Dúxinn verðlaunaði sig með iPhone
Andrea Björg Jónsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi þegar útskrift Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram um síðastliðna helgi. Andrea segist stefna á læknisfræði en hún heillaðist af læknisfræðinni þegar hún fór á háskóladagana á síðasta ári. „Þá sá ég mig ekki vera neitt annað en lækni í framtíðinni,“ sagði Andrea í samtali við Víkurfréttir. Andrea fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku, fyrir spænsku og hún fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku.
Andrea Björg fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði og hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Andrea Björg fékk svo 100.000 kr. styrk úr Skólasjóði Fjölbrautaskólans fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi. Landsbankinn veitti Andreu svo viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og góðan árangur í tungumálum, stærðfræði og raungreinum.
Skipulag er númer eitt, tvö og þrjú að mati Andreu þegar kemur að náminu en hún segir það einnig mikilvægt að vera þolinmóður og hafa gaman af náminu. „Ég hef alltaf verið mjög skipulögð, en að mínu mati er skipulag. Það hjálpaði mér einnig mjög mikið að vinna jafnt og þétt, ekki fresta hlutunum fram á síðustu stundu,“ segir Andrea.
Andrea hélt stóra útskriftarveislu um síðustu helgi þar sem hún bauð fjölskyldunni og vinafólki, en síðan komu vinir hennar í heimsókn um kvöldið á útskriftardeginum. Hún gerði svo vel við sig í tilefni áfangans og keypti sér iPhone. „Það var smá útskriftargjöf frá mér til mín,“ en Andrea hefur tvö síðustu ár unnið í Kaskó í Keflavík með skólanum. Hún segir það vera mjög þægilega vinnu með skóla.
Uppáhalds fag Andreu hefur alltaf verið stærðfræði, en hún hefur alltaf átt tiltölulega auðvelt með að skilja hana að eigin sögn. „Ég sá samt hvað ég hafði gaman af að læra um mannslíkamann þegar ég fór í LOL (líffæra- og lífeðlisfræði) áfangana í FS. Mér fannst þeir rosalega skemmtilegir.“
Andrea æfði sund á árum áður en hún hefur mjög gaman af ýmiss konar hreyfingu. „Ég hef haldið áfram að stunda líkamsrækt á hverjum degi eftir að ég hætti, enda þekki ég ekki neitt annað. Vinir mínir hafa líka alltaf átt stóran part í mínu lífi, en ég kynntist einmitt bestu vinkonum mínum í gegnum sundið. Svo finnst mér einnig gaman að ferðast og sjá og upplifa nýja hluti. Ég ætla mér að vera dugleg að ferðast í framtíðinni.“
Andrea hafði upphaflega hugsað sér að fara í Menntaskólann í Reykjavík en ákvað að sækja um í FS þar sem hún var enn að æfa sund. Hún segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun en hún upplifði margt skemmtilegt í FS og kynntist fullt af frábæru fólki, bæði kennurum og nemendum. Andrea ætla fyrst og fremst að vinna hjá bílaleigunni Hertz í sumar. Hún gerir svo örugglega eitthvað skemmtilegt þegar hún á frí, en segir það ekkert vera ákveðið.