Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dagur villtra blóma á Suðurnesjum
Miðvikudagur 16. júní 2004 kl. 10:18

Dagur villtra blóma á Suðurnesjum

Náttúruunnendur á Suðurnesjum hittust sunnudaginn 13. júní 2004 klukkan 15:00 við Háabjalla (skammt frá Reykjanesbraut austan Grindavíkurafleggjara) og skoðuðu blóm og plöntur sem vaxa þar og allar götur að Snorrastaðatjörnum. Á þessu svæði er gróður töluvert fjölbreyttur enda bæði þurrir móar og votlendi; sumt í skjóli en annað í næðingi.
Við gerðum þetta til fróðleiks og skemmtunar og til að njóta náttúrufegurðar. Allir voru velkomnir – fullorðnir sem börn -  hvort sem þeir þekktu mikið eða lítið af plöntum. Þeir sem meira kunnu miðluðu hinum. Sumir voru með plöntubækur og jafnvel stækkunargler. Þátttakendur voru 22 talsins á öllum aldri. Veðrið var frekar hryssingslegt, lágskýjað og gekk á með smáskúrum, en hitinn  þó 12 stig.
Fólk safnaðist saman á bílastæðinu ofan við Háabjalla. Fólk fékk  flóruspjald með íslenskum plöntunöfnum til að merkja við það sem finndist. Síðan var byrjað að skoða plöntur í frekar vindbörðum móa ofan við misgengið og fannst þar furðu margt. Hópurinn þokaðist svo niður brekkuna og skiptist í smærri hópa sem fóru mis hratt yfir. Flóruspjöldin vöktu áhuga og ýttu undir mannlega söfnunaráráttu.
Þeir sem lengst héldu út í kuldanum gengu að Snorrastaðatjörnum og litu þar á votlendisgróður, m.a. myndarlegar blómstrandi horblöðkubreiður, og enduðu í skjóli í skógræktinni undir Háabjalla þar sem hæstu sitkagrenitrén eru um 15 m og auk þess farin að sá sér. Þessi gönguleið er vel á annan kílómetra og tók röska tvo tíma að rölta hana, enda mikið skoðað og pælt.
Í skógarrjóðri var tekið upp nesti og spjallað saman yfir heitum drykkjum og bornar saman bækur. Í grasbrekkunni við skógarreitin fundum við gnægð af blómstrandi viltum jarðarberjaplöntum, fullt af undurfögrum brönugrösum og hina sjaldgæfu skógfjólu sem var að vísu ekki blómguð.
Plöntuskoðun sem þessi er framkvæmd á öllum Norðurlöndunum þennan sama dag, en nú í fyrsta sinn á Íslandi, á 9 stöðum hérlendis. Frumkvæðið hér kom frá Flóruvinum undir forystu Harðar Kristinssonar, grasafræðings á Akureyri. Þeir sem vilja ganga í þennan frábæra flóruvinaklúbb sem heldur úti fréttabréfi og vefsíðu ættu að senda tölvubréf til [email protected]
Við viljum endurtaka þennan leik að ári – í sólríkara veðri og hafa meiri tíma til að huga að fegurð jurtanna og notagildi þeirra nú og forðum, t.d. til lækninga. Við hefðum mátt huga að því hver þessara plantna eigi að verða einkennisplanta Íslands eða Suðurnesja. Okkur tókst í sameiningu að greina um 80 tegundir háplantna á þessum tveimur klukkustundum, en á landinu öllu vaxa um 440 tegundir háplantna. Við töldum okkur finna 6 eða 7 tegundir sem ekki eru skráðar í reitinn: kræklurót, spánarkerfil, hófsóley og lindadúnurt við stóru vestustu tjörnina, og hvítsmára og hundasúru nærri bjallanum. Svo fundum við lítinn ræfil í moldarflagi sem gæti verið melanóra. Svo eru tveir nýbúar á svæðinu sem ættu að hafa fengið “ríkisborgararétt” á Íslandi, nefnilega sitkagreni og alaskalúpína. Listinn verður sendur Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri og Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði.

Þorvaldur Örn Árnason

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024