Drepfyndin skilaboð að handan
Við eigum stefnumót við hjónin Brynleif Heiðar Jónsson og Vilborgu Guðrúnu Auðunsdóttur sem reka Gallerí Skart í bílskúrnum á heimili sínu í Suðurnesjabæ, Valbraut 7 í Garði. Það er ekki eingöngu skartið sem lokkar Víkurfréttir á fund þeirra, þau eru einnig næm á það sem aðrir ekki sjá og vildum við svala forvitni okkar í þeim málum.
Það fyrsta sem mætir blaðamanni Víkurfrétta í dyrunum er lítill kjölturakki sem heldur að hann sé varðhundur, geltir ákaft og snýr sér í hringi. Tínó heitir hundurinn og er kominn til að vera heima hjá húsráðendum, enda féllu þau strax fyrir honum.
Hundurinn valdi sér eigendur sjálfur
„Ekki vera hrædd við hann Tínó litla, hann lætur bara svona fyrst til að sýna hver ræður en svo tekur hann þig í sátt,“ segir Binni og hlær þegar hann opnar dyrnar. Blaðamaður leyfir hundinum að þefa af handarbaki sínu og þá er sá litli sáttur, fer strax í matardallinn sinn og borðar svo gesturinn fari ekki að vilja ofan í matinn hans. „Tínó litla sóttum við á dýraspítalann í Garðabæ en þangað hafði kona sem bjargar dýrum af slæmum heimilum komið með hann. Já, það er til fólk sem fer illa með dýr og þessi kona hefur bjargað mörgum dýrum sem hún skilar inn á dýraspítala sem síðan finnur þeim heimili,“ segir hann.
„Tínó var búinn að hitta þrjátíu manns áður en við komum á dýraspítalann til að kíkja á hann. Um leið og hann sá okkur þá kom hann beint til mín, þefaði af mér og settist svo hjá mér en þetta hafði hann ekki gert við neinn, ekki neitt af því fólki sem langaði að eignast hann og fara með hann heim af spítalanum. Dýralæknarnir voru búnir að segja að Tínó fengi sjálfur að velja sér nýja eigendur og það gerði hann svo sannarlega. Við erum mjög ánægð með hann og segjum stundum í gamni að hann sé sonur okkar, hafi komið í hundslíki í stað mannslíkis,“ segir Vilborg og brosir breitt.
Heilun og miðlun
„Ég er búinn að heila Tínó og gerði það meira fyrst eftir að við fengum hann því þá var hann í svo miklu áfalli, taugaveiklaður og hræddur við fólk. Alltaf þegar ég skynjaði að Tínó væri eitthvað dapur þá spurði ég hann hvort hann væri eitthvað slappur, þá rauk hann inn í heilunarherbergi og vildi fara á bekkinn hjá mér. Nú líður honum miklu betur,“ segir Binni og viðurkennir að hann sé heilari og geti miðlað en er núna í hvíld frá þeim störfum.
„Ég var alltaf rosalega opinn sem krakki og var að leika mér við krakka sem engin sá nema ég. Frænka mín sagði mér að ég hafi verið skrýtinn krakki. Mér var lokað á tímabili þegar næmnin var farin að trufla mig. Árið 2008 opnaðist ég og allt fór á fleygiferð. Þá sá ég alls konar fólk labbandi í gegnum rýmið, sá fyrir slys og myndir. Fólk var að kalla á mig eftir sjálfsvíg, rótlaust fólk sem bað um fyrirgefningu ástvina sinna. Þetta var ekki gaman að upplifa og auðvitað magnað en ekki þægilegt. Núna hef ég lært á þessa hæfileika og er meðvitaður um þá. Ég loka mér með því að signa mig á morgnana og þegar ég er nýkomin úr baði. Ég gef skipun og óska eftir vernd yfir mig. Áður passaði ég mig einnig á að þvo mér um hendurnar eftir að ég var búinn að heila aðra. Það er áríðandi þegar maður er svona næmur,“ segir Binni.
Kannski man einhver eftir því að hafa verið signdur sem lítið barn. Það gerðu mæður áður og gera kannski enn. Eftir bað þá signdi móðir barnið sitt með því að krossa bringu þess, í nafni guðs, föðurs, sonar og heilags anda, áður en barnið fór í nærbolinn. Þetta gerir Binni og næmt fólk til að vernda sig inn í daginn.
