Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Dísurnar á tónleikum í Kálfatjarnarkirkju
Þriðjudagur 18. maí 2004 kl. 10:57

Dísurnar á tónleikum í Kálfatjarnarkirkju

Á uppstigningardag, fimmtudaginn 20. maí kl.17.00, verða haldnir tónleikar í Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd.

Á tónleikunum kemur fram kvartettinn „Dísurnar“,  skipaður Eydísi Franzdóttur, óbóleikara, Bryndísi Pálsdóttur, fiðluleikara, Herdísi Önnu Jónsdóttur, víóluleikara og Bryndísi Björgvinsdóttur, sellóleikara.  „Dísurnar“ hafa allar verið virkar í Íslensku tónlistarlífi um árabil.  Sem kvartett hafa þær starfað saman frá árinu 1997 og m.a  komið fram á Háskólatónleikum, Poulenc-hátíð í Iðnó og 15:15 tónleikum í Borgarleikhúsinu.  Tónleikarnir eru liður í tónleikaferð kvartettsins um landið.

Á efnisskránni eru kvartettar fyrir óbó og strengi eftir Britten og Mozart, stef úr Fellini myndum eftir Nino Rota í úts. Jóhanns G. Jóhannssonar tónlistarstjóra Þjóðleikhússins og kvartett fyrir enskt horn og strengi eftir Francaix. 

Óbókvartett Brittens er fantasía æskuáranna þrungin af  krafti og spennu.  Þrátt fyrir að Britten hafi samdið kvartettinn aðeins 19 ára gamall er þetta líklega eitt mest flutta verk hans. Kvartett Mozarts er ein af helstu perlum kammertónsmíða hans, þar sem tónlistin flæðir óhindruð að hætti meistarans. Síðari hluti efnisskrárinnar er sannkölluð gleði tónlist, því franska tónskáldið Jean Francaix og ítalska tónskáldið Nino Rota eiga það sameiginlegt að hafa samið tónlist til að gleðja.  Francaix til að gleðja sjálfan sig en Nino Rota til að gleðja aðra, þó ekki væri nema um stund. Stef hans úr Fellini kvikmyndum verða leikin í frábærri útsetningu Jóhanns G. Jóhannssonar tónlistarstjóra Þjóðleikhússins. Verk Francaix einkennast af léttleika, glensi og gríni, þar sem skiptast á hraðar hrynbreytingar og grípandi laglínur.  Kvartettinn fyrir enskt horn og strengi er þar engin undantekning og má því ætla að tónleikagestir haldi út í vorið með léttri lund.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024