Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dreymir fyrir fiskeríi og vandræðum
Magnús Guðmundsson við Hólmstein GK. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 4. júní 2023 kl. 06:14

Dreymir fyrir fiskeríi og vandræðum

Magnús Guðmundsson ræðir draumfarir sjómanna.

Magnús Guðmundsson, skipstjóri í Garðinum, ræddi draumfarir sjómanna í sagnastund sem haldin var á Garðskaga í vetur. Það er þekkt að sjómönnum dreymi fyrir fiskeríi eða reiðileysi. Í kvikmyndinni Nýtt líf, sem gerist á vertíð í Vestmannaeyjum, er þessum draumförum gerð skil á gamansaman hátt. Í viðtali við Víkurfréttir segir Magnús okkur frá nokkrum draumum. Sumir eru fyrir miklum afla en aðrir voru ávísun á vandamál og reiðileysi. Við byrjuðum þó spjallið á því að kynnast Magnúsi og fá að vita hvað hafi valdið því að sjómennskan varð hans ævistarf að mestu.

Hvenær byrjaðir þú til sjós?

„Ég er búinn að vera til sjós alveg frá því að ég var barn. Ég fór að fara með pabba mínum á trillu þegar ég var sjö ára en á stærri bátum byrjaði ég 1970.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er mikil sjómennska í þinni fjölskyldu.

„Já, það er töluvert. Afi minn var til sjós fram yfir áttrætt og bræður mínir eru eða voru sjómenn.“

Og sjómennskan hefur smitast í synina.

„Já, þeir eru báðir í þessu. Annar þeirra er hjá Landhelgisgæslunni og er hjá flugdeildinni núna en hinn er vélstjóri á Sigurfara GK.“

En sjómannsferillinn hjá þér, hvernig var hann?

„Ég tók smá hliðarspor og fór í kennaraskólann en var á sjó á sumrin á meðan ég var í náminu. Þá voru engin námslán eða svoleiðis. Maður varð bara að vinna og ná sér í aur og komast í góð pláss. Mér líkaði sjómannslífið rosalega vel. Ég prófaði að kenna eitt ár fyrst eftir að ég útskrifaðist. Mér fundust launin svo lág og ég get sagt þér um dæmi að ég fór að kenna hérna einn vetur. Í páskafríinu fór ég á bát sem Ísstöðin í Garði átti, Ólaf Sigurðsson GK, og við vorum á netum. Ég fór í fjóra eða fimm róðra og hafði nákvæmlega sömu laun fyrir þessa róðra og kennaralaunin með yfirvinnu voru. Ég sagði: „Nei, þetta er ekki hægt,“ og fór þá alveg til sjós og var þar í 35 ár, eða frá 1973 til 2007. Þá fór ég aftur að kenna en það var bara vegna þess að útgerðin sem ég var hjá hafði hætt.“

Hvar varstu að róa?

„Ég hef aðallega verið hérna á Suðurnesjum. Ég var eina vertíð á loðnu á Dagfara ÞH frá Húsavík sem var reyndar gerður út frá Sandgerði. Svo hef ég líka verið á síld á haustin, bæði á reknetum og nót á bátum héðan og  austur á fjörðum og á Hornafirði. Ég var tvö haust á Hornafirði á reknetum. Þá var ég á vertíðum hérna í Keflavík og í Garðinum.

Ég var stýrimaður á Stafnesi KE í sex eða sjö ár með Oddi Sæmundssyni og svo var ég með Hólmstein GK. Ég var á honum í ein sextán ár og með hann í ellefu ár, síðustu árin sem hann var gerður út.

Svo keypti ég mér trillu þegar Hólmsteini var lagt og á hana enn og hef verið að róa á sumrin. Reyndar var ég að fara um helgar á vertíðinni þó ég væri að kenna þegar hægt var að fá einhvern kvóta en ég er ekki með neinn kvóta á bátnum og hef bara verið að leigja kvóta.“

Og núna ertu bara að dunda þér á strandveiðum.

