Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dansandi dúxinn
Föstudagur 1. janúar 2016 kl. 12:00

Dansandi dúxinn

Sylvía Rut stefnir á læknisfræði

Sylvía Rut Káradóttir útskrifaðist með glæsibrag frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja við brautskráningu á dögunum þar sem hún hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi. Hún var með 9,17 í meðaleinkunn en hún lauk stúdentsprófinu á þremur og hálfu ári. Hún segir tímann í FS seint renna henni úr minni enda hafi skólagangan verið afar ánægjuleg. Hún lagði mikið á sig og stundaði og kenndi dans meðfram náminu auk þess að taka virkan þátt í félagslífinu. Hún segir galdurinn á bakvið árangurinn einfaldlega felast í því að sinna náminu jafnt og þétt yfir alla önnina. Hún stefnir á að læra læknisfræði en það hefur verið draumur hennar frá unga aldri.

Sylvía stefndi nú ekki beint að því að dúxa en hún varð fyrst afburðar nemandi í lok grunnskóla þegar hún hlaut verðlaun fyrir mestu framfarir í námi. Henni þótti það því rökrétt framhald að halda uppteknum hætti þegar komið var í framhaldsskóla. Áður en hún valdi að fara í FS íhugaði hún stóru skólana í Reykjavík, bæði Versló og MR. Hún valdi að lokum að vera á heimaslóðum þar sem hún gæti sinnt aðal áhugamáli sínu af heilum hug, en Sylvía hefur stundað dans frá unga aldri. „Mörgum finnst ótrúlegt hvernig ég fór að þessu. Ég var nánast alltaf niður í Danskompaní, bæði að kenna og æfa allan daginn. Ég var nánast í fullri vinnu meðfram náminu allt frá busaönninni. Ég vildi ekki missa af því tækifæri að fá að kenna í Danskompaní. Þetta hjálpaði mér að skipuleggja mig betur og ég nýtti allan lausan tíma til þess að læra,“ segir dúxinn Sylvía.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við útskrift fékk Sylvía viðurkenningar fyrir góðan árangur í lífeðlisfræði, efnafræði, stærðfræði og spænsku. Hún fékk verðlaun frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræði og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Hún fékk 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift. Sylvía Rut hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi. „Ég hef alltaf fengið 10 í ástundun sem ég er mjög sátt með. Ég hef alltaf mætt í alla tíma og verið reglusöm. Það hjálpar gríðarlega mikið að vera ekki að skrópa eða sofa,“ segir Sylvía.

Fjölskyldan táraðist við athöfnina
Þessi árangur kom vinum hennar í skólanum ekkert sérstaklega á óvart en sömu sögu er ekki að segja um fjölskylduna hennar. „Það hefur enginn í okkar fjölskyldu unnið verðlaun sem tengjast námi. Bróðir minn lærði að vera smiður og systir mín var bara meðal námsmaður. Svo kem ég þarna örverpið 11 árum eftir að systir mín klárar stúdent og mamma bjóst ekkert við þessu. Ég var kölluð upp seinast við útskriftina og mamma var þá búin að gefa upp vonina og sagði við systur mína að ég fengi greinlega engin verðlaun. Svo kem ég upp seinust og verðlaunum var hlaðið á mig. Mamma táraðist bara og amma og systir mín fóru bara nánast að gráta þarna, þannig að þetta kom fjölskyldunni minni í opna skjöldu,“ segir Sylvía og hlær. Hún segist alltaf hafa þurft að leggja sig fram og hafa fyrir þessum árangri. Hún hafi ekki fengið mikla hjálp heima fyrir heldur unnið hörðum höndum fyrir sínu.

Sylvía efst til vinstri við í sýningunni Moulin Rouge.

Nóg að gera í félagslífinu
Sylvía lék eitt af aðalhlutverkunum í sýningunni Moulin Rouge sem FS-ingar settu upp í fyrra og tók ásamt vinkonum sínum þátt í Ísland got talent á síðustu önn. „Það var brjálað að gera á síðustu önn. Mamma hafði orðið áhyggjur að ég væri að fá taugaáfall,“ segir Sylvía og hlær. Þá kom það fyrir að Sylvía þurfti að sinna náminu fram á nótt. Hún segist vera dugleg að nýta þann tíma sem gefst til þess að læra og lukkulega þarf hún ekki mikinn svefn.

„Ég hef alltaf lært jafnt og þétt yfir önnina. Ég hefði aldrei fengið svona góðar einkunnir ef ég hefði ekki gert það. Það er galdurinn við þetta, að sinna náminu þannig að þú sért bara að rifja upp námsefnið þegar þú ferð í lokapróf.“ Stefnan er tekin á læknisfræði en það hefur Sylvía haft sem markmið síðan í grunnskóla. Hún er þegar farin að huga að undirbúningi en inntökupróf er í júní á næsta ári. Hún ætlar að nýta tímann vel þangað til og læra vel undir prófið. „Ég er annars alveg bjartsýn á að komast inn í skóla í Danmörku eða Svíþjóð en það er alveg möguleiki líka, mig langar mikið að fara út,“ segir dúxinn Sylvía að lokum.

Sylvía ásamt stoltum foreldrum sínum.