Dúettakvöld á Top of the Rock í kvöld
Ástin, kærleikurinn og angurværðin munu svífa yfir vötnum dagana 17. September næstkomandi þegar söngkonan Kristjana Stefánsdóttir og trúbadorinn Svavar Knútur leiða saman hesta sína með dúndurþéttu dúettaprógrammi. Tónleikarnir verða á Top of the Rock á Ásbrú í Reykjanesbæ í kvöld og hefjast kl. 21.00 og mun aðeins kosta 1.000 kr. inn.
Þetta músíkalska par kom síðast saman fyrir tæpu ári á litlum tónleikum í Viðeyjarstofu, þar sem rómantík og hlýja ætluðu allt um koll að keyra. Vegna fjölda áskorana hafa Kristjana og Svavar því ákveðið að endurtaka leikinn, þó með uppfærðu lagavali.
Á dagskrá verða nokkur sígild lög með Abba, Gram Parsons, Robert Plant og Alison Krauss, Kenny Rogers og Dolly Parton og Bítlunum ásamt frumsömdu efni frá báðum listamönnum. Því verður um auðugan garð að gresja fyrir unnendur góðrar tónlistar.
Um samstarfið segja þau Kristjana og Svavar að það sé dásamleg tilfinning þegar tvær raddir renna saman í harmóníu og sálir stillast saman í söng. Það sé líka langþráð að hittast aftur og syngja fyrir vini sína og velunnara.