Bæði Binni og Vilborg eru næm en henni var lokað af Einari á Einarsstöðum þegar hún var lítil. „Ég er næm frá því að ég var lítið barn en þá lokaði mér læknamiðillinn Einar á Einarsstöðum. Þegar við Binni kynntumst þá opnaðist ég aftur og við höfum nýtt okkur það til góðra verka. Ég lá á spítalanum í Keflavík þegar ég sá Binna sem þá var að heimsækja mömmu sína. Mér leist rosa vel á hann,“ segir Vilborg og Binni bætir við: „Já, hún leitaði mig uppi og í dag erum við hjón.“ Þau horfa hvort á annað og hlæja.
Bænahringur og fyrirbænir
Sálarrannsóknarfélag Suðurnesja er til húsa að Víkurbraut 13 í Keflavík og þangað fer Binni og hittir fólk sem er að vinna í sjálfu sér.
„Ég er í bænahring hjá Sáló þar sem við biðjum fyrir fólki sem leitar til okkar með fyrirbænir. Þarna hitti ég annað næmt fólk og við tölum saman um andlega hluti sem aðrir skilja ekki, tölum hreint út og opið. Þegar við hittumst í Sáló þá smellur orka okkar saman, þetta eru eins og gamlir vinir mínir. Þetta fólk snertir ekki áfengi. Fólk sem er næmt á alls ekki að fikta með áfengi því það getur truflað fólk á geði. Áfengi og öll fíkniefni opna áruna, orkusvið okkar, og þá koma alls konar áhrif inn í okkur. Þunglyndi og leiði, sjálfsvígshugsanir og fleira óþægilegt. Gleðin deyr smám saman í manni.
Annars vinn ég á vöktum í íþróttamiðstöðinni í Garðinum og líkar það vel. Ég er ekkert að vinna með heilun í dag en ég er að skapa skart úr kristöllum sem getur heilað fólk sem er opið fyrir því,“ segir Binni.
Þetta átti bara að gerast
„Sagan af því hvernig Gallerí Skart varð til hjá okkur er lyginni líkust. Þetta byrjaði allt á því að miðill sagði mér í óspurðum fréttum að ég ætti eftir að vinna við það að búa til og selja skart. Hann sagði líka að ef ég vildi að starfsframinn yrði farsæll mætti ég alls ekki velja verðið sjálfur, heldur þyrfti ég að bíða eftir tákni sem segði mér hversu dýrt ég ætti að selja hvern hlut á. Mér fannst þetta drepfyndið enda kunni ég varla að festa á mig hálsmen hvað þá að búa þau til. Stuttu síðar vann ég handverksborvél í leik og þá kviknaði löngun hjá mér að prófa skartgripagerð. Svo fer mig að dreyma skartgripi og handverksmuni. Við konan förum í stutt frí til Skotlands og ég þræði götur Glasgow-borgar í leit að frekari innblæstri en finn ekkert sem mig langar að kaupa svo ég fer tómhentur heim. Rúmri viku síðar bankar upp á hjá mér kona með fullan kassa af grjóti, ýmis konar efni til skartgripagerðar og umbúðum til að setja þetta allt í. Hún segir að sig hafi dreymt að hún ætti að gefa mér þetta allt. Það var þá sem boltinn fór að rúlla,“ segir Brynleifur.
Umhverfisvænar umbúðir
„Gallerí Skart er núna komið úr forstofunni þar sem það var fyrst í einum glerskáp í það að vera 20 fermetrar í bílskúrnum. Einnig erum við með farsælan bás í Kolaportinu en þar erum við allar helgar og seljum ýmsa áhugaverða og fallega hluti. Allar vörurnar okkar koma í umhverfisvænum og endurvinnanlegum umbúðum. Okkur er afar annt um umhverfið enda fáum við innblásturinn og efnin þaðan sem við notum í skartgripagerðina.“
Innblástur frá víkingum og náttúrunni
„Innblásturinn kemur frá víkingamenningunni og íslenskri náttúru því það stafar svo mikil orka frá hvoru tveggja. Þegar ég er úti að labba þá er ég alltaf með augun hjá mér og lít eftir fallegum steinum sem ég gæti notað í skartgripagerðina. Oft set ég þá í gegnum steinaslípivélina til að slétta þá. Svo búum við til hálsmen, eyrnalokka og fleira úr steinunum. Þetta er mjög vinsælt hjá ferðamönnum og Íslendingar eru margir hverjir að uppgötva hversu mikinn fjársjóð náttúra landsins okkar hefur að geyma. Einnig flytjum við inn steypta málmhluti til skartgripagerðar og smáhluti sem tengjast víkingatímanum og Ásatrúnni. Svo fíníserum við efnið og búum til okkar eigið skart úr því,“ segir hann.
