Dagur leikskólans: Tjarnarsel setur bóklestur fyrir börn í brennidepil
Börnin í Tjarnarseli velta merkingu orða heilmikið fyrir sér enda þaulvön í þeim efnum. Þessi áhugi kemur mikið til vegna þess að leikskólakennarar í Tjarnarseli hafa þróað aðferð sem þeir kalla Orðaspjall en hún felst í að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri.
Afi er þetta dýrmæt skeið?
Eftirfarandi sögu fengum við frá afa sem á barnabarn í leikskólanum sem er lýsandi dæmi um það hvernig orðaspjallið er að nýtast börnunum. Afinn var að gefa drengnum morgunmat og morgunkornið var komið í skálina. Afinn rétti honum skeið sem hann hafði sjálfur átt sem lítill drengur og segir um leið; ,,ég borðaði alltaf morgunmatinn með þessari skeið þegar ég var lítill eins og þú ert núna.” Stráksi tók við skeiðinni, horfði athugunaraugum á afa sinn og spurði síðan; ,,Afi, er þetta þá dýrmæt skeið?” Börnin höfðu lært hvað orðið dýrmætt þýddi nokkru áður í tengslum við foreldraverkefnið Bók að heiman. Tvö börn komu með fágætar bækur úr eigu foreldra sinna í leikskólann. Í kjölfar þess var mikið rætt um dýrmæta hluti og bækur, strákurinn var greinilega búinn að læra orðið og skilja merkingu þess og ekki síst að ýmsir hlutir frá gamalli tíð geta verið dýrmætir í huga okkar.
Um þessar mundir er unnið að handbók um Orðaspjallsaðferðina í samvinnu við Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Verkefnið hefur notið styrkja frá Þróunarsjóði námsgagna og Skólaþróunarsjóði fræðsluráðs Reykjanesbæjar.
Dagur leikskólans
Í dag, mánudaginn 6. febrúar ætla leikskólar Reykjanesbæjar að bjóða bæjarbúum upp á margbreytilega dagskrá í sínum skóla. Tilefnið er dagur leikskólans sem er haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Tilgangurinn er að m.a. að vekja athygli á mikilvægu hlutverki leikskólans og hvaða nám fer þar fram. Í tilefni dagsins verða sett upp gullkorn leikskólabarnanna í Tjarnarseli sem heyrst hafa undanfarinn mánuð. Gullkornin lýsa opinni, skemmtilegri og frjórri hugsun barna. Ásamt gullkornunum verða handarför þeirra til sýnis í gluggum leikskólans, vegfarendum til skemmtunar og yndisauka.