Dauð viðvörun í október
Skólaslit 2
Nemendur grunnskólanna á Suðurnesjum vöknuðu spenntir á hverjum degi í október á síðasta ári til þess að lesa nýjan kafla í hrollvekjunni Skólaslit. Hrollvekjan sló rækilega í gegn í fyrra en hún er hugarfóstur kennsluráðgjafa á Reykjanesi og Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar. Nú er komið að Skólaslitum 2 en í þetta skiptið fær sagan yfirskriftina Dauð viðvörun og má búast við nýjum kafla á hverjum virkum degi í október.
Hvernig varð hugmyndin að Skólaslitum til?
„Það var hringt í mig og ég spurður hvort ég væri laus, sem ég var ekki, en grunnhugmyndin og þessi brennandi áhugi að búa til lestrarhvetjandi efni með áherslu á lestur drengja, var eitthvað sem kitlaði mig. Þeir sem voru hinu megin á línunni voru meðal annars Anna Hulda Einarsdóttir og fleiri héðan af Reykjanesinu. Við byrjuðum að henda bolta á milli og úr varð skrímsli sem tók yfir Reykjanesbæ og fleiri bæjarfélög fyrir ári síðan og nú ætlum við að endurtaka leikinn,“ segir Ævar Þór.
100 skólar tóku þátt í Skólaslitum 1
Anna Hulda, kennsluráðgjafi hjá Reykjanesbæ, segir viðtökur skólanna, nemendanna, kennaranna og heimilanna á verkefninu hafa verið góðar. Þá segir hún að í heildina hafi um 100 skólar tekið þátt opinberlega í verkefninu í fyrra og stefnt er á að gera enn betur í þetta skiptið. „Skólar á okkar svæði, í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt félagsmiðstöðinni og bókasafninu í Reykjanesbæ, voru samstarfsaðilar í verkefninu og tóku fullan þátt. Síðan buðum við auðvitað öðrum skólum á landinu að taka þátt í gegnum skolaslit.is og viðtökurnar létu nú ekki á sér standa. Allskonar skemmtileg og skapandi verkefni urðu til. Það verður gaman að fylgjast með því hvað gerist í framhaldinu í Skólaslitum 2. Mér finnst líka mikilvægt að tala um heimilin í þessu sambandi því það voru ekki bara skólarnir og nemendur heldur tóku mjög mörg heimili þátt í Reykjanesbæ, á Íslandi og líka í útlöndum. Við fengum heimsókn inn á síðuna frá mörgum löndum.“ segir Anna Hulda.
Fékk ljósmyndir af hálfum íþróttakennurum
Ævar segir viðbrögð nemenda hafa verið góð og vonast til þess að sagan ýti undir sköpunarþörf þeirra. „Fyrsti kaflinn í fyrstu Skólaslitunum byrjar á því að þú labbar inn í skóla og það er allt í rúst og meðal annars er hálfur íþróttakennari í einu horninu. Ég fékk meira að segja sendar nokkrar ljósmyndir þar sem nemendur voru að endurgera þessa senu, ef maður hefur ekki meikað það sem barnabókahöfundur þegar maður fær sendar myndir af hálfum íþróttakennurum þá vil ég ekki vita hvað það er. Viðbrögðin hafa verið rosalega góð og sérstaklega núna þegar við erum að segja nemendum á Reykjanesinu að það sé að koma framhald, krakkarnir eru svo duglegir að henda í mig hugmyndum. Það er búið að vera rosalega gaman að samtalinu sem skapast og það líka ýtir undir þeirra sköpunarþörf. Þá sérstaklega ef þau sjá að hugmynd frá þeim verður að einhverju í bókinni, þá plantar það fræjum sem seinna meir verða kannski að metsöluhöfundum eða einhverju slíku,“ segir Ævar.
Nýr viðbjóður fyrir landsmenn
Ævar skrifaði einn kafla á hverjum degi í október í fyrra, aðspurður hvaðan hann fær innblástur og hugmyndir að nýjum atriðum í sögunni segir hann: „Frá kaffi og örvæntingu og að vita að ég þarf að skrifa kafla sem þurfa að enda spennandi til að fleyta sögunni áfram því hann þarf að enda í þessu 31. kafla ævintýri. Þeir rammar hjálpa mér rosalega mikið við að búa til söguna.“ Ævar segir nemendur mega búast við mikilli hrollvekju og „nýjum viðbjóði“ í Skólaslitum 2. „Í október í fyrra var svolítið vont veður og sagan litast svolítið af því. Á plakatinu má sjá hvirfilbyl, rútu og hóp af einhverjum mjög svöngum að elta rútuna. Við Ari, sem teiknar myndirnar, hlökkum mikið til að sprauta einhverjum nýjum viðbjóði inn í október fyrir landsmenn,“ segir Ævar að lokum.