DRAUMURINN AÐ LEIKA KRIMMA Á MÓTI TRAVOLTA
Jón Marinó Sigurðsson er Keflvíkingur sem er tilbúinn að gera nánast hvað sem er fyrir frægðina. Hann hefur meira að segja afrekað það að koma nakinn fram fyrir fullum sal af áhorfendum. Jón, alias Jonni, smitaðist af leiklistarbakteríunni fyrir þremur árum síðan þegar hann tók þátt í söngleiknum Besta sjoppan í bænum. Við hittumst á Kaffi Iðnó og Jonni fékk sér te, segir það ekki vera seinna vænna en að venja sig á tedrykkju. Hann er nefnilega ákveðinn í að fara í leiklistarnám til Englands á næsta ári. Draumurinn er að fá að leika krimma á móti hetjunni, John Travolta, í Hollywood-mynd.Syngur og dansarJonni er er borinn og barnfæddur Keflvíkingur, sonur Ingibjargar Jónu Jónsdóttur og Sigurðar Marinóssonar. Hann segist eiga fullt af aukasystkinum, eins og það kallast. Jonni er ekki bara upprennandi leikari heldur hefur hann einnig lært söng hjá Árna Sighvatssyni og Sigurði Sævarssyni og dans hjá Emilíu. Hann hefur m.a. sungið með Léttsveit Keflavíkur og fór með henni í tónleikaferðalag til Boston 1998. „Það er stór þáttur að geta dansað, hafa takt í sér og að geta tjáð þig með öllum líkamanum. Þá kemur þessi útgeislun sem leikarinn stýrir til áhorfenda“, segir Jonni.Guðný dró mig í leikfélagið„Ég fékk hlutverk í söngleiknum Bestu sjoppunni í bænum og lék þar töffarann Bóbó og Guðný Kristjánsdóttir, formaður Leikfélags Keflavíkur, lék á móti mér. Hún dró mig svo í leikfélagið“, segir Jonni þegar hann er spurður að því hvernig hann hafi ratað á fjalirnar en fyrsta uppfærslan sem hann tók þátt í hjá Frumleikhúsinu var Leikhúslíf. Skemmtilegur og flinkur leikariSýningum á söngleiknum Oliver er nýlokið en þar túlkaði Jonni þjófaforingjann Fagin á eftirminnilegan hátt. Hann fékk stórgóðan dóm fyrir leik sinn hjá Guðbrandi Gíslasyni, leiklistargagnrýnanda Morgunblaðsins, þar segir m.a. „Þó er það stjarna þeirra Keflvíkinga, Jón Marinó Sigurðsson, sem vinnur hug og hjörtu áhorfenda sem Fagin. Jón Marinó er bæði skemmtilegur og flinkur leikari, og taktar hans og tilburðir eru eitt af því sem gerir þessa sýningu vel þess virði að sækja hana.“ Jonni segist ekki hafa búist við að fá svona góða gagnrýni en hann ætlar ekki að láta það hafa áhrif á sig heldur halda sínu striki.Á leið til BretlandsJonni segist vera farinn að skoða skóla bæði á Englandi og Skotlandi. Hann stefnir á að fara út í maí í enskuskóla, „til að ná hreimnum og venja mig á að drekka te“, segir Jonni og slettir nokkrum orðum á ensku eins og enskum aðalsmanni sæmir. Drengurinn á örugglega eftir að spjara sig á Bretlandi með þessu áframhaldi. „Ég er loksins búin að finna það sem mig langar til að gera. Ég hef aldrei haft gaman af að vera í skóla en núna langar mig virkilega til að læra eitthvað“, segir Jonni.Vil leika vondan karl„Ég þarf að æfa mig fyrir inntökuprófin og leikstjórarnir sem ég hef unnið með hér heima ætla að hjálpa mér. Ég þarf að fara með eitt eintal úr Shakespear og annað að eigin vali. Þegar ég er búinn með skólann ætla ég mér að vera erlendis í nokkur ár og reyna fyrir mér“, segir Jonni og það er ekki um að villast að þarna fer maður fullur sjálfstrausts. Er stefnan þá tekin á Hollywood? Já. Ég ætla að leggja allt mitt í þetta og draumurinn er að leika í kvikmynd í Hollywood á móti John Travolta, uppáhaldsleikaranum mínum og að við verðum báðir í hlutverkum vondu karlanna. Ég hef haldið uppá Travolta síðan ég var smápolli“, segir Jonni.Nakinn á sviðiÞrátt fyrir að eiga sér drauma um frægð og frama á fjarlægum slóðum segist Jonni vel geta hugsað sér að starfa á Íslandi í framtíðinni. Hann hefur þegar fengið nasaþefinn af því hvernig það er að standa á sviði Þjóðleikhússins en leikfélagið var með eina gestasýningu þar árið 1998 á Stæltum stóðhestum. Það var ekkert venjulegt leikrit því Jonni og félagar hans þurftu að leika naktir. „Það var rosalega erfitt að leika nakinn. Frumsýningin var sérstaklega erfið því ég vissi af allri fjölskyldunni úti í sal. Andrés Sigurvinsson leikstýrði okkur en hann er alveg dúndur leikstjóri. Til að losa okkur við feimnina þá fórum við í gegnum allt leikritið á nærbuxunum. Þetta varð ekkert mál fyrir okkur eftir smá tíma. Ég var í rauninni ekki ég sjálfur á sviðinu, heldur önnur persóna sem ég lánaði líkama minn. Hvað gerir maður ekki fyrir frægðina?