Demantar – Vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
Kvennakór Suðurnesja heldur tónleika í Bíósal Duus safnahúsa 2. og 4. maí næstkomandi. Kórinn ætlar að flytja frábær lög sem eru algjörir tónlistardemantar frá tímabilinu 1940 til 2020.
Nostalgían verður allsráðandi, flutt verða lög sem gerð voru ódauðleg af flytjendum eins og Frank Sinatra, Marilyn Monroe, Bítlunum, Cindy Lauper, Toto, Sting, Emilíönu Torrini, Of monsters and men, Mugison og fleirum.
Kórinn fagnar því að geta loksins haldið tónleika án samkomutakmarkana en síðustu tvö ár hefur verið mikil áskorun að halda úti kórstarfi. Má þar nefna að tónleikar sem upphaflega var áætlað að halda vorið 2020 voru loksins haldnir í september 2021 en þá hafði kórinn nokkrum sinnum þurft að gera hlé á æfingum og fresta tónleikunum vegna heimsfaraldursins. Að þeim tónleikum loknum hófust strax æfingar á nýju prógrammi sem eins og áður sagði, samanstendur af tónlistardemöntum frá 1940 til dagsins í dag. Æfingar hafa gengið ótrúlega vel þrátt fyrir samkomutakmarkanir stóran hluta vetrarins. Kórkonur hlakka mikið til að flytja þessi lög fyrir tónleikagesti og eru þess fullvissar að þeir eiga eftir að skemmta sér vel á þessari kvöldstund. Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þ. Jónsdóttir og með kórnum verður hljómsveit sem skipuð er þeim Geirþrúði F. Bogadóttur á píanó, Þorvaldi Halldórssyni á trommur, Karli S. Einarssyni á bassa og Sigurði Ólafssyni á gítar.