„Já, núna er ég á strandveiðum. Ég fór ekkert á sjóinn í vetur því það var ekki hægt að fá kvóta en annars er ég hættur þessu og kominn á eftirlaun og þá er ágætt að vera bara á strandveiðum.“

Áhöfnin á Stafnesi KE árið 1984. Mynd/Faxi

Er erfitt að slíta sig frá sjónum?

„Já, það er erfitt að slíta sig frá honum, mér finnst það allavega þegar maður er búinn að vera lengi og hefur gaman af þessu. Ég þrífst illa í svona tímavinnu, þar sem þarf að vinna eftir klukku og vera alltaf að stara á klukkuna. Þú mátt byrja að vinna klukkan átta og þú átt að fara í kaffi klukkan hálftíu og þú átt að vera búinn í kaffi klukkan tíu og þú átt að fara í mat klukkan tólf. Ég kann ekki við svoleiðis, ég vil að verkefni ráði eins og gert er á sjó, klára verkefnin og svo förum við í kaffi eða í mat. Það þýðir ekkert að setja fast á miðri trossu og fara í mat. Það gengur ekki og það verður bara að klára það sem er. Akkorðsvinnan, mér hefur alltaf líkað best við hana.“

Þú byrjar á sjó upp úr 1970. Hvernig hefur sjómannslífið breyst á þessum árum?

„Það hefur náttúrlega breyst töluvert, þessir hefðbundnu vertíðarbátar eru eiginlega alveg horfnir. Netaveiði er alveg búin að vera og örfáir bátar sem eru á netum miðað við það sem var áður, þar sem hafnir voru fullar af bátum í Sandgerði og Keflavík. Það sést varla bátur í dag í Keflavík. Svo hafa bátarnir stækkað og allir þessir litlu bátar eru dottnir út.

Sjósóknin hefur einnig breyst með kvótakerfinu. Net voru lögð í byrjun janúar og þau voru ekki tekin upp aftur fyrr en í maí. Það var aldrei að menn tækju net í bátinn ef það spáði illa eða eitthvað svoleiðis, það var bara dregið gamalt og ef fiskurinn var lélegur þá fór hann bara á hjallana. Það var bara hugsað um að fiska nógu mikið, enda fiskverð miklu lægra þá heldur en núna.

Það sem hefur breyst með kvótakerfinu er að menn eru farnir að vanda miklu meira til hráefnisins. Öll geymsla og annað með því að setja aflann í kör og í krapa eða ís. Þá þarf ekkert að hreyfa fiskinn fyrr en hann er unninn. Þetta var hálfvafasamt allt saman svona eftir á að hyggja. Þetta var bara það sem sem tíðkaðist og við vorum bara langt á eftir mörgum öðrum. Norðmenn, til dæmis, þeir miðuðu aldrei við aflamagn heldur verðmæti sem þeir voru búnir að fiska fyrir. Þeir vissu ekkert hvað þeir voru búnir að fiska mikið í tonnum. Við hugsuðum bara um tonnin, enda keppni á milli manna.“

Það var þekkt hér áður að það var verið að verðlauna aflakónga. Það er ekki í dag, þegar þú veist að hausti hvað þú mátt veiða.

„Keppni verður engin þegar búið er að ákveða fyrirfram hvað þú mátt fá. Við á Stafnesinu urðum hæstir oftar en einu sinni. Oddur Sæmundsson var mikill aflamaður, hörkuduglegur sjómaður.“

Það er svona salt í okkur blóðið

Þú varst á fyrirlestri í vetur, á sagnastund á Garðskaga, þar sagðir þú frá draumförum sjómanna og menn hafi verið að dreyma fyrir fiskiríi og jafnvel aflaleysi. Er þetta engin mýta? Þetta gerist?

„Já og alla vega veit ég um marga og mig hefur oft dreymt fyrir þessu. Ég held reyndar að marga dreymi fyrir einhverjum hlutum, þeir bara átta sig ekki á því fyrr en kannski eftir á eða eða bara átta sig ekkert á því. Það er þekkt að fleiri en sjómenn dreymir t.d. fyrir veðrum, eins og bændur og aðrir sem eru háðir náttúrunni og eru að berjast við náttúruna alla daga og alla ævi.

