Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Dómararnir í höfðinu hafa stoppað mig af
    Lísa í Frumleikhúsinu í uppsetningu Litlu Hryllingsbúðarinnar.
  • Dómararnir í höfðinu hafa stoppað mig af
    Lísa ásamt nemendum sínum í 2. bekk í Njarðvíkurskóla.
Laugardagur 1. apríl 2017 kl. 06:00

Dómararnir í höfðinu hafa stoppað mig af

„Alltaf verið draumurinn að fara með tónlistina mína út fyrir Ísland,“ segir söngkonan Lísa Einarsdóttir

Lísa Einarsdóttir lék eitt aðalhlutverkanna í Litlu Hryllingsbúðinni sem Leikfélag Keflavíkur hefur sýnt undanfarnar vikur og vakti athygli fyrir góða frammistöðu á sviðinu. Blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Lísu þar sem hún var að ljúka við kennslu, en hún er umsjónarkennari annars bekks í Njarðvíkurskóla ásamt því að sinna, vægast sagt, mörgu öðru. Auk kennslunnar og leiklistarinnar er hún söngkona og móðir, svo fátt eitt sé nefnt.

Lísa hefur frá unga aldri tekið þátt í tónlist. Sem barn var hún mikið í kórum, lærði söng í Domus Vox, hjá Tónlistarskóla FÍH og kláraði miðstig í klassísku námi í Söngskóla Reykjavíkur en áttaði sig síðan seinna meir á því að klassískt nám væri ekki hennar tebolli. „Ég hef verið að syngja úti um allt. Við skírnarathafnir, í brúðkaupum, afmælum og á alls konar böllum bæði með hljómsveitum og með undirspil. Þetta hefur gefið mér góða reynslu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2009 tók Lísa þátt í Idol Stjörnuleit þar sem hún endaði í 3. sæti. Fljótlega eftir það fór hún að syngja með hljómsveitinni Íslenska Sveitin sem spilaði víða. Hún tók einnig þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins árin 2007 og 2011. „Það hefur alltaf verið draumurinn að fara með tónlistina mína út fyrir Ísland, en dómararnir í höfðinu hafa stoppað mig af,“ segir Lísa en hún hefur verið að semja tónlist og ætlar hugsanlega að gefa út lög á næsta ári.

Lísa er meðlimur í Kíton, sem er hópur kvenna í tónlist á Íslandi. „Það hefur mikið verið rætt að það séu nánast engar konur í tónlist og að þær hafi ekki áhuga á tónlist. En það er bara alveg hellingur af konum þarna. Tilgangur Kíton er skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist.” Meðal annarra meðlima Kítón af Suðurnesjum eru Elísa Newman, Harpa Jóhannsdóttir og Marína Ósk Þórólfsdóttir.

Lísa er lærður kennari, með diplómu í lestrarfræði, viðbótar diplómu í hagnýtri jafnréttisfræði og með master í faggreinakennslu í grunnskóla. „Ég er bara búin að vera í smá fríi í tónlistinni. Ég er búin að vera í námi síðan árið 2009 og eignaðist barn árið 2015.“

Samhliða öllu þessu tók Lísa þátt, eins og áður kom fram, í uppsetningu Leikfélags Keflavíkur á Litlu Hryllingsbúðinni, sem sýnd var seinustu vikur, sem hún segir hafa verið ótrúlega skemmtilegt. Með því fetaði hún í fótspor móður sinnar sem lék með leikfélaginu sem unglingur. „Ég þurfti bara einhvern veginn að koma mér af stað. Mig hefur ótrúlega lengi langað að leika með Leikfélagi Keflavíkur en hingað til ekki þorað. Svo ákvað ég bara að kýla á það. Það var annað hvort núna eða að sleppa því bara hreinlega. Það fer mikill tími í þetta en þetta gefur manni bara svo ótrúlega mikið.“
[email protected]