Eðalrauðvín boðin upp í Leirunni í kvöld
Eðalrauðvín verða boðin upp á herrakvöldi Golfklúbbs Suðurnesja í golfskálanum í kvöld þegar árlegt herrakvöld fer fram. Gunnar Páll Rúnarsson, meistarakokkur og eigandi Vínbarsins í Reykjavík færði golfklúbbnum eðalrauðvín til að bjóða upp í kvöld.
„Þetta vín, Catena Alta, Cabernet Sauvignon er frá árinu 2003 og hefur fengið stjörnudóma. Það er ekki selt hér á landi en er algert sælgæti. Ekta sparivín til að eiga á hátíðarstundum,“ sagði Gunnar Páll sem byrjaði eldamennskuna fyrir fiskikvöld golfkúbbsins í kvöld. Þar verður bryddað upp á nýjungum, t.d. fiskisúpu sem hann byrjaði að kokka í gær. „Við verðum með frábæran fisk af helstu gerðum eins og alltaf en fiskisúpan á eftir að koma á óvart. Við höfum ekki haft hana áður á svona kvöldi,“ sagði kokkurinn sem er sjálfur liðtækur kylfingur.
Gunnar er Keflvíkingur en býr í Reykjavík og rekur sem fyrr segir Vínbarinn. Gunanr er sonur Rúnars Marvinssonar, hins kunna matreiðslumanns og saman unnu þeir um tíma á veitingahúsinu Við Tjörnina sem er landsfrægt.
Hann leikur talsvert golf á sumrin, bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Leirunni. Ég hef leikið golf víða erlendis en þegar á botninn er hvolft þá er merkilega ódýrt að leika golf á Íslandi og vellirnir orðnir góðir. Nú er í undirbúningi hjá honum golfferð til Skotlands næsta vor. „Við ætlum í Mekkað og leika fræga strandvelli og elsta golfvöll í heiminum, Gamla völlinn í St. Andrews. Það verður gaman“.