Áhuginn er líka svo mikill á starfinu og konan mín segir gjarnan að þeir sem gera sjómennsku að ævistarfi, þeir séu ekki bara að vinna, þetta sé líka áhugamálið. Og hvað er það sem sjómenn gera þegar þeir fara helgarrúnt? Fara þeir ekki alltaf á bryggjurnar? Ég veit ekki betur – og ef þeir fara til útlanda, þá fara þeir alltaf niðri á höfn. Þetta er bara eitthvað sem togar í okkur. Það er svona salt í okkur blóðið eða eitthvað.“

Hvernig voru draumarnir að birtast þér?

„Það var að með ýmsu móti. Ég get sagt þér frá fiskidraumum og eins bara reiðileysisdraumum. Mig dreymir eins og marga fyrir brælum eða kannski einhverju veseni. Einn gamall vinur minn og frændi, Ásmundur Björnsson, fórst með Sveini Guðmundssyni GK árið 1992 og ef mig dreymir hann þá fæ ég alltaf brælu á sjó. Það er alveg segin saga einhverra hluta vegna. Ef mig dreymir pabba, Guðmund Guðjónsson, þá er mjög líklegt að ég lendi í einhverju brasi og eitthvað sé að. Ég veit ekki hvers vegna, kannski er hann að vara mig við. Ég veit það ekki.

Ég og bróðir minn áttum áttum saman tíu tonna bát sem hét Reykjanes.Við fiskuðum mjög vel á hann. Mig dreymdi fyrir eina vertíðina að ég væri staddur í fjörunni fyrir neðan þar sem ég er fæddur, í Réttarholti í Garði. Það hafði greinilega verið brim því það var mikill þari í fjörunni. Ég var að kafa í þarabunkana og sé að það stendur flaska upp úr þarabunkanum og ég tek hana. Þá er þetta koníaksflaska. Ég fer að líta í kringum og þá eru bara fleiri. Ég tíni upp hverja koníaksflöskuna á fætur annarri og er kominn með fullt fangið af koníaki. Þá kemur Oddur vinur minn Sæmundsson og fer að segja við mig: „Þú ert bara með fullt fangið af koníaki.“ Ég svara honum: „Já, blessaður fáðu þér líka, það er nóg af þessu.“ Svo varð draumurinn ekkert lengri og ég var alveg viss um að þetta væri fyrir fiskirí og við rótfiskuðum þessa vertíð.

Það var kominn kvóti á þessum tíma á þessa litlu báta eins og Reykjanes. Við vorum með ágætis kvóta og höfðum fiskað ágætlega. Svo vorum við að verða búnir með kvótann og það var mjög gott fiskerí. Ég sá fram á að við yrðum  að hætta því ég gat hvergi fengið kvóta. Það voru engar kvótaleigur komnar þá eins og er núna.

Við bræður vorum bara með tvær trossur í sjó á meðan ég var að reyna að útvega kvóta einhvers staðar en ég þekkti engan sem átti kvóta. Ég hafði heyrt talað um að Landssamband smábátaeigenda væri stundum að útvega mönnum kvóta og hringdi í Örn Pálsson, því ég var félagi í Landssambandinu. Hann vissi ekki um neinn kvóta en hann sagðist skyldi hringja í mig ef hann frétti eitthvað.“