Rúnir og galdrastafir
„Við tókum saman rúnatáknin og gáfum út á bók ásamt leiðbeiningum um hvernig skuli leggja rúnir til þess að spá. Við seljum þessa bók og poka af íslenskum rúnasteinum úr fjörunni. Steinarnir eru náttúrulega slípaðir af hafinu og við máluðum rúnir á steinana. Einnig málum við galdrastafi á steina. Það stafar afar góð orka af þessum galdrasteinum og fólk hefur komið til mín sem hefur haft svona stein lengi í vasanum. Margir hverjir eru orðnir alveg rennisléttir öðru megin þar sem fólk hefur nuddað. Fólk getur ekki hugsað sér að skipta út steininum: „Þetta er minn steinn,“ segir fólk og geymir þá eins og gull. Svo kaupir fólk stein í gjafir handa vinum og vandamönnum.“
Saltkristalslampar eyða neikvæðri orku
„Við flytjum einnig inn vinsælu, appelsínugulu Himalaya-saltkristalslampana sem hafa slegið þvílíkt í gegn. Áhrifin af þeim eru einnig ótrúleg. Lamparnir eru sérstaklega þarfir á nútímaheimili þar sem mikið er af rafmagnstækjum. Í kringum þessi raftæki safnast gífurlegt magn af ryki. Saltkristalslampinn afjónar andrúmsloftið og bindur rykið sem verður til þess að loftið afrafmagnast. Saltkristalslampinn tekur einnig burt neikvæða orku og hefur róandi áhrif, minnkar stress. Ef lampinn er settur við hliðina á afruglara þá helst svæðið í kringum saltkristalslampann ryklaust. Við erum með sjónvarp inni í svefnherbergi hjá okkur heima. Ég veit að það er ekki æskilegt en konan hefur gaman af því að líta á skjáinn áður en hún fer að sofa. Ég átti alltaf erfitt með að sofna með sjónvarpið í gangi en eftir að við settum saltkristalslampa við hliðina á sjónvarpinu þá rotast ég á hverju kvöldi og sef eins og steinn. Ég mæli hiklaust með saltkristalslampa inn á hvert heimili og inn í svefnherbergi. Þetta hreinsar út neikvæðni,“ segir Binni sannfærandi.
„Ég er búinn að heila Tínó og gerði það meira fyrst eftir að við fengum hann því þá var hann í svo miklu áfalli, taugaveiklaður og hræddur við fólk ...
Gjafabúð heima í bílskúr
„Af því að við erum sjálf mikið á andlega sviðinu þá viljum við endilega deila reynslu okkar og þekkingu með öðrum og bjóðum upp á eitthvað spennandi í búðinni okkar. Við flytjum því inn heilunarreykelsi sem hjálpa til við andlega slökun. Við erum alltaf með gott úrval af reykelsum og getum ráðlagt fólki um ilm sem hentar við hvaða aðstæður sem er. Gallerí Skart selur einnig poka af Epsom-salti en saltið er þekkt úti í heimi fyrir heilsufarsleg góð áhrif sín. Þekktasta leiðin til að nota saltið er að setja það út í bað. Þá setur maður fáeinar matskeiðar í baðið sem losar um bjúg sem og hjálpar gegn streitu. Einnig er hægt að búa til skrúbb úr saltinu með því að blanda um þremur matskeiðum saman við tvær matskeiðar af laxerolíu. Skrúbburinn hreinsar burt dauðar húðflyksur, mýkir húðina og laxerolían hefur mýkjandi áhrif á liðina. Þetta er náttúruleg lækningaraðferð sem hentar til dæmis gigtarsjúklingum,“ segir Binni og Vilborg bætir við: „Við viljum endilega láta það berast að verslun okkar á fimm ára afmæli 5. desember og ætlum við að bjóða upp á 20% afslátt í tilefni þess. Allir eru velkomnir til okkar að skoða og sjá hvort hjá okkur leynist jólagjöf eða afmælisgjöf handa einhverjum eða bara gjöf handa manni sjálfum, það má alveg. Við erum ekki með fasta opnunartíma, fólk kemur bara og bankar upp á hjá okkur eða sendir okkur skilaboð á Facebook en þar erum við Gallerí Skart.“