Dugnaður er númer eitt, tvö og þrjú
– segir sjómaðurinn Róbert Dalmar Gunnlaugsson
Róbert Dalmar er 22 ára, hann byrjaði að vinna á sjó árið 2017 í skólafríum en í dag vinnur hann á Sturlu GK 12 eftir að hafa útskrifast úr Skipstjórnar- og stýrimannaskólanum árið 2020.
Á Sturlu eru stundaðar botntrollsveiðar þar sem veiddur er bolfiskur eins og þorskur, ýsa og ufsi og segir Róbert túrana vera mislanga. Þá segist hann eiga margar góðar minningar frá sjónum og nýtur þess að enginn dagur sé eins. „Þetta er mjög skemmtilegt starf. Það góða við sjómennskuna er það að „típískur“ dagur er ekki til, það er enginn dagur eins,“ segir Róbert. Þrátt fyrir það segir hann það oft erfitt að vera lengi í burtu frá fjölskyldu og vinum og „missa af svo mörgu“. Þá nefnir hann einnig að veðráttan við Ísland sé „ekki auðveld“.
Helstu verkefni Róberts á sjónum eru að koma trollinu í hafið og hífa aftur upp, gera að fiskinum, ganga frá niður í lest og veiða fiskinn ef hann er í brú. Hann segir skólann vera góðan undirbúning fyrir þá sem eru í brú en ekki þá sem eru á dekki en bætir við að „mest kemur þetta þó með reynslunni.“
Róbert á margar góðar minningar frá sjónum, hann segir þessar vera honum efst í huga: „Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, ég hef séð hvali og hákarla koma í trollin, við höfum fengið í skrúfuna, slitið niður veiðarfærið, svo fylltum við bátinn einu sinni það voru um 70 tonn á fjórtán klukkutímum. Listinn er endalaus.“
Snýst allt um samvinnu
Róbert fær oft spurningar frá jafnöldrum sínum um hvernig starfið er. „Fólki finnst þetta oftast rosalega áhugavert,“ segir hann. Aðspurður hvort skipverjar komi öðruvísi fram við hann út af aldri segir hann: „Ég get ekki sagt það, þetta er bara samvinna allt saman og þá er gott ef allir treysta hver öðrum í sömu verkin.“
Róbert vonast til þess að vera sjómaður eins lengi og hann getur og stefnir að því að verða skipstjóri einn daginn. Hann segir starfið ekki vera auðvelt en að dugnaður skipti mestu máli. „Dugnaður er númer eitt, tvö og þrjú, það fæðist enginn með þetta en ef þú reynir og gerir þitt besta þá verða menn sáttir,“ segir hann.