Björg er mjög gott draumanafn

„Ég var alveg orðinn úrkula vonar um að við fengjum eitthvað en þá dreymir mig að ég sé staddur í veislu, þar var langborð sem var fullt af mat. Þá kemur til mín skólasystir mín úr kennaraskólanum. Hún heitir Björg, sem er mjög gott draumanafn. Hún er vestan af fjörðum og kemur til mín og með fat fullt af kjöti og spyr: „Vilt þú ekki fá þér líka?“ Ég hélt það nú. Draumurinn ekki lengri en við förum á sjó daginn eftir og drógum þessar tvær trossur sem voru fullar af fiski. Þá hringir Örn frá Landssambandi smábátaeigenda og segir: „Heyrðu, ég get útvegað kvóta.“ Þá er það bátur vestur á fjörðum, merkilegt nokk, sem hafði bilað, farið í honum vélin og útgerðin ætlaði að leigja frá sér allan kvótann. Ég leigði allan kvótann af honum og gat haldið áfram og klárað vertíðina.“

Svakalegur brotsjór

„Ég get sagt þér aðra sögu frá því ég var á Hólmsteini GK. Biggi bróðir [Birgir Þór Guðmundsson] var skipstjóri á Svaninum KE. Við vorum að róa frá Sandgerði og höfðum verið í helgarfríi og með netin í bátnum. Svo ætlum við að fara að leggja á mánudeginum. Mig dreymir að við séum að fara á sjó, ég og Biggi á Svaninum rétt á undan mér. Við erum að fara út sundið í Sandgerði, komnir út á djúpsundið og það er fínasta veður. Allt í einu, tekur sig upp svakalega mikið brot og hvolfist yfir Svaninn fyrir framan mig, sem fór á kaf, svo á mig líka og gusast yfir bátinn hjá mér en ekki eins mikið. Þegar þetta er liðið hjá fer ég að skima og sé að Svanurinn kemur bara upp úr aftur og heldur áfram. Þá er draumurinn búinn. Ég var alveg viss um það þegar ég vaknaði að þetta væri fyrir fiskeríi. Líklega myndi hann lenda í fiskeríi, ég fái eitthvað af því. Þegar við fórum á sjó ákvað ég að elta Bigga, láta hann um það að finna fiskinn og leggja bara hjá honum.

Það er bara alveg eins og í draumnum, hann er aðeins á undan mér en ekkert brim. Ég spyr hvert hann ætli að fara og hann segir mér það, hann ætli suður að Stafnesi. Ég segi honum þá að ég ætli bara með honum og leggja netin við hliðina á honum. Það var bara eins og við manninn mælt, hann rótfiskaði og við fengum ágætt en ekki eins vel og hann alla vikuna. Þetta var alveg greinilegur fiskidraumur.“

Gömul vinkona sem er skelfilegt að dreyma

Magnús kann margar sögur af draumum þegar hann var á Stafnesinu með Oddi Sæmundssyni á síldveiðum.

„Ég man eftir þegar ég var á Stafnesi á síld fyrir austan. Við lögðum upp í söltun á Reyðarfirði fullan bát af síld. Svo förum við út og það er ekkert að frétta af síld, nema einhverjir bátar eru að kasta á síld við Vopnafjörð. Ég lagði mig á leiðinni þangað og kem upp þegar við erum út af Seyðisfirði. Ég spyr Odd skipstjóra hvort það sé eitthvað að frétta og hann segir að veiðin sé ekkert sérstök. Ég segi við Odd að við séum að lenda í reiðileysi og hann spyr: „Var þig að dreyma eitthvað?“ Ég játaði því.

Ég sagði honum ekki drauminn en hann var þannig að ég var staddur hérna í Garðinum og í húsinu við hliðina á heimili mínu. Mig dreymir oft fiskidrauma þar. Ég er að ganga inn í húsið þegar bíll stoppar þar fyrir utan. Í honum er gömul vinkona mín og alveg skelfilegt að dreyma hana því það er alltaf reiðileysi þegar mig dreymir hana. Því betri sem hún er við mig, því meira verður reiðileysið. Í draumnum kemur hún út úr bílnum og faðmar mig að sér og mér fannst það óþægilegt. Ég spyr hana hvað hún sé að gera núna og hún segist vera að vinna á Stöðvarfirði. Svo er þetta ekkert meira nema hún fer inn í bílinn og keyrir af stað en stoppar svo og rekur höfuðið út og endurtekur: „Á Stöðvarfirði!“

