DAGUR TÓNLISTARSKÓLANNA
Vinadagur í NjarðvíkÞað er löngu orðin hefð fyrir því hérlendis að síðasti laugardagurinn í febrúar sé tileinkaður íslenskum tónlistarskólum og því mikilvæga starfi sem þar er unnið bæði af nemendum og kennurum. Þennan dag efna tónlistarskólar gjarnan til einhverra sérstakra dagskráa, t.d. tónleika, bjóða upp á opið hús, efna til ýmiskonar kynninga o.fl.Í ár ber „Dag tónlistarskólanna“ upp á laugardaginn 27. febrúar og þann dag efnir Tónlistarskóli Njarðvíkur til dagskrár sem nefnd hefur verið „Vinadagur“. Nemendur í tónlistarskólum eiga flestir marga vini og margir þeirra hafa aldrei verið í tónlistarskóla eða iðkað tónlist á neinn hátt.Það er til þess hóps, með fulltingi nemenda tónlistarskólans, sem Tónlistarskóli Njarðvíkur vill höfða með Vinadeginum. Hverjum nemanda í almennum hljóðfæradeildum/söngdeild skólans gefst kostur á að bjóða með sér einum vini, vinkonu eða ættingja í tónlistarskólann á Vinadaginn og fær til þess sérstakt boðskort. Dagskráin hefst kl.11.00 með því að nemendur og boðsgestir þeirra mæta á sal, þar sem einn af kennurum skólans mun útlista á stuttan og aðgengilegan hátt, gildi tónlistar fyrir sál og líkama. Síðan verður hópnum skipt í þrennt og fer hver hópur í ákveðna stofu. Þar munu kennarar vinna með hvern hóp í spuna í u.þ.b. 15 mín. Þá skipta hóparnir um stofur, þar til allir hafa farið í allar þrjár stofurnar og þar með tekið þátt í þrenns konar spunadagskrá. Vinadagurinn í Tónlistarskóla Njarðvíkur, á Degi tónlistarskólanna, laugardaginn 27. febrúar n.k., hefst eins og fyrr segir kl.11.00 og áætlað er að dagskránni ljúki um kl.12.00.Febrúar tónsmiðjanLaugardaginn 27. febrúar er Dagur Tónlistarskólanna um land allt. Í tilefni þess mun Tónlistarskólinn í Keflavík verða með sérstakt tónleikahald þennan dag. Í febrúarmánuði hafa allir nemendur Tónlistarskólans í Keflavík tekið þátt í þemaverkefni sem jafnframt er samkeppni og hefur fengið heitið “Febrúar tónsmiðjan” og er meginmarkmið hennar að efla sköpunarþáttinn í skólastarfinu og vekja áhuga nemenda fyrir eigin tónsköpun. Hver nemandi hefur samið lag á sitt eigið hljóðfæri og mun frumflytja verkið á Degi Tónlistarskólanna. Deginum verður skipt í þrenna tónleika á sal Tónlistarskólans við Austurgötu. Fyrstu tónleikarnir verða kl.13:00, svo kl. 14:30 og þeir síðustu kl. 16:00.Skipuð hefur verið þriggja manna dómnefnd í keppninni. Verðlaun verða veitt með tilliti til aldurs og stigs og allir þátttakendur fá viðurkenningu. Verðlaunaafhendingin verður í maí og vinningslög verða flutt við skólaslit.Nú bíðum við spennt eftir að heyra árangur af febrúar tónsmiðjunni. Hver veit nema við heyrum í næsta stórtónskáldi Íslands núna á laugardaginn. Meðan á tónleikunum stendur verður Foreldrarfélag Stúlknakórs TK með kaffisölu en ágóðinn mun renna í ferðasjóð kórsins. Kórinn mun taka þátt í kóramóti sem haldið verður í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC í apríl næstkomandi. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sem flestir komi og heimsækji okkur á þessari uppskeruhátíð okkar!