Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dansæði meðal strákanna
Föstudagur 27. nóvember 2009 kl. 09:15

Dansæði meðal strákanna

Mikill áhugi er á dansnámi á meðal stráka á Suðurnesjunum. Svo mikill er áhuginn að útlit er fyrir að það verði sérstakir strákahópar hjá nýja dansskólanum DansCentrum, segir í tilkynningu frá skólanum. „Venjan er að strákar og stelpur æfa saman en það lítur út fyrir að það verði sérstakir strákahópar settir saman því þeir eru svo margir sem hafa haft samband“, segir Ásta Bærings hjá DansCentrum í tilkynningunni. „Það er því ekkert því til fyrirstöðu að strákar sem hafa áhuga á að læra alvöru dans skrái sig því með þessu áframhaldi þá verður DansCentrum með flottasta strákadanshópinn á landinu eftir smá ástundun“.

Samkvæmt Ástu kemur þessi áhugi samt sem áður ekki á óvart þegar litið er til aukinnar dansumfjöllunar svo ekki sé minnst á sjónvarpsþáttinn So You Think You Can Dance þar sem augu íslenskra stráka opnuðust fyrir því hvað dans er flott íþrótt. Flestar skráningarnar hjá strákunum hafa komið frá 12 ára og yngri en Ásta vonar að fleiri unglingsstrákar skrái sig á næstu dögum. „Ég vil bara hvetja alla stráka sem vilja læra flotta dansa og taka þátt í sýningum, að skrá sig sem fyrst því hópurinn verður sterkari því fleiri sem taka þátt“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið DansCentrum er að þjálfa upp fjölhæfa dansara sem búa yfir nægri tækni til að geta tileinkað sér sem flesta dansstíla allt frá hip-hop yfir í nútímadans en námið í skólanum nær yfir heilan vetur. Skólinn hefur starfsemi sína í janúar á nýju ári.

Nánari upplýsingar er að finna á www.danscentrum.is og á Facebook undir heitinu DansCentrum.