef eitthvað var að gerast hjá mér þá var ég ekkert að hringja einhverri bjöllu til að tala við lækni heldur hringdi ég bara í Jóa. Hann var alltaf með bestu ráðin og vissi nákvæmlega hvað ég var að ganga í gegnum,“ segir Arnar. Endurhæfing Arnars gekk eins og í sögu en þremur mánuðum eftir slys voru hann og konan hans, Sóley, komin í aðra íbúð og var allt eins og ekkert hafi í skorist. „Það hefur enginn verið svona snöggur í gegnum endurhæfingu eins og Arnar,“ segir Jóhann. 

Arnar á handahjóli
Hjólaði 400 kílómetra á handahjóli

Í júní 2021 ákvað Arnar að hjóla 400 kílómetra með handaflinu einu á sérstöku handahjóli og safna í leiðinni fyrir fjórum rafmagnsfjallahjólum fyrir hreyfihamlaða en hvert þeirra kostar tvær og hálfa milljón króna. „Ég lagði í það þarsíðasta vetur að eyða þremur til fjórum klukkutímum, og stundum fór það upp í sex klukkutíma á dag, að æfa fyrir þetta. Ég sá fljótlega að ég gæti örugglega farið 400 kílómetra, af því það gekk svo vel. Þannig að 400 kílómetrar voru slegnir,“ segir Arnar. Hjólatúrinn byrjaði austan við Kirkjubæjarklaustur og hjólaði Arnar alla leið á Selfoss. „Það sem ég var ekki búinn að taka inn í myndina voru Vegagerðin, mótvindurinn og kuldinn yfir nóttina. Þetta var í júní og það voru tvær eða þrjár gráður um nóttina,“ segir Arnar. Þegar hann hafði lokið 200 kílómetrum hélt hann að hann þyrfti að hætta en þá hafði hann verið búinn að hjóla frá því klukkan 17 og klukkan þá orðin hálf þrjú um nóttina. „Ég skalf úr kulda og neðri parturinn var orðinn svo kaldur. Þó ég sé heitur að ofan og búinn að vera á fullu að hjóla þá var neðri parturinn bara frosinn,“ segir hann.
„Já, já. Arnar kom inn með frosið hor og salt í buffinu og við þurftum að hnoða í hann lífi,“ segir Jóhann í kaldhæðni. Eftir að hafa farið í langa, heita sturtu og náð upp hita með hjálp konu sinnar og sonar hugsaði Arnar með sér að ef hann skyldi sofna myndi hann ekki klára þá 200 kílómetra sem voru eftir. „Þá kom gamli skipstjórinn og bara „ræs, allir út á dekk“ – og ég hugsaði með mér, gat hann ekki sofið í klukkutíma í viðbót eða alla vega tekið morgunmat,“ segir Jóhann flissandi. „Þá var bara farið á hjólið og haldið af stað og það gekk rosa vel, fram að Vík,“ segir Arnar. Þegar þangað var komið var verið að klæða götuna og setti það strik í reikninginn fyrir Arnar. „Það var ekki búið að sópa klæðninguna. Það voru sex kílómetrar af því, það var eins og ég væri að sökkva ofan í sand. Þetta var bara eins og að taka aðra 70 [kílómetra]. Þegar maður var svo búinn að hjóla 350 kílómetra varð þetta aðeins léttara. Þá kom fólk að hjóla með okkur og þá kom kraftur,“ segir hann. „Þetta er bara svona heimsmetabók Guinness dæmi. Þetta er bara eins og að við myndum ákveða að setjast upp á hjól í Keflavík og hjóla norður á Akureyri, þetta er sami spotti,“ segir Jóhann.

Vissu ekki hvað þeir væru að fara út í

Með þessu afreki Arnars söfnuðust á tólftu milljón króna og keyptu þeir félagar fjögur rafmagnsfjallahjól sem eru sérútbúin fyrir hreyfihamlaða. Nú fyrir stuttu ákváðu þeir félagar að fara á hjólunum að skoða nýju eldstöðvarnar í Meradölum en það hafði verið á dagskránni hjá þeim síðan að fyrra gosið byrjaði. „Svo fór að gjósa aftur 3. ágúst og þá var ekkert aftur snúið og við létum flakka,“ segir Jóhann. „Við vissum svo sem ekki alveg hvað við værum að fara út í, hvort við myndum komast alla leið eða ekki. Við vorum að fara til þess að sjá hvort við gætum boðið upp á það að fara upp að gosi með annað fólk með fatlanir á hjólunum og hvort leiðin væri einföld, sem hún er alls ekki,“ segir Arnar. Á leið þeirra urðu áskoranir og hindranir en að lokum komust þeir að gosinu og segja upplifunina hafa verið einstaka. „Við kláruðum þetta og upplifunin er eitt af topp þremur í mínu lífi. Þetta var einstakt, algjörlega einstakt,“ segir Jóhann.

Arnar ásamt konu sinni og syni við gosstöðvarnar

Arnar segist hafa haft gaman af ferðinni enda elskar hann að gera hluti sem eru líkamlega erfiðir, að eigin sögn. „Ég er búinn að prófa ýmislegt, ég prófaði einmitt borðtennis með Jóa á sínum tíma þegar hann var upp á sitt besta í því. Svo þegar ég fór í þessar líkamlega erfiðu íþróttir fann ég mig. Það er það sem við erum að reyna að gera núna, að gera fólki kleift að prófa næstum hvað sem er,“ segir Arnar.

Sjálfa af Jóhanni á leiðinni upp að gosinu
Ætla að hafa gaman

Arnar og Jóhann sitja báðir í stjórn Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, Arnar sem formaður samtakanna og Jóhann er gjaldkeri. Aðgengismál eru þeim hugleikin og síðustu ár hafa þeir unnið að því að berjast fyrir betra aðgengi á hinum ýmsu stöðum. Nú hafa þeir tekið „nýja stefnu“ og vilja einblína á að hafa gaman.

„Við erum búnir að fara alla þessa leið, eyða öllum þessum árum og ótal kröftum í allskonar málaferli og ég veit ekki hvað og hvað en árið 2022 er ennþá verið að byggja hús sem eru ekki í lagi. Við félagarnir vorum að spjalla saman um daginn og ætlum aðeins að fara að eyða meiri krafti í okkur sjálfa og hafa gaman, hjóla og fara jafnvel á sjóinn á kajökum og renna fyrir fisk,“ segir Jóhann og Arnar bætir við: „Við ætlum bara að gleyma þessu núna aðeins, þetta er bara kafli sem við erum búnir að eyða alveg ótal tíma í og það er ekkert sem gerir mig reiðari en þegar ég fer að vinna í þessum málum. Þannig ég hugsaði; ég er kominn með nóg af því að vera leiðinlegur og reiður. Nú ætlum við að fara að hafa gaman. Við ætlum að safna allskonar dóti til að bjóða fólki sem er hreyfihamlað upp á upplifun. Við ættum frekar að vera að hugsa um þennan félagslega þátt, sem er svo mikilvægur í lífinu. Ef þú ætlar að halda sönsum í lífinu þá verður þú að hafa pínu gaman.“

Mynd af Arnari úr einkasafni Jóhanns

Sjá viðtal við þá Arnar og Jóhann um ferð þeirra að gosstöðvunum hér: