Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Draumurinn að rætast hjá framtíðar fatahönnuði
  • Draumurinn að rætast hjá framtíðar fatahönnuði
    Helgi ásamt Dominic Chambrone.
Þriðjudagur 10. október 2017 kl. 05:00

Draumurinn að rætast hjá framtíðar fatahönnuði

-Hinn 16 ára Helgi Líndal lærði að hanna skó í Los Angeles

„Ég byrjaði að sauma föt 13 ára en síðan fékk ég mikinn áhuga á skóm,“ segir Helgi Líndal, en í september fór hann á námskeið Dominic Chambrone í Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem hann lærði að handsmíða skó. Helgi, sem er 16 ára gamall, segir að þar með hafi draumurinn sinn ræst.
„Ég átti bágt með að trúa því að ein af fyrirmyndum mínum væri að kenna mér. Ég rakst fyrst á Dominic á Youtube en ég sá að hann væri að halda námskeið annað slagið og ég endaði á því að senda skólanum tölvupóst. Ég fékk svo svar stuttu síðar og þau buðust til að taka frá pláss fyrir mig.“ Dominic Chambrone er mjög frægur í bransanum að sögn Helga en hann er kallaður „The shoe surgeon".


Stan Smith skór sem Helgi breytti. Þeir eru meðal annars úr venjulegu kúaleðri og með krókódíla prenti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Skólastofan er staðsett i miðbæ Los Angeles en þar lærðum við að taka venjulega skó í sundur og búa til nýja alveg eins, nema með öðruvísi efni. Það sem ég notaði var venjulegt kúaleður en með krókódíla prenti á sér,“ segir Helgi.

Námskeiðið stóð yfir í fimm daga, en þar kynntist Helgi fólki víðs vegar um Bandaríkin sem deildu sama áhugamáli og hann, þó hann hafi verið lang yngstur. „Þetta var erfitt á köflum og við vorum öll að læra eitthvað nýtt. Námskeiðið stóð klárlega undir væntingum og þetta var æðisleg ferð og mögnuð reynsla,“ segir Helgi, en bætir því við að námskeiðið hafi kostað heilmikið. „Ég óskaði eftir styrkjum frá fyrirtækjum á Suðurnesjum og þau voru mörg sem styrktu mig. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir það.“

Ástæða þess að Helgi byrjaði að sauma segir hann vera fyrirmyndir sínar í fyrirtækinu Inklaw. „Mér finnst JÖR líka geggjaður.“ Eftir námið á listabraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, stefnir Helgi svo á að fara erlendis í skóla. „Dominic sagði mér að koma aftur til sín og vera lærlingur í viku. Minn stærsti draumur er svo að hanna fyrir stór fyrirtæki eða jafnvel að eiga mitt eigið fyrirtæki,“ segir hann.

Foreldrar Helga fóru með honum til Los Angeles og segir hann þau hafa hjálpað sér ótrúlega mikið. „Mig langar að þakka fjölskyldunni minni og styrktaraðilunum mínum sem stóðu öll við bakið á mér.“

[email protected]