Fyrst mig dreymdi hana þá var ég viss um að við værum að lenda í reiðileysi og það miklu fyrst hún faðmaði mig. Við siglum norður á Vopnafjörð. Köstum þar og endum inni í nótinni og rífum hana á hælnum. Við urðum að fara til Norðfjarðar og gera við. Eftir að hafa gert við fórum við aftur þarna norðureftir en þá kemur bátur og keyrir inn í nótina hjá okkur og aftur rifnaði allt í tætlur. Við lönduðum fimm eða tíu tonnum. Þegar búið var að laga allt í annað skiptið var farið suður á Berufjörð. Bátar höfðu verið að kasta þar. Við komum þangað undir morgun og þá eru eiginlega allir hættir því síldin var svo smá. Við keyrum um allt og finnum ekkert. Við förum á Fáskrúðsfjörð og finnum ekkert og aftur í Berufjörðinn.

Ég sagði þegar við fórum fram hjá Stöðvarfirði, hvort eitthvað hafi verið kíkt þar inn. Þá voru tveir bátar að koma út úr firðinum en höfðu ekkert fundið. Við fórum við til baka í Berufjörðinn og vorum þar alla nóttina og ekkert að finna. Þegar við vorum út af Breiðdalsvík á leið norður spurði ég Odd hvort við ættum ekki að kíkja í Stöðvarfjörðinn. Hann væri svo lítil að við værum enga stund að fara þar inn. Oddur sagði það ekkert vitlausara en hvað annað. Þegar við vorum að fara inn fjörðinn sagði ég við hann að nú væri síld í firðinum, því það sitja fuglar í skerjunum við fjörðinn. Árið áður hafði annar skipstjóri frá Stöðvarfirði verið með bátinn og hann sagði mér þetta þegar við höfðum veitt í Stöðvarfirðinum. Við finnum síld og köstum tvisvar og fáum 120 tonn. Þá var reiðileysið búið.

Það er þannig með sjómenn að þegar við lendum í reiðileysi þá finnst okkur þetta bara vera tímabil sem við þurfum að fara í gegnum. Þegar við erum búin að yfirstíga það og sýna æðruleysi þá kemur röðin að okkur. Skipstjóri sem ég var með frá Hornafirði sagðist engar áhyggjur hafa af þessu, það kæmi einhvern tímann að okkur – og röðin kom svo sannarlega að okkur. Við vorum næsthæstir yfir haustið.“

Síldardraumur upp á kíló!

Hafa tölur verið að birtast þér og jafnvel dæmi sem hafa gengið upp?

„Ég hef einu sinni lent í því á netum á Hólmsteini GK. Það var oft rólegt á haustin og þá erum við að prófa svona hina og þessa staði sem enginn hafði lagt á, eitthvað sem var ósært. Þá dreymir mig Ingólf heitinn Halldórsson, sem átti Svaninn og var með hann. Í draumnum hitti ég Ingólf og hann gaf mér lórantölur og spyr hvort ég hafi prófað þennan stað. Ég hafði aldrei prófað staðinn en mundi tölurnar þegar ég vaknaði. Ég fór beina leið þangað og lagði og við fiskuðum alveg prýðilega þá vikuna í þessum tölum. Það voru bátar allt í kringum okkur og þeir voru ekki að fá neitt. Þetta var bara á þessum bletti og það var ansi nákvæmt.“

Magnús dreymdi fyrir mikilli síldveiði hjá Stafnesi KE í Ísafjarðardjúpi og sá vigtarnótuna í draumi sínum.

