Dagskráin í Reykjanesbæ á 17. júní
Þjóðhátiðardegi Íslands verður fagnað um öll Suðurnesin á morgun þann 17. júní með hefðbundinni hátíðardagskrá.
Dagskráin í Reykjanesbæ er fjölbreytt að vanda en m.a. er búið að endurvekja gamla 17. júní hlaupið hjá UMFN sem hefst klukkan 11 við Stapann. Í skrúðgarðinum í Keflavík verður svo hátíðardagskrá þar sem flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þar mun „marka“ Jón R. Jóhannsson draga þjóðfánann að húni. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar mun svo flytja setningaræðu. Ávarp fjallkonu er í höndum Ingibjargar Sólar Jónsdóttur nýstúdents frá FS að þessu sinni. Sigurður Eyberg Jóhannesson, umhverfis- og auðlindaverkfræðingur mun svo halda ræðu dagsins.
Um kvöldið verður svo skemmtun í ungmennagarðinum frá kl. 19:30-22:00. Fram koma: Jóhanna Ruth, Dagný Halla, Bryn Ballet Akademían, Danskompaní. Ungmennagarðurinn verður opinn fyrir alla, grillaðir sykurpúðar, minigolf-keppni, sápufótbolti (Skráning á fjorheimar.is) og fleiri leikir í garðinum.