Davíð Ólafsson: Afmælistónleikar í kvöld til styrktar hjálparstarfi
Sjéntilmaðurinn og söngfuglinn Davíð Ólafsson varð fertugur í gær. Af því tilefni mun hann efna til tónleika í Langholtskirkju í kvöld kl. 20 og mun ágóði af miðasölu renna til hjálparstarfs ADRA. Fjöldi tónlistar- og samstarfsfólks mun heiðra afmælisbarnið með nærveru sinni og koma fram með honum á sviðinu.
„Vandamálið við að verða fertugur er að finna út hverjum eigi að bjóða í afmælið. Ég ákvað því að fara hina leiðina, opna húsið og sjá hverjir vilja koma. Eins og stemmningin er í þjóðfélaginu varð niðurstaðan að halda tónleika og styrkja hjálparstarf ADRA í leiðinni,“ segir Davíð.
ADRA er líknarfélag sem styður við fjölskylduhjálp á Íslandi og vinnur gegn barnavændi í Kambodíu og Tælandi. ADRA starfar reyndar út um allan heim en deildin á Íslandi styrkir sérstaklega ofangreind verkefni.
Söngvarinn er vel kunnur starfsemi ADRA því hann starfaði innan samtakanna fyrir um 17 árum síðan. Fór á þeirra vegum til Pakistans til að byggja skóla og berjast gegn barnaþrælkun. Aðspurður um hvort þetta hafi ekki verið góð lífsreynsla er svarið stutt og laggott: „Maður hefur ekki kvartað mikið síðan“.
Davíð starfaði í mánuð á landamærum Pakistans og Afganistans þar sem ADRA rekur annað stærsta sjúkrahúsið í landinu. Hann hefur verið viðloðandi starf samtakanna og fylgst með því síðan. Davíð segir samtökin hafa náð gríðarlega góðum árangri en starfið sé ekki mikið þekkt hér á Íslandi og því hafi hann viljað vekja athygli á því.
Á tónleikunum mun stíga á svið margt af því fólki sem afmælisbarnið hefur verið samferða á ferli sínum, þeirra á meðal Karlakórinn Fóstbræður, Garðar Thór Cortes, Jóhann Friðgeir, Valgerður Guðnadóttir, Steinn Erlingsson, Jóhann Smári og fleiri.
Tónleikarnir verða í rúma klukkustund og á eftir verður boðið upp á léttar veitingar og fjöldasöng í hliðarsal Langholtskirkju. Miðaverð er 2000 krónur.
Miðasala opnar annað kvöld kl. 18.00 Þeir sem hafa áhuga á að tryggja sér miða hafi samband við Eirík í síma 6608000 eða [email protected]
----
VFmynd/Þorgils – Davíð Ólafsson á sviði með Karlakór Keflavíkur