Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dagur neyðarlaganna líður seint úr minni
Miðvikudagur 31. desember 2008 kl. 11:00

Dagur neyðarlaganna líður seint úr minni



Björk Guðjónsdóttir, þingmaður og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem kom fyrst upp í huga mér við spurningu blaðamanns um eftirminnanlegasta atburð árins var mánudagurinn 6. október, dagurinn sem neyðarlögin svokölluðu, voru sett. Sá dagur á Alþingi Íslendinga var dapur og tilfinningaþrunginn og mun seint líða mér úr minni. Árið 2008 mun ávallt vekja upp minningar um  lausafjárkreppu heimsins og hrun bankakerfisins bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum með öllum þeim afleiðingum sem það hafði fyrir okkur öll.

En það voru aðrir atburðir sem gerðust hér á landi og eru eftirminnanlegir. Miklir jarðskjálftar á Suðurlandi í lok maí, er atburður sem hafði  alvarlegar afleiðingar fyrir sunnlendinga. Allt lék á reiðaskjálfi og fólk varð eðlilega óttaslegið. Náttúruhamfarir  hverju nafni sem þær nefnast vekja alltaf óhug og óþægilegar tilfinningar. Afleiðingar þeirra eru oft svo skelfilegar og þá kemur í ljós hvað maðurinn má sín lítils þegar kraftur náttúrunnar gerir vart við sig.

Úr pólitíkinni finnst mér markvert á árinu að tveir þingmenn Framsóknarflokksins  í  Suðurkjördæmi hurfu úr pólitíkinni nánast á sama tíma. Við það að þessir tveir karlar hurfu úr þingmannahópnum fjölgaði um tvær konur á þingi, það bætir aðeins  kynjahlutfallið í þingmannahópnum.   Það má þakka þeim fyrir það.

Ég held að það hljóti að teljast mjög merkilegur atburður á árinu að maður úr minnihlutahópi í Bandaríkjunum hafi verið kosinn forseti landsins. Miklar vonir eru bundnar við hans störf og verður áhugavert að fylgjast með honum. Vonandi verður hann farsæll og láti gott af sér leiða fyrir heiminn allan.

Okkar ástsæli listamaður Rúnar Júlíusson lést fyrir aldur fram á árinu.  Tónlistarmaður sem  skilur eftir sig skarð sem verður vandfyllt  í samfélagi  okkar.

Ég veit ekki hvað skal segja um árið 2009, annað en það að árið verður erfitt og átakamikið fyrir okkur öll. En jafnfram getur árið verið spennandi og gefandi með nýrri hugsun á mörgum sviðum samfélagsins. 

Fyrir mig persónulega er sumarið eftirminnanlegur og fallegur tími. Veðrið  var frábært og lék við okkur en það  fallegasta var að heilbrigð lítil stúlka sem fæddist í júlí og er annað barnabarnið mitt.

Ég óska Suðurnesjamönnum gleðilegs árs um leið og ég þakka samstarfið á liðnu ári.