Dýrlingur sem varð að ímynd Coke
Hinn ameríski jólasveinn Coca Cola fyrirtækisins er í hugum margra ímynd jólasveinsins.
Uppruna hans má rekja til heilags Nikulásar sem er sagður hafa verið biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld eftir Krist. Nikulás (d. um 350) ) var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna og barna. Löngu seinna varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna.
Lúterstrúarmenn vildu ekki láta kaþólskan dýrling sinna þessu og bjuggu til sviplíkan karl sem þeir kölluðu Afa Frosta. Í Bretlandi var jólasveinninn þekktur undir nafninu „Father Christmas“ en hann átti rætur sínar að rekja til gamalla barnasagna í Frakklandi þar sem hann gekk undir nafninu Pére Nöel
Á 17. öld bárust siðir og sagnir um Nikulás með hollenskum innflytjendum til Ameríku, þar sem hann var kallaður Kris Kringle en það er afbökun á Christkindlein eins og hann var kallaður í Þýskalandi. Gælunafn hans á hollensku var Sinterklaas sem á 19. öld breyttist Santa Claus í Ameríku. Teiknarar gerðu hann að blendingi af Nikulási og Afa Frosta, klæddu hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápu Nikulásar, og í rauðar buxur, hvort tveggja með hvítum loðkanti. Einnig fékk hann rauða húfu í staðinn fyrir mítur – jólasveinahúfuna.
Þessi rauðklæddi karl barst síðan um víða veröld, þekktur sem góðlegur hvítskeggjaður karl sem deildi út gjöfum til barna. Oftast var hann sagður frá norðlægum slóðum, kannski vegna þess hve hlýlega hann var klæddur. Þessi mynd jólasveinsins var orðin útbreidd um aldamótin 1900.
Coca Cola fyrirtækið tók síðan Nikulás og gerði að sínum í frægri auglýsingaherferð í upphafi fjórða áratugs síðustu aldar og má segja að hún hafi orðið til þess að festa þessa ímynd jólasveinsins í sessi. Haddon nokkur Sundblom sá um teikna sveinka alveg fram til ársins 1964 og hefur ímynd hans æ síðan byggst á verkum Sundbloms. Rauði liturinn á hlýlegum fatnaði jólasveinsins var því kominn löngu áður en Sundblom hóf að teikna hann. Í upphafi notaði Sundblom vin sinn Lou Prentiss sem fyrirmynd jólasveinsins en eftir fráfall hans notaði hann sjálfan sig sem módel með því að teikna fyrir framan spegil.
Heimildir: Vísindavefurinn, www.thecoca-colacompany.com
Fyrsta Coca Cola jólaauglýsingin með Sveinka í aðalhlutverki birtist í Saturday Evening Post árið 1931.
Árið 1938 birtist í fyrsta skipti barn með með Sveinka í auglýsingu.
Margir muna eftir gömlu kók-kælunum, sem voru við lýði í mörg ár. Hér er Sveinki við einn slíkan í auglýsingu frá 1941.
Með þessari auglýsingu frá 1953 urðu þau tímamót að slagorðið „The Pause That Refreshes” var ekki lengur notað en það hafði verið aðalslagorð Coca Cola fyrirtækisins frá árinu 1929. Hér er Sveinki í góðum félagsskap álfanna á verkstæðinu sínu og hressir sig við með því að drekka Coca Cola.
Glaðlegur Sveinki með hamingjusömum börnum í auglýsingu frá 1964. Sundblom fékk börn nágrannans til að sitja fyrir.