„Við vorum að byrja á síld og höfðum frétt af því að væri síld vestur í Ísafjarðardjúpi en það hafði ekki verið kastað nót í Ísafjarðardjúpi áratugum saman. Af því við vorum alveg grænir í þessu þá datt okkur í hug að fara þangað en ekki einhverjum öðrum sem voru vanir. Við förum vestur og fáum eitthvað um 121 tonn af síld og förum með til Keflavíkur. Þetta var rosalega stór og falleg síld. Alveg ævintýralega stór síld. Við förum svo aftur vestur og á leiðinni dreymir mig að ég er staddur í húsinu hérna við hliðina á heimili mínu. Ég er að heimsækja föðurbróðir minn og sit í dyrunum hjá honum þar sem hann er að fella net í skúrnum. Í draumnum sit ég og er búinn að grafa holu í jörðina. Ég er að moka grárri leðju eins og steypu upp úr alpahúfu sem ég er með og sletta henni í holuna. Ég geri þetta nokkrum sinnum og segi svo að holan sé orðin full. Þá kemur maður til mín, Njáll Benediktsson sem var mikill vinur föðurbróður míns, og réttir mér reikning eða nótu. Á nótunni voru tvær tölur og svo niðurstöðutala sem var 252.740.

Ég mundi þessa tölu þegar ég vaknaði eftir drauminn. Við vorum að verða komnir í Djúpið og ég hafði verið vakinn í mat. Ég fór að hugsa þessa tölu, 252, því við komum því magni ekki í bátinn. „Það er útilokað að við komum 250 tonnum í bátinn,“ hugsaði ég. Ég vissi samt að þetta væri fyrir fiskeríi og við fengjum í bátinn í einu kasti. Ég velti þessum draumi mikið fyrir mér en komst svo að niðurstöðu um að þetta væru þá samtals 252 tonn og 740 kíló, því það voru tvær tölur á nótunni. Ég las bara niðurstöðutöluna, eins og maður gerir svo oft þegar maður fær reikning. Þegar við komum niður að borða sagði ég við Odd að við fengjum stórt kast í nótt og fylltum bátinn.“

Strákarnir farnir að efast um draumahæfileikann

„Þegar við byrjuðum að leita gerðist ekki neitt og engin síld fannst. Strákarnir um borð voru farnir að efast um daumahæfni mína. Við förum að sofa en Oddur heldur áfram að leita. Ég vakna snemma um morguninn og fer upp til Odds sem var grútsyfjaður yfir leitartækjunum. Hann er búinn að fara um allt, Jökulfirði og inn Djúpið. Oddur segir mér að eitthvað séu draumarnir að klikka en ég var harður á því að við fengjum síld. Klukkan var að ganga níu að morgni og byrjað að birta af degi en yfirleitt fæst ekkert í birtunni. Ég nefni við Odd að fara upp undir Hnífsdal því við höfðum fengið síld þar í túrnum á undan. Þar er brattur kantur alveg upp undir landi.

Ég fer niður aftur og er varla kominn þangað þegar það er öskrað: „Klárir!“ Þá hafði hann fundið torfu sem var hangandi utan í kantinum og fáum þetta svaka kast og byrjum að dæla. Það er hellingur í og við fyllum hverja stíuna á fætur annarri. Það voru tveir menn í lest til að jafna í og halda bátnum réttum. Svo er ekkert eftir nema bara miðjan, steinsinn. Þá kemur annar mannanna upp og svo hinn rétt á eftir. Skömmu síðar er allt orðið fullt og þá segir strákurinn sem var að koma upp: „Sko, holan er full!“ Það sama og ég sagði í draumnum þegar ég var búinn að fylla holuna úr alpahúfunni. Við dældum svo á dekkið eins og hægt var og slepptum svo niður restinni, það var ekki hægt að koma meiru fyrir um borð. Við förum með þetta til Keflavíkur.

Ég var búinn að segja við strákana eftir drauminn að mig hafi dreymt tölu og við gerðum samkomulag um að ég skrifaði hana niður og svo yrði hún bara skoðuð þegar við kæmum til Keflavíkur. Talan var nákvæmlega sú sem stóð á vigtarnótunni þegar ég sótti hana á hafnarvogina í Keflavík. Mig hefur aldrei aftur dreymt svona nákvæmlega fyrir einhverju, þetta var alveg ótrúlegt,“ segir Magnús Guðmundsson, skipstjóri í Garði.