“, segir Jonni hlægjandi en svarar svo eigin spurningu og segist setja mörkin við að fara á súluna. En hvað ef súludans væri skilyrði fyrir að fá að leika á móti Travolta? Jonni er kominn í klemmu og segir án umhugsunar að hann myndi gera hvað sem er fyrir hlutverk á móti Travolta, jafnvel skella sér á súluna. Sýningin í Þjóðleikhúsinu var eftirminnileg fyrir Jonna og félaga því ljósin slökknuðu ekki strax og þeir stóðu á sprellunum lengur en vanalega með hattana á lofti. „Salurinn var troðfullur, um 550 áhorfendur. Hjartað í mér fór alveg á fullt. Þegar ljósin fóru loksins niður, fórum við baksviðs og hoppuðum út um allt með adrenalínið alveg í botni. Við gleymdum næstum því að hneigja okkur. Þjóðleikhússtjórinn sagði í teiti eftir sýninguna að hann myndi ekki aðra eins stemmingu í Þjóðleikhúsinu“, segir Jonni og brosir af minningunni.Maður þarf að þora á sviðinuÞegar venjulegt fólk horfir á leikara fara með margra tíma rullur utanbókar, skýtur þeirri spurningu ósjálfrátt upp í kollinn hvernig þetta sé hægt? „Þegar ég er búin að fá handritið í hendurnar og kominn með hlutverk vinn ég rosalega mikið með textann. Ég læri mitt hlutverk einfaldlega með því að lesa textann þúsund sinnum. Síðan fer ég á svið og leikstjórinn fer yfir stöðurnar okkar. Þá er aðalatriðið að muna allt sem leikstjórinn segir og hlusta mjög vel. Þetta kemur svo yfirleitt í rennslinu. Leikstjórinn lætur mann vita hvernig hann vill hafa hlutina og maður þarf að þora á sviðinu“, segir Jonni. En hvernig finnst honum að sleppa sér á sviðinu, gráta, hlægja og allt þar á milli? „Það er æðislegt, maður þarf líka að vera svolítið geðveikur til að vera leikari. Mér líður best að koma á svið í öðrum karakter en ég er“, segir Jonni. Þarftu að flýja veruleikann? „Nei, alls ekki. Mér líður mjög vel að vera sá sem ég er. Það er bara svo gaman að gefa fólki tækifæri á að upplifa annan heim.“ Jonni segir áhorfendur þó vera mjög misjafna og stundum sé salurinn alveg dauður. „Ég sé ekki áhorfendur en ég finn ákveðna strauma. Leikarar eiga að geta útilokað sig algerlega frá áhorfendum, verið persónan sem þeir eru að leika því atburðirnir á sviðinu eru að gerast.“Ég er bara stór krakkiJonni segist hafa dundað sér við að skrifa leikrit og nú sé hann t.d. að ljúka við að skrifa lítið leikrit fyrir nemendur í 1.-5. í Vogaskóla. Hann hefur einnig unnið með krökkum úr Njarðvíkurskóla s.l. tvö ár og aðstoðaði þau m.a. við að setja upp leikritið ´68 kynslóðin í Frumleikhúsinu. „Krakkarnir höfðu ofboðslega gaman af því að fá að vera með sýninguna í alvöru leikhúsi, með ljósum og öllu. Þau stofnuðu meira að segja leiklistarklúbb, gerðu leikskrána og sáu um allt sjálf. Krakkar hafa svo gott af því að leika, þá fá þau algert tjáningarfrelsi. Í dag er allt búið til fyrir krakka, þau kunna varla að leika sér lengur og finna sjálf upp leiki. Ég hef tekið eftir því þegar ég segi þeim að spinna, þá eiga þau mörg hver í miklum erfiðleikum með að búa til eitthvað sjálf. Þau segjast ekki vita hvað þau eigi að segja og gera.“ Jonni segist aldrei hafa verið í vandræðum með að leika sér þegar hann var barn. „Ég var ímyndunarveikt barn og gat leikið mér aleinn í bíló tímunum saman. Ég er ennþá bara stór krakki og finnst gaman að leika mér. Þetta er svo skemmtilegt“, segir Jonni og tekur nettan sopa af af teinu sínu sem er orðið kalt.Viðtal: Silja DöggMynidr: Hrós og hbb