Danskt Bigband í Stapa í dag
Sunnudaginn 14. október nk. kl. 16.00 mun Stórsveit Sct. Mariae Skole í Álaborg í Danmörku, Sct. Mariae Skoles Bigband, halda tónleika í Stapa ásamt Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Danska stórsveitin verður í heimsókn hér á landi dagana 12. til 19. október og auk tónleikanna í Stapa, mun Sct. Mariae Skoles Bigband leika við messu í Keflavíkurkirkju nk. sunnudag kl. 11. Sveitin leikur einnig á höfuðborgarsvæðinu.
Hljóðfæraleikararnir í Sct. Mariae Skoles Bigband eru 30 talsins á aldrinum 13 – 17 ára og það eru hljóðfærakennarar frá Listaskóla Álaborgar, Aalborg Kultur Skole, sem kenna nemendunum.
Stórsveitin leikur tónlist í ýmsum stíltegundum, sveiflu, rokk og popp, en það er athyglisvert að sveitin hefur einnig kirkjulega tónlist á efnisskrá sinni og nýtir hana þegar það á við.
Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er ein af fremstu stórsveitum landsins og hefur borið hróður Reykjanesbæjar og Tónlistarskólans síns víða, bæði innan lands sem utan.
Á tónleikunum í Stapa á sunnudaginn kemur, munu Sct. Mariae Skoles Bigband og Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leika sitt hvora efnisskrána, en síðan munu sveitirnar leika saman nokkur lög. Það er gaman að geta þess að þær munu frumflytja nýtt tónverk; verk fyrir 2 big-bönd, sem var samið sérstaklega fyrir þessar stórsveitir af danska tónskáldinu Jesper Riis. Verkið byggir á íslenskum og dönskum lögum sem sett eru fram í eins konar syrpu. Verkið var samið með styrk frá Menningarsjóði Norðurlandaráðs.
Stjórnendur stórsveitanna eru Gert Norgaard, tónlistarkennari við Sct. Mariae